Lifnaði yfir Kjósinni eftir rigningu

Bresk veiðikona með einn af mörgum löxum sem landað hefur …
Bresk veiðikona með einn af mörgum löxum sem landað hefur verið í Kjósinni eftir að fór að rigna. Ljósmynd/Laxá í Kjós

Loksins kom rigning í Kjósina. Laxá í Kjós gaf 32 laxa í fyrradag og tólf í gær. Eftir að rigndi loksins og Laxá komst í kjörvatn í fyrsta skipti í langan tíma, stóð ekki á veiðinni.

Fiskur var um alla á og það sem meira er, hann var í tökustuði um allt. 44 laxar á tveimur dögum í Kjósinni jafngildir um átta prósentum af sumarveiðinni til þessa. 

Margar ár eru búnar að vera afar vatnslitlar í sumar og eiga inni hvað varðar veiðina. Laxá í Dölum er til dæmis þekkt fyrir góðan endasprett og er þá bundin við haustrigningar. Þar hefur ekki enn rignt en það er svipað og að spila í lottóinu að kaupa leyfi í Dölunum síðsumars eða á haustdögum. Þar er hægt að vinna stóra vinninga ef menn hitta á rigningu sem gerir það að verkum að laxinn lætur sig loksins vaða upp í ána og þeir sem eru fyrir fá súrefni.

Lengst til vinstri er Katka Svagrova sem er leiðsögumaður í …
Lengst til vinstri er Katka Svagrova sem er leiðsögumaður í Kjósinni. Hægra megin við breska veiðimanninn er Angus Sloss sem einnig er leiðsögumaður í Kjósinni. Þar er búið að vera stuð, eftir að rigndi loksins. Kjósin hefur átt þokkalegu gengi að fagna í sumar þrátt fyrir erfið skilyrði. Ljósmynd/Laxá í Kjós

Þá hafa líka verið að veiðast bolta sjóbirtingar í Kjósinni og eru þeir mikill bónus fyrir veiðimenn. Sérstaklega eru breskir veiðimenn hrifnir af því að geta veitt sjóbirting á hábjörtum degi því þeir eru vanari að veiða þá þegar rökkrið færist yfir.

„Mér finnst líka merkilegt að nú erum við að finna loksins fiskana sem komu snemma og þeir eru orðnir vel legnir og við erum að sjá aðeins meira af stærri fiski. Það var hressileg rigning í gærkvöldi hjá okkur og ég tel að Kjósin eigi mikið inni í veiðitölum,“ sagði Haraldur Eiríksson leigutaku Laxár í Kjós í samtali við Sporðaköst.

Sama gildir í mörgum ám og verður spennandi að fylgjast með ef rigning heiðrar vestanvert landið. En Kjósin naut góðs af hressilegri rigningu í gær og þá gerðust þeir hlutir sem svo margir veiðimenn hafa beðið eftir.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.
102 cm Vatnsdalsá Sigurður Héðinn 11. september 11.9.
100 cm Eystri-Rangá Hilmar Ingimundarson 10. september 10.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Rögnvaldur Örn Jónsson 8. september 8.9.
101 cm Laxá í Aðaldal Nils Folmer Jörgensen 30. ágúst 30.8.
102 cm Kjarrá Jake Elliot 30. ágúst 30.8.

Skoða meira