Lönduðu þrjátíu á þremur vöktum

Hilmir Víglundsson með 86 sentímetra fisk úr Hölkná.
Hilmir Víglundsson með 86 sentímetra fisk úr Hölkná. Ljósmynd/VR

Þeir Valgarður Ragnarsson, Hilmir Víglundsson og Þorsteinn Guðmundsson lentu í magnaðri veiði í Hölkná í Þistilfirði í vikunni. Þeir félagar veiddu í þrjár vaktir og lönduðu samtals þrjátíu löxum. „Þetta var mögnuð veiði,“ sagði Hilmir Víglundsson í samtali við Sporðaköst.

Valli með einn af mörgum úr þessari ævintýraferð þeirra þremenninga.
Valli með einn af mörgum úr þessari ævintýraferð þeirra þremenninga. Ljósmynd/HV

Stærsti fiskurinn sem þeir lönduðu var 86 sentímetrar en þeir sáu töluvert af fiski í ánni sem þeir áætluðu að væri yfir níutíu sentímetrar. Þegar þeir mættu í ána var búið að bóka sjötíu laxa en þegar Valli og Hilmir keyrðu í burtu var talan komin í hundrað. Einna líflegasti veiðistaðurinn að sögn þeirra félaga er veiðistaður númer 26.

Hölkná er laxgeng tæpa tólf kílómetra upp að Geldingafossi. Veiði í ánni sveiflast mikið milli ára eins og gjarnan er með norðausturlandið. Ljóst er af þessari veiði þeirra félaga að áin er í takt við aðrar ár í landshlutanum en veiðin í sumar hefur verið einna best á þessu svæði.

mbl.is