Nesveiðar - sá allra stærsti í sumar

Hilmar Hafsteinsson með stærsta laxinn sem veiðst hefur á Íslandi …
Hilmar Hafsteinsson með stærsta laxinn sem veiðst hefur á Íslandi það sem af er sumri. 107 sentímetrar og tvímældur. Ljósmynd/Hermóður

Stórlaxasvæðið í Nesi í Laxá í Aðaldal stendur svo sannarlega undir nafni. Í morgun veiddist þar stærsti fiskur sumarsins til þessa. 107 sentímetra hængur sem tók fluguna White wing númer 6 í Vitaðsgjafa.

Veiðimaður var Hilmar Hafsteinsson og leiðsögumaður hans var Hermóður Hilmarsson. Þeir voru á bát á Vitaðsgjafa þegar fiskurinn tók. „Það var gott að við vorum á bátnum því laxinn tók roku niður á Skerflúð. Það hefði orðið mikið bras að elta hann. Ég sá strax að þetta var meters fiskur en ég átti ekki von á að hann væri svona langur. Enda tvímældi ég hann og hann reyndist 107 sentímetrar,“ sagði Hermóður í samtali við Sporðaköst. En Hermóður var eins og fyrr segir leiðsögumaður Hilmars, sem veiddi fiskinn.

Þessi mikli hængur tók White wing númer sex á Vitaðsgjafa.
Þessi mikli hængur tók White wing númer sex á Vitaðsgjafa. Ljósmynd/Hermóður

En White wing, það er langt síðan maður hefur heyrt um þá flugu?

„Við vorum að fara þriðju yfirferðina yfir staðinn í morgun og  ég vissi að enginn hefði farið á bátinn og mig langaði að hann myndi veiða frá miðri á í átt að landi. Við skoðuðum flugur og ég var að spá í Abbadís, en svo bara öskraði þessi White wing á mig og það varð úr.“

Hilmar Hafsteinsson er að komast í fyrsta skipti í tuttugu punda klúbbinn í sinni fjórðu ferð í Laxá í Aðaldal. 

Ágætisgangur hefur verið á Nessvæðinu og eru komnir ellefu laxar á land á fyrstu fjórum vöktunum. Sá minnsti er 82 sentímetrar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.
101 cm Víðidalsá James Murray 20. júní 20.6.

Skoða meira