Landaði hundraðkalli í Suðurhöfum

Ólafur Vigfússon með allt í keng. Hann þurfti að hlaupa …
Ólafur Vigfússon með allt í keng. Hann þurfti að hlaupa langt upp í fjöru þegar fiskurinn tók straujið inn á grynningar. Cameron leiðsögumaður bíður átekta. Ljósmynd/María
Að landa hundrað sentimetra laxi á Íslandi er mikið ævintýri og allt þarf að ganga upp. Sömu sögu má segja af hinu sprettharða vöðvabúnti, Giant Trevally. Ólafur Vigfússon er einn af þeim sem stundar sjávarveiði á framandi slóðum, „Salt Water.“ Óli og kona hans, María eru nýkomin úr leiðangri frá Seychelles þar sem draumurinn um þann stóra rættist. Óli brást vel við því að senda skýrslu af ævintýrinu. 
„Við vorum að lenda eftir ævintýraferð til Farquhar kóralrifsins sem er eitt af mörgum í Seychelles eyjaklasanum.  Markmið okkar Maríu var að fókusa fyrst og fremst á konung fiskanna, Giant Trevally sem yfirleitt er kallaður GT eða einfaldlega Geet.
Við veiddum alveg ágætlega í þessari ferð og datt ég í lukkupottinn þegar ég landaði 92 og 105 sentímetra Geet sama daginn. 105 sentímetra fiskur er 52 til 54 pund samkvæmt kvarða sem notast er við. 
Það var frekar mikill vindur þennan dag og birtuskilyrði mesta hluta dagsins afleit.  Við María veiddum með Cameron, veiðileiðsögumanni frá Suður Afríku.  Síðasti veiðistaður dagsins var lítil sandeyja þar sem safnast gjarnan saman mikið af „baitfish“/beitufiski á aðfallinu og GT sækir mjög í.
Þegar við komum í land í eyjuna sáum við að stór torfa af baitfish var úti í öldunum og í fjarska sáum við tvo mjög stóra GT á leið að þessu veisluborði sem beið þeirra þar.  Við hlupum eins og fætur toga að þessum stað, hlupum beint út í sjóinn og út í öldurnar sem köstuðu okkur fram og til baka.  Eftir aðeins örfá köst tók annar þessara fiska fluguna mína, reif út línu og allt í keng.  Þegar maður setur í fiska af þessari stærð stjórnar maður engu fyrstu mínúturnar og því gríðarlega mikilvægt að vera með öflugasta mögulega búnað sem hægt er að fá.
Cameron leiðsögumaður búinn að sporðtaka 105 sentímetra Geetinn. Þegar búið …
Cameron leiðsögumaður búinn að sporðtaka 105 sentímetra Geetinn. Þegar búið var að mæla og staðfesta lengd átti að fara í alvöru myndatöku. Sá stóri tók einn hnykk og var laus. Frekar fátæklegar myndir af þessum draumafiski. Cameron er enn miður sín. Ljósmynd/María
Fiskurinn minn fór út á haf og hinn fylgdi honum eftir allan tímann. Eftir all langa baráttu sneri fiskurinn við og synti á fleygiferð í átt að landi svo ég varð að taka á það ráð að hlaupa sem fætur toga uppá fjörukambinn og inn eftir fjörunni því ég náði ekki að spóla línuna inn nógu hratt.  Allar flugur sem við notum í GT veiðar eru agnhaldslausar og því afar mikilvægt að það komi aldrei slaki á línuna. Ég náði svo að halda fiskinum nálægt landi en enn sem fyrr voru báðir fiskarnir saman hlið við hlið og ég náði ekki að koma mínum uppá grynningarnar fyrr en Cameron tók það til bragðs að kasta grjóti út í sjó. Við það komst hreyfing á þá og mér tókst að ná drekanum mínum inn á grynningar þar sem Cameron mætti og sporðtók hann. Það er óhætt að segja að hjartað hafi hamast allan tímann og mikill léttir við að sjá þennan stóra fisk sem ég var búinn að togast á við í æsispennandi baráttu nokkuð lengi.
Svona minjagrip fá þeir sem tekst að landa fiskum sem …
Svona minjagrip fá þeir sem tekst að landa fiskum sem mælast yfir 100 sentímetrar. Þetta var eini slíki minjagripurinn sem var veittur í þessari viku. Enda sjaldgæfir svo stórir. Ljósmynd/ÓV
Stöngin sem ég notaði í þessari baráttu er Hardy Zane, 9 feta stöng fyrir línuþyngd #11. Hjólið er frá Shilton í Suður Afríku en þau hjól þykja einhver þau áreiðanlegustu þegar þreyta þarf stórfiska. Línan er GT flotlína frá Rio, taumurinn 100 pund og flugan er Squid fluga sem Dean, annar veiðileiðsögumaður á Seychelles hannaði, hnýtti og gaf okkur en þessi fluga hefur nú gefið okkur 86, 92, 97 og 105 sentímetra fiska í vor en þessir fjórir vega frá rúmum 30 pundum til 54 punda.  Þessi fiskur er sá langsterkasti sem ég hef barist við og landað.  Það er ekki hægt að lýsa kraftinum og hraða þessara fiska fyrir þeim sem ekki hafa reynt en þessi vöðvabúnt komast á 60 kílómetra hraða.“
Þessi GT er 97 sentímetrar og veiddu þau hjónin hann …
Þessi GT er 97 sentímetrar og veiddu þau hjónin hann fyrr á þessu ári. Styrtlan er mjó á GT en á 105 sentímetra draumafiskinum vantaði þrjá sentímetra upp á að fingur næðu saman. Ljósmynd/Veiðihornið
Svona hljómar lýsing Óla af þessari mögnuðu viðureign. GT getur orðið mun stærri en þetta. Hins vegar eru fiskar sem ná þessari stærð, hundrað sentímetrar eða lengri svo sjaldséðir að veiðimaður fær sérstaka viðurkenningu vegna þessa. Þannig var þessi draumafiskur Óla eini fiskurinn þessa vikuna sem náði hundrað sentímetrunum.
Það er óhætt að segja að veiðigyðjan hafi verið Óla í för í vor. Því fyrr á þessu ári landaði hann 97 sentímetra GT og svo bættust þessir tveir við núna.
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert