Sá stærsti úr Þingvallavatni í vor

Erik með þennan líka stórglæsilega ísaldarurriða sem hann veiddi í …
Erik með þennan líka stórglæsilega ísaldarurriða sem hann veiddi í landi þjóðgarðsins á Þingvöllum. Þetta er sá stærsti úr vatninu sem sögur fara af í vor. Ljósmynd/Cezary

Sænski veiðimaðurinn Erik Cullin heimsótti Þingvallavatn í fyrsta skipti fyrir nokkrum dögum. Hann er afar reyndur veiðimaður og hefur veitt víða um heim. Hann var á höttunum eftir ísaldarurriða eins og svo margir sem heimsækja Þingvallavatn. Með honum í för var ísaldarurriðahrellirinn Cezary Fijalkowski sem hefur landað þeim mörgum í yfirstærð í vatninu.

Þeir félagar voru að veiða í landi þjóðgarðsins en nákvæm staðsetning liggur ekki fyrir. Þeir félagar voru að prufukeyra flugur sem eru í hönnun og eru nýjar af nálinni. Það verður ekki betur séð en þær eigi eftir að virka vel.

Cezary varð vitni að tökunni og segir hana hafa verið skammt frá landi. Giskar á einhverja fimmtán metra frá bakka. Fljótlega eftir að búið var að setja í fiskinn tók hann mikla roku og á örskammri stundu hafði hann rifið út 150 metra af línu, en þá róaðist hann og hægt var að lempa hann til baka.

Viðureignin stóð í góðar tuttugu mínútur og var hraustlega tekið á þessum stórfiski. Í sameiningu tókst að landa þessum urriða. Cezary lýsir fisknum þannig: „Ég hef séð marga stóra urriða úr Þingvallavatni og fiska í þessari stærð og jafnvel yfir hundrað sentímetra. En þetta er fallegasti fiskur sem ég hef séð úr vatninu. Hann var alveg hreint magnaður.“

Urriðinn var mældur 99 sentímetrar og hafa Sporðaköst ekki upplýsingar um svo stóran fisk úr Þingvallavatni það sem af er vori. Það er líka fátítt að þeir verði stærri en þetta. Erik var afar ánægður með kynni sín af vatninu og skyldi engan undra. Hann sagðist aldrei hafa séð slíkan urriða á sínum ferli.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira