Risavaxinn sjóbirtingur úr Ytri-Rangá

Einar Falur landaði fiskinum og setti hann svo í háfinn ...
Einar Falur landaði fiskinum og setti hann svo í háfinn til að geta mælt hann í rólegheitum. 94 sentimetrar. Ljósmynd/Einar Falur

Einar Falur Ingólfsson, ljósmyndari og veiðiblaðamaður, landaði tröllslegum sjóbirtingi þegar hann var við veiðar neðst í Ytri-Rangá. Einar Falur var einn á ferð og slóst í drjúgan tíma við stórfiskinn, sem tók hjá honum Black and Blue-keilu. Þegar Einar Falur náði fiskinum á land mældi hann fiskinn 94 sentimetra. „Ég mældi hann tvisvar, bara til að vera viss. Við sátum saman í drjúga stund og spjölluðum, áður en ég gaf honum frelsi,“ sagði Einar Falur í samtali við Sporðaköst fyrr í dag.

Hér eru þeir félagar saman. Einar Falur frétti af einni ...
Hér eru þeir félagar saman. Einar Falur frétti af einni lausri vakt í Ytri-Rangá og stökk á hana. Ljósmynd/Einar Falur

„Ég var orðinn viðþolslaus að kasta á straumvatn, sérstaklega í ljósi þess að Kjarrártúrinn í júní gufaði upp í vatnsleysi. Ég frétti af einni lausri vakt í Ytri-Rangá og stökk á hana. Ég sé ekki eftir því,“ sagði skælbrosandi veiðimaður.

Fiskur upp á 22 til 23 pund

Einar Falur mældi ekki ummál sjóbirtingsins en hann hefur sjálfur mælt 86 sentimetra birting í tvígang og vógu þeir báðir átján pund. Hann giskar sjálfur á að þessi fiskur, sem var virkilega vel haldinn og spikfeitur gæti verið 22 til 23 pund. Það er ljóst að Einar Falur er varkár ef eitthvað er þegar hann áætlar þessa þyngd.

„Ég var með hann í um fjörutíu mínútur og sprengikrafturinn var ótrúlegur. Ég var með bremsuna í botni en samt reif hann út línuna þannig að vældi í hjólinu.“

Þessi stirtla segir allt sem segja þarf um þennan risavaxna ...
Þessi stirtla segir allt sem segja þarf um þennan risavaxna sjóbirting. Ljósmynd/Einar Falur

Einar Falur naut leiðsagnar yngri bróður síns sem er leiðsögumaður við Ytri-Rangá. Hann sagði honum að vaða út fyrir fyrsta streng í Línufljótinu og kastar þar til austurs. Þar hefðu sést laxar upp á síðkastið. Niðurstaðan varð svo þessi gríðarmikli höfðingi. Sjóbirtingur af stærstu gerð.

Fyrir þá sem vilja sjá stutt myndband af veiðihjóli með bremsuna í botni, en samt vælandi af átaki, er rétt að kíkja á Facebook-síðu Einars Fals.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is