Kusurnar eru mættar í Eyjafjarðará

Ívar Rúnarsson, þrettán ára með 67 sentímetra bleikju úr Eyjafjarðará …
Ívar Rúnarsson, þrettán ára með 67 sentímetra bleikju úr Eyjafjarðará sem hann veiddi í dag. Ljósmynd/BÞB

Þeir félagar Benjamín Þorri Bergsson fimmtán ára, Ívar Rúnarsson þrettán ára og bróðir hans Eyþór, fimmtán ára, lönduðu allir 67 sentímetra bleikjum í Eyjafjarðará uppi á fimmta svæði. Þeir félagar hafa verið við veiðar þar í dag og í gær.

Benjamín Þorri tók sína kusu, eins og risableikjur eru oft kallaðar á þessu svæði, í gær í veiðistaðnum Halldórsstaðaflúð. Bræðurnir léku svo sama leikinn í dag og lönduðu báðir 67 sentímetra fiskum á Jökulbreiðu.

Þeir settu í fleiri fiska og lönduðu 40, 56 og 60 sentímetra bleikjum.

Eyþór Rúnarsson, fimmtán ára með nákvæmlega jafn langa bleikju, 67 …
Eyþór Rúnarsson, fimmtán ára með nákvæmlega jafn langa bleikju, 67 sentímetra og þeir bræður veiddu þær báðar á Jökulbreiðu. Ljósmynd/BÞB

Þá setti Benjamín í flottan lax en missti hann eftir töluverðan atgang. Tvær af bleikjunum stóru tóku Squirmy wormy en ein féll fyrir Króknum. Raunar féll hún bara í freistni því fiskum er sleppt á þessu svæði.

Benjamín Þorri fékk þessa við brúna sem kennd er við …
Benjamín Þorri fékk þessa við brúna sem kennd er við Halldórsstaði. Og viti menn líka 67 sentímetrar og hann er fimmtán ára. Sporðaköst óska þessum snillingum öllum til hamingju. Ljósmynd/ER

„Ég held að það séu komnir einhverjir tuttugu fiskar í bók á fimmta svæði og eitthvað verið misst,“ sagði Benjamín í samtali við Sporðaköst í kvöld eftir magnaða veiði. „Við sáum eina undir brúnni við Halldórsstaði sem var ekki undir 70 sentímetrum. Ég hélt ég hefði sett í hana en þá var hún 67 sentímetrar og hin var þarna enn. Við settum í hana á endanum en misstum,“ upplýsti Benjamín.

Þrátt fyrir ungan aldur eru þessir garpar hörkufluguveiðimenn og eiga bara eftir að verða öflugri.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira