Enn er stuð í sjóbirtingnum

Grétar Þorgeirsson með 87 sentímetra sjóbirting sem hann veiddi á …
Grétar Þorgeirsson með 87 sentímetra sjóbirting sem hann veiddi á Sandeyrinni í Eldvatni í gær. Ljósmynd/Aðsend

Eftir óvenju harðan vetur og kuldakast í apríl virðist sem sjóbirtingurinn gangi hægar niður árnar en oft áður. Þannig er sjóbirtingurinn enn ágætlega dreifður í þessum hefðbundnu sjóbirtingsám fyrir austan.

Holl sem var að hætta í Tungufljóti landaði níu birtingum og var sá stærsti 82 sentímetrar. Kristján Páll Rafnsson hjá Fish Partner sem er með ána á leigu var á ferð þar eystra um miðja viku. Hann sá töluvert magn af birtingi við brúarstæðið. En eins og svo oft áður er besta veiðin neðarlega, eða í og við Syðri Hólma.

Svipaða sögu er að segja af Eldvatninu. Þar voru menn við veiðar í morgun og voru að setja í fiska víða um ána. Grétar Þorgeirsson er einn þeirra sem er að veiða og landaði hann glæsilegum 87 sentímetra birtingi í gær. Sá tók út Sandeyrinni neðarlega. Einnig hafa þeir verið að setja fiska í Hundavaði, Ragnarsseli og víðar. Að sögn Grétars var töluvert líf í Skurðsendanum og er það til marks um að fiskurinn er á niðurleið eins og hefðbundið er, en hann virðist fara sér rólega.

Grétar setti í tvo í Skurðsendanum og landaði öðrum. Þar …
Grétar setti í tvo í Skurðsendanum og landaði öðrum. Þar var mikið líf í morgun að hans sögn. Ljósmynd/Aðsend

Í viðtali sem Einar Falur Ingólfsson tók við formann Stangaveiðifélags Keflavíkur, um Geirlandsá kom fram að mikið er af fiski í ánni og það stórum. Gunnar J. Óskarsson formaður félagsins var í viðtali í Morgunblaðinu í gær. Þar sagði Gunnar að iðulega hefði verið um að ræða tíu ára sveiflur og þær birtust með þeim hætti að ýmist væru einstaklingarnir fleiri og smærri eða stærri og færri. Nú hins vegar bregður svo við að þeir eru bæði margir og stórir. Gunnar rekur þetta fyrst og fremst til þess að nú er öllum vor fiski sleppt í Geirlandsá og fiski yfir 70 sentímetra er sleppt á haustin. 

Leirá er enn að gefa veiði og hefur staðið undir magnaðri opnun. Þar hefur komið þægilega á óvart hversu margir stórir birtingar hafa gefið sig.

Allar þessar ár sem hér koma við sögu eru að sögn leigutaka að njóta góðs af veiða og sleppa fyrirkomulaginu. Og eins og formaður SVFK sagði: Dauður fiskur stækkar ekki.

mbl.is