„Taktu, taktu, plís taktu“

Höfundur ungur að árum með maríulaxinn og fer að sjálfsögðu …
Höfundur ungur að árum með maríulaxinn og fer að sjálfsögðu að settum reglum og bítur veiðiuggan af. Ljósmynd/ÓTG

Dagbók urriða er ein af jólaveiðibókum ársins. Höfundur er Ólafur Tómas Guðbjartsson og við birtum hér kafla úr bókinni þar sem höfundur veiðir maríulaxinn og gott betur. Hér kemur þó bersýnilega í ljós hvernig reynsla byggist upp. Gefum Ólafi orðið;

„Ég keypti mér svo veiðileyfi á svæði þrjú í Blöndu. Í þá daga kostaði leyfið um átta þúsund krónur dagana rétt fyrir aðalveiðitíma. Ég var þarna 2. júlí minnir mig. Ég bjóst ekki við miklu, enda þekkti ég svæðið lítið. Ég hafði veitt á neðri svæðunum en svæði þrjú hafði aldrei heillað mig. Fyrir virkjun var hægt að kaupa tilraunaveiðileyfi þar á lítið sem ekkert, ef ég man rétt. Þar reyndu veiðimenn fyrir sér með stórar Toby-plötur, sökkur og snöggar hliðarhreyfingar. Ég var mættur þarna á slaginu klukkan sjö og hafði fengið einhverjar upplýsingar um hvert best væri að fara. Ég byrjaði að kasta í hyl við klettaþrengingu rétt neðan við brúna yfir svæði þrjú. Áin var á þessum tíma orðin nokkuð tær og falleg og ég hafði undir stóra túbu sem ég veit ekkert hvað hét og rétt ofar eina sökku. Sá sem dæmdi laxinn minn sjóbirting morguninn við móttöku rækjuvinnslunnar hafði bent mér á að gera þetta svona í þessum dýpri hyljum þar sem ég væri nú ekki orðinn mikill fluguveiðimaður. Að kasta túbunni út í fjörutíu og fimm gráður, leyfa straumnum að taka hana í sveig og draga síðan rólega inn. Ég vissi ekkert annað en að þetta gæti virkað. Eftir nokkur köst á þennan hátt er ég að draga rólega inn og sé lax koma undan klettasyllunni sem ég stóð á. Hann kom rólega á eftir túbunni og mér fannst ég sjá allt í hægri endursýningu. Ég byrjaði að hvetja hann lágt áfram, „taktu, taktu, plís taktu“. Og viti menn, hann gleypir túbuna, snýr sér við og stöngin kengbognar. Hjarta mitt fór á yfirsnúning. Þessum yrði ég að ná. Ég ákallaði alla mætti og talaði jafnvel upphátt við látinn afa minn í föðurætt sem gaf mér veiðidótið sitt á sínum tíma. „Plís, leyfðu mér að landa þér,“ grátbað ég laxinn. Eftir afar snögga baráttu tók ég verulega fast á honum og togaði hann upp á klöppina sem ég stóð á. Ég festi krumlurnar á honum svo fast að neglurnar nánast gengu inn í kjöt hans.

Höfundurinn og veiðisjúklingurinn, Ólafur Tómas Guðbjartsson kátur með afurðina. Dagbók …
Höfundurinn og veiðisjúklingurinn, Ólafur Tómas Guðbjartsson kátur með afurðina. Dagbók urriða er skrifuð á léttum nótum og byggir á reynsluheimi höfundar. Ljósmynd/SalkaFyrsti laxinn var staðreynd. Þarna lá hann dauður á bakkanum. Ég dansaði syngjandi eftir hreistursþaktri klöppinni. Hvað var að gerast? Mér tókst það loksins. Ég settist niður og starði á laxinn. Þetta var enginn stórlax, en þetta var lax. Þetta var lax, en enginn sjóbirtingur. Ég endaði svo á því að fá fimm laxa þennan dag. Nokkra afar væna. Þvílík uppbygging. Eftir allan þennan tíma, tókst mér að landa öllum þessum löxum. Ég hafði þá hitt á einhverja svakalegustu laxagöngu sem komið hafði í einu upp á svæði þrjú. Er ég talaði við veiðimenn sem veiddu á svæði tvö þennan dag sögðu þeir mér að þeir hefðu séð laxavöðurnar strauja framhjá hverjum hylnum á fætur öðrum á leið sinni upp eftir. 

Ólafur Tómas með sjóbirting úr Eldvatni. Þessi mældist 89 sentímetrar. …
Ólafur Tómas með sjóbirting úr Eldvatni. Þessi mældist 89 sentímetrar. Hann þekkir muninn í dag. Ljósmynd/Aðsend

 

Þá var ég loksins búinn að fá lax. En það breytti því þó ekki að ég hélt áfram að rugla saman laxi og sjóbirtingi. Nokkru síðar fór ég að veiða í Hópinu, á veiðistað sem ég fjalla um hér í öðrum kafla. Það var lítið að gerast í straumálnum sjálfum svo ég óð yfir álinn yfir á sandgrynningar hinum megin við hann og gekk þaðan nokkur hundruð metra niður með Hópinu í hnédjúpu vatni. Það var að fjara frá og á endanum fóru að myndast sandeyjar þar sem straumurinn tók beygjur til og frá. Á einni þeirra kastaði ég svörtum Dýrbít og vænn fiskur neglir fluguna strax. Þetta var hörð barátta sem lauk þannig að ég landaði fiskinum á svörtum sandinum. Þetta var lax. Þvílíkur dagur, ég hafði landað þessum fallega laxi í Hópinu. Ég óð alla leið til baka upp sandana með dauðan laxinn hangandi á einum fingri. Blóðtaumarnir runnu niður eftir fiskinum og mörkuðu slóð mína og þegar ég kom að Vaðhvammi, þar sem ég hóf ferðina, voru þar komnir aðrir veiðimenn. Ég sýndi þeim laxinn og annar þeirra sagði: „Þetta er fallegur sjóbirtingur“. „ÞETTA ER LAX!“ gargaði ég á móti. Ég veit alveg hvernig laxar líta út, ég hef fengið alveg fimm laxa og veit nákvæmlega muninn. Veiðimaðurinn gaf sig þó ekki og sagði, „þetta er sjóbirtingur vinur.“ Ég hló bara að honum. Þegar ég kom síðan heim og horfði á dauðan fiskinn liggja í vaskinum, sá ég að um augljósan sjóbirting var að ræða.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert