Gerðu magnaða mokveiði í Eldvatninu

Daði Þorsteinsson með glæsilegt eintak af sjóbirtingi. Þessi mældist 85 …
Daði Þorsteinsson með glæsilegt eintak af sjóbirtingi. Þessi mældist 85 sentímetrar og var tekinn í veiðistaðnum Villa. Fiskurinn er hnausþykkur og var sterkur eftir því. Ljósmynd/HG

Holl sem lauk veiðum i Eldvatni í Meðallandi í gær, gerði hreint út sagt magnaða mokveiði. Á fjórum dögum landaði hollið sextíu fiskum og allt upp í níutíu sentímetra sjóbirtinga. Hollið fékk frábær skilyrði og var sjatnandi vatn sem skilaði þessari frábæru veiði.

Þetta voru birtingar af öllum stærðum og gerðum. Allt frá því að vera búnir að vera drjúgan tíma í fljótinu og yfir í lúsuga bjarta nýgengna birtinga.

Þrettán af þessum fiskum voru áttatíu sentímetrar eða meira og margir örlítið minni. Einn af þeim sem var við veiðar í þessu holli er Helgi Guðbrandsson, leiðsögumaður í Miðfirði. „Þetta var bara rugl. Alveg ótrúleg veiði og við fengum einn fisk sem í mínum huga stendur upp úr. Það var 85 sentímetra hnöttóttur og nýgenginn sjóbirtingur sem Daði félagi minn tók í veiðistaðnum Villa. Ég hef veitt oft sjóbirting í Argentínu og þessi veiði gaf því svæði ekki neitt eftir.“

Helgi Guðbrandsson með vígalegan sjóbirting úr Símastreng. Hollið var með …
Helgi Guðbrandsson með vígalegan sjóbirting úr Símastreng. Hollið var með 60 fiska á fjórum dögum. Ljósmynd/DÞ

Hollið var blandað íslenskum og svissneskum veiðimönnum en veitt er á sex stangir í Eldvatni.

Þetta er mikið vatnasvið og enn eru menn að finna nýja veiðistaði í Eldvatninu og komu margir fiskar af slíkum stöðum.

Erlingur Hannesson, einn af leigutökum Eldvatnsins var með veiðimenn í leiðsögn í þessu holli og sagði hann í samtali við Sporðaköst að þetta hefði verið mögnuð veiði og hann hreinlega myndi ekki eftir svona flottu holli. Enda sagði hann að fiskar hefðu verið í öllum veiðistöðum árinnar, fyrir ofan brú. En greinilegt að eitthvað væri að koma þar sem þeir fengu lúsuga fiska í bland.

Bæði straumflugur og púpur voru að gefa góða veiði. Pheasant Tail með gúmmílöppum gaf marga fiska, einnig Squirmy Wormy og Hvítur Nobbler var sterkur ásamt Sunray og Flæðamús.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert