Heiðarvatn skammt ofan Víkur í Mýrdal opnaði 1. maí. Vatnið er rómað silungsveiðivatn og móðir Vatnsár sem er laxveiðiperla sem fellur í Kerlingadalsá. Sami hópur veiðimanna hefur opnað vatnið um langt skeið. Nú er orðin sú breyting að einungis er heimilt að veiða á flugu og sleppa skal öllum fiski.
Sporðaköst slógust í för með þessum vaska hópi og sjaldan hefur spenningurinn verið meiri. Vorið var óvenju þroskað að því er virtist. Spóinn var mættur í Heiðardalinn og meira að segja skrækur hettumáfurinn skammaði okkur þegar við mættum. Hitastigið hærra en oftast áður, eða ellefu gráður, og eins og einhver sagði. „Þetta eru kjörskilyrði.“
Það er ákveðið að skipta liði. Gulli og Elín ætla að vaða yfir Vatnsá og freista gæfunnar í Djúpsdrætti þar sem oft er að finna sjóbirting á þessum tíma. Við höfum reyndar kallað þennan stað „Inni í horni“ en það breytir ekki öllu. Aron tekur sömu stefnu en hann hefur oft gert góða veiði á svæðinu sem heitir Stóruhvammar og þar er oft töluvert af staðbundnum urriða, bæði við Rif og Suðublett. Sjálfur set ég stefnuna á Langabakka og ætla að kasta fyrir bleikju. Við höfum oft lent þar í góðri bleikjuveiði í upphafi. En þar er ekki á vísan að róa og það er okkar tilfinning að bleikjan eigi undir högg að sækja í Heiðarvatni eins og víðast annars staðar.
Brynjar og Steffí eru mætt með fjórðu stöngina og þau velja að byrja á Sigurðartanga. Þetta er upphafsplanið og svo mun fólk tvístrast um vatnið eftir því sem líður á daginn.
Það er skemmst frá því að segja að Steffí setur fljótlega í fallegan birting. Ekki stóran en i góðum holdum. Þetta er nú ekki til að draga úr væntingum. „Þetta gæti orðið veisla,“ hugsar einhver.
Ég byrja að kasta undir Langabakka. Hann er hvass og sólin er beint í andlitið á mér og milljónir sólargeisla gera hvað þeir geta til að torvelda mér að sjá tökuvarann. Copper John er efri púpan og neðst þessi skrítna fluga, Squirmy Wormy. Í tilraunum mínum við að mynda vatnsflötinn og tökuvarann missi ég símann í vatnið. Að beygja sig til botns í lærisdjúpu vatni er ekki óska byrjun. Allir vasar fullir af vatni en bara blautur upp að öxl á annarri. Gat verið verra. Bleikjan er ekki í miklu tökustuði ef hún er á annað borð mætt á svæðið í einhverju magni.
Gulli setur í stórfisk neðan við Dagmálagil og þeirri viðureign lýkur með því að það réttist úr króknum og hann sé aldrei þennan mögulega draumafisk.
Aron landar staðbundum urriða og skömmu síðar ágætum birtingi í þokkalegum holdum.
Ég færi mig um set og held í átt að Stórasteini og Grásteini undir Hrafnagili. Við Stórastein fæ ég loksins töku. Hvítur Nobbler virkar býsna vel fyrir sjóbirting. Þetta er sextíu sentímetra birtingur og fallegur og þéttur geldfiskur. Blautur síminn neitar að taka mynd. Við kveðjumst samt sáttir.
Það gengur á með hvössum rokum og við köstum þegar dúrar og drögum í rokinu. Hvíti Nobblerinn lokkar annan birting. Sá er töluvert stærri. Hann lekur hins vegar af skömmu fyrir löndun. Sennilega ríflega sjötíu sentímetrar og sterkur eftir því.
Þegar líður á daginn hittast þrjár af fjórum stöngum í Litlahvammi, skammt frá þar sem veiðihús stóð forðum. Gulli, sem þekkir vatnið eins og puttana á sér er hissa á hversu dræm veiðin er. „Ég ætla að setja út litla bátinn. Ef hann vill ekki koma, verður bara að sækja hann,“ glottir Gulli.
Heimilt er að nota báta á Heiðarvatni en einungis með rafmagnsmótor. Gulli dregur fram eitthvað sem lítur út eins og risavaxinn rjómaþeytari og stóran rafgeymi. „Nei. Ég hef ekki prófað þetta áður,“ segir Gulli um leið og hann festir árarnar. Það er hvasst á vatninu og óvíst að þeytarinn ráði við bakaleiðina. En þetta er ævintýri.
Aron er kominn með átta fiska enda búinn að vera duglegur og með mikla yfirferð. Sex af þeim eru birtingar. Enginn stór en flottir fiskar. Tóku hjá honum Tinsel straumflugu og Black Ghost.
Gulli og Elín skilja bátinn eftir við Bátshróf við Austurenda vatnsins og labba til baka. Við Aron köstum fyrir birting á meðan en án árangurs. Gulli lýsir því yfir að það sé kominn matur, þegar hann og Elín koma aftur að bílunum. Það vissu allir að Gulli ætlaði að elda en það kom öllum þægilega í opna skjöldu þegar hann fer að skera hamborgarhrygg og ber fram með honum dásemdar sósu og brúnaðar kartöflur. Ananasinn kórónar þetta sköpunarverk sem enginn átti von á. Veiðibílinn hans Gulla stenst samanburð við hvaða matarvagn sem er.
Brynjar og Steffí missa af þessu óvænta verkalýðsdagshlaðborði. Við vorkennum þeim ofurlítið. Það sem við vissum hins vegar ekki að þau voru í annars konar veislu. Sjóbirtingsveislu. „Inni í horni“ lönduðu þau átta sjóbirtingum á rúmum klukkutíma. Sumir hverjir stórir og flottir.
„Ég hefði ekki viljað skipta við ykkur,“ segir Brynjar þegar hann fær upplýsingar um hátíðarmatseðilinn sem þau misstu af. Allir aðrir hugsa það sama. „Við hefðum verið til í að skipta við ykkur.“
Tuttugu fiska opnunardagur er að baki. Við teljum ekki með nokkrar litlar bleikjur sem ýmist misstust eða var landað. Þetta er rýrari uppskera en oft áður þrátt fyrir betri skilyrði en flest árin sem við höfum verið þarna. Var birtingurinn kannski bara lagður af stað niður eða vorum við á röngu róli?
Daginn eftir er allt annar dagur. Þrjár gráður og hefur bætt í vindinn. Slyddukennd rigningin lemur allar rúður bílsins. Þurrkurnar þurfa að hafa fyrir því. Þann stutta tíma sem veiðimenn endast verðum við ekki vör við fisk.
Við kveðjum Heiðarvatnið, sennilega einhver okkar í síðasta skipti. Verðið hefur hækkað mikið á skömmum tíma og einhvers staðar liggja þau sársaukamörk. Túrinn var hins vegar frábær og ekki laust við að ég velti fyrir mér hvað hafi orðið um afganginn af hamborgarhryggnum, þegar ég keyri af stað til borgarinnar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Richard Jewell | 9. ágúst 9.8. |