Þetta er þúsundasti laxinn úr Kjósinni

Þessi 83 sentimetra hrygna sem Svavar Hávarðsson veiddi í Helgufljóti …
Þessi 83 sentimetra hrygna sem Svavar Hávarðsson veiddi í Helgufljóti í Kjósinni í gær er þúsundasti laxinn þar í sumar. Ljósmynd/SH

Þúsundasti laxinn veiddist í Laxá í Kjós í gærdag. Það var Svavar Hávarðsson, ritstjóri Fiskifrétta, sem setti í þann þúsundasta. Grannt var fylgst með allri veiði þegar ljóst var að þúsundasti laxinn var innan seilingar. Allir veiðimenn og leiðsögumenn skráðu niður tímasetningar hvenær fiski var landað.

Svavar var einn við veiðar og því ekki auðvelt með …
Svavar var einn við veiðar og því ekki auðvelt með myndatöku. Ljósmynd/SH

Þessi háttur var hafður á þar sem Sporðaköst höfðu óskað eftir mynd og staðfestingu á nákvæmlega hvaða lax væri númer þúsund. Þegar veiðimenn komu í hús í gærkvöldi var farið yfir stöðu mála og í ljós kom að Svavar var með þúsundasta laxinn. Haraldur Eiríksson leigutaki í Kjósinni staðfesti að fiskur Svavars væri sá þúsundasti. Veiðin í gær var býsna góð í Kjósinni í leiðindaaðstæðum en ríflega tuttugu fiskar komu á land. 

Svavar hefur nánast bara sett í hrygnur í sumar. Hér …
Svavar hefur nánast bara sett í hrygnur í sumar. Hér er hann einmitt með hrygnu sem hann veiddi í Haukadalsá í byrjun sumars. Mældist 80 sentimetrar og lét hafa fyrir sér. Ljósmynd/SH

Svavar sagði í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi að þetta hefði verið 83ja sentimetra hrygna sem hann fékk í Helgufljóti. „Svakalega flott stelpa. Ég fékk svo aðra bara í næsta rennsli og sú var 71 sentimetri. Það er svo skrítið í sumar að ég hef nánast ekki veitt nema hrygnur. Ég veit ekki hvernig á að lesa í það,“ brosti Svavar.

Þetta er fluga sem Svavar segist ekki þekkja. Honum finnst …
Þetta er fluga sem Svavar segist ekki þekkja. Honum finnst alveg ferlegt að veiða lax á flugu sem hann þekkir ekki. Ljósmynd/SH

Svavar er ekki viss um hvað flugan, sem þúsundasti laxinn tók, heitir. Einhvers konar Sunray-afbrigði með kón telur hann.

Hann sagði að skilyrðin hefðu verið afar hryssingsleg. „Það var ein gráða þegar ég mætti í morgun. Grenjandi rigning og 15-18 metrar á sekúndu. Ég hélt að það myndi frjósa undan mér. Árvatnið var mjög kalt, ég giska á fimm gráður. Svo skánaði veðrið heldur með deginum en hiti fór hæst í fjórar gráður og töluverður vindur var allan daginn.“

Alli P. og Lúðvík Halldórsson með fiskana sem slógu heimsmetið …
Alli P. og Lúðvík Halldórsson með fiskana sem slógu heimsmetið í Kjósinni, 1988. Ljósmynd/Ólafur Helgi Ólafsson

Ástæðan fyrir því að Sporðaköst óskuðu eftir nákvæmri skráningu, er einmitt metlax sem veiddist árið 1988. Þá var komið að því að setja „heimsmet“ í laxveiði, eins og þeir kölluðu það. Þetta árið veiddust 3.422 laxar í Kjósinni. Þegar komið var að því að slá metið, sem átti þá að standa fyrir flesta veidda laxa i einni á einu sumri, fóru Aðalsteinn Pétursson og Lúðvík Halldórsson upp í gljúfur. Þeir lönduðu á vaktinni tíu löxum en ekki var vitað hvaða lax það var sem sló metið. En það er einhver þeirra sem er á myndinni af þeim félögum.

Sumarið hefur verið virkilega gott í Kjósinni, eftir vatnsleysi framan af og hún stóð í gærkvöldi í 1.022 löxum og er sjötta veiðisvæðið sem fer yfir þúsund laxa í sumar. Dagurinn í dag er lokadagur í Kjós og afar líklegt að hún verði í svipaðri tölu og 2018 þegar hún endaði í 1.054 fiskum. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira