Mýgrútur af maríulöxum og nokkrir stórir

Fræknir feðgar með stærsta lax sumarsins til þessa í Andakílsá. …
Fræknir feðgar með stærsta lax sumarsins til þessa í Andakílsá. Frá vinstri: Adam Óli Kjartansson, Kjartan Smári Höskuldsson og Emil Smári Kjartansson. Ljósmynd/KSH

Það líður senn að lokum veiðitímans þó svo að enn sé haustveiði víða í gangi og sjóbirtingur á góðu skriði. En við ætlum að byrja að gera upp sumarið 2021 sem mun ekki fara í sögubækurnar fyrir að vera gott laxveiðisumar.

Við höfum hins vegar flutt mikið af ánægjulegum fréttum og þar standa upp úr fréttir af maríulöxum sem var landað víðsvegar um land og stundum voru margir slíkir í einu holli. Flestir veiðimenn muna afar vel hvar þeir tóku maríulaxinn sinn. Aðstæður og tímasetningu. Sporðaköst vilja gjarnan fá myndir af slíkri veiði frá því í sumar og stutta sögu með. Netfangið er eggertskula@mbl.is.

Adam Óli hróðugur með maríulaxinn.
Adam Óli hróðugur með maríulaxinn. Ljósmynd/KSH

Hér er mynd af ungum veiðimanni sem fékk sinn maríulax í Andakílsá í sumar. Adam Óli Kjartansson átta ára gamall landaði honum í samvinnu við pabba sinni og eldri bróður.

Í sama túr landaði Kjartan Smári Höskuldsson stærsta laxi sumarsins til þessa í Andakílnum. Það var 86 sentímetra hængur sem tók Frances míkró kón í Laugaskarði og eins og Kjartan Smári segir sjálfur í samtali við Sporðaköst; „Það þurfti þrjá fíleflda karlmenn til að klára verkið. En allir lifðu af og honum var sleppt við mikil fagnaðarlæti viðstaddra.“ Kjartan sagði Andakílsána frábæra fyrir fjölskyldur. Gott aðgengi og aðbúnaður og mikið af fiski.

Erlingur Gunnarsson með 97 sentímetra úr Rimahyl í Eystri-Rangá.
Erlingur Gunnarsson með 97 sentímetra úr Rimahyl í Eystri-Rangá. Ljósmynd/GE

Margir með sína stærstu í sumar

Þó svo að flestar myndir hér í sumar hafi verið af löxum sem náð hafa hundrað sentímetrum og við leyfum okkur að kalla hundraðkalla þá voru margir stórir sem glöddu veiðimenn það sem af er sumri. Hér er til að mynda Erlingur Gunnarsson með stórglæsilegan hæng úr Eystri-Rangá sem mældist 97 sentímetrar. Þessi var tekinn á svæði tvö í Rimahyl og það var rauð Frances, hálf tomma, sem hann lét glepjast af. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira