Rimaskóli býður upp á fluguveiðiáfanga

Fluguveiðiárgangur Rimaskóla 2022. Reyndar vantar fjóra á myndina en fimmtán …
Fluguveiðiárgangur Rimaskóla 2022. Reyndar vantar fjóra á myndina en fimmtán nemendur verða í þessum fyrsta árgangi í valáfanga hjá Mikael Marinó. Ljósmynd/MMR

Rimaskóli í Grafarvogi býður upp á nýjan valáfanga fyrir unglingadeild skólans, þar sem kennd verður fluguveiði. Kennari áfangans er Mikael Marinó Rivera en hann sjálfur er mikill áhugamaður um stangveiði. Færri komust að en vildu í áfangann en allir fimmtán nemendurnir eru strákar.

Mikael greindi frá þessum nýstárlega lið á námsskrá skólans í gær með því að birta færslu inni í veiðihópnum Veiðidellan er frábær, á facebook. Óhætt er að segja að viðbrögðin hafi verið mikil og mjög jákvæð. „Já. Hann sprakk eiginlega þessi póstur og viðbrögðin voru hreinlega frábær. Mjög margir eru búnir að senda mér skilaboð og eru tilbúnir til að gefa veiðigræjur, bæði veiðistangir, hjól og allskonar fleira. Þetta er mjög skemmtilegt,“ sagði Mikael í samtali við Sporðaköst.

Mikael Marinó Rivera kennari við Rimaskóla er með mikla veiðidellu. …
Mikael Marinó Rivera kennari við Rimaskóla er með mikla veiðidellu. Hann er spenntur að kenna upprennandi veiðimönnum allt í sambandi við fluguveiði. Hér er hann með lax úr Elliðaánum. Ljósmynd/MMR

Hvernig kom þetta til? Er þetta þín veiðidella sem ræður för eða einhverra nemenda?

„Ég er náttúrulega sjálfur forfallinn veiðimaður. Hins vegar voru núnar gerðar breytingar sem gera þetta fýsilegan kost. Þetta er valáfangi í unglingadeild og áður var fyrirkomulagið þannig að valáfangi hófst í janúar og var alveg fram í maí. Það var kannski helst til langur tími fyrir svona námsefni. Nú er búið að breyta þessu og tímabilinu hefur verið skipt í tvennt. Frá janúar og fram í miðjan mars og þá hefjast nýir áfangar fram á vor. Þetta er styttri tími og nær vorinu. Þannig að ég auglýsti þetta og undirtektirnar voru mjög góðar. Færri komust að en vildu. Ég auglýsti þetta grimmt og reyndi að höfða til stelpnanna líka en þær koma bara vonandi næst,“ sagði Mikael.

Markmið hans er að taka þetta alla leið. Nemendur læra að kasta með flugustöng. Fræðsla um búnað og meðhöndlun hans, saga fluguveiði á Íslandi og fræðsla um helstu veiðisvæði og umgengni við náttúruna og hina ýmsu tegundir fiska. Mikael stefnir að vettvangsferðum í veiðibúðir og þegar sól hækkar á lofti verður farið í veiðiferðir. „Við stefnum á Elliðavatn og svo vonandi Þingvallavatn. Ég er líka vongóður um að komast með hópinn til að veiða í straumvatni.“

Mikill áhugi er meðal nemenda fluguveiðiáfangans og áðan var stofnað …
Mikill áhugi er meðal nemenda fluguveiðiáfangans og áðan var stofnað Veiðifélag Rimaskóla. Ljósmynd/MMR

Mikael segir að þessir góðu undirtektir, bæði hjá nemendum og ekki síður veiðisamfélaginu geri það vonandi að verkum að þessi áfangi sé kominn til að vera. „Ég sé alveg fyrir mér framhald á þessu í haust. Þegar skólarnir byrja í ágúst þá er náttúrulega enn veiði í gangi og þá væri mögulegt að fara í einhvers konar framhald með hópinn. Mér finnst líka spennandi með þennan hóp að þeir eru allir með mikinn áhuga og enginn er að koma með hangandi haus neyddur í að læra þetta. Við ætlum líka að hafa þetta mjög lifandi. Þetta verður ekki bara saga Grímsár og horfa á gamla Sporðakastaþætti. Auðvitað ætlum við að gera það líka en þetta verður lifandi og skemmtilegt og fullt af súrefni fyrir þessa krakka.“

Mikael hefur verið að leita að ódýrum eða notuðum búnaði fyrir nemendahópinn. Hann hafði þrætt nytjamarkaði með litlum árangri og spurði því í facebook færslunni hvort menn ættu gamlar stangir eða hjól sem lægju óhreyfðar og söfnuðu ryki, djúpt í geymslunni.

Skemmst er að segja frá því að skilaboðum rigndi yfir Mikael frá veiðimönnum sem voru tilbúnir til að gefa búnað til verkefnisins. „Það var alveg magnað að upplifa þetta og ótrúlega margir tilbúnir að leggja eitthvað fram af dóti og græjum. Ég er mjög þakklátur fyrir þessi viðbrögð,“ sagði Mikael.

Áhugavert er að skoða viðbrögð veiðisamfélagsins við færslu Mikaels. Allir hrósa framtakinu og ljóst er að hægt verður að vopna hvern og einn nemanda með flugustöng og hjóli. Ein skemmtilegasta athugasemdin kemur þó frá fyrrum nemanda skólans sem greinilega útskrifaðist fyrir þó nokkrum árum. Hann spyr hvort nokkur leið sé að koma aftur í skólann.

Boðnir hafa verið áfangar í grunnskólum í fluguhnýtingum og Mikael rámar í að svipaður áfangi hafi verið í boði á Akureyri en líkast til er þetta fyrsti valáfangi af þessu tagi í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Áhugavert verður að fylgjast með framhaldinu hjá Mikael og nemendum. Það er nefnilega þannig að ekki eiga öll ungmenni ættingja sem geta hjálpað ungum veiðimönnum með veiðidellu að læra sportið. Þarna er kominn farvegur fyrir þá unglinga og einnig hina sem eru lengra komnir og vilja bæta við sig. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert