Ódýrasti birtingurinn og gott málefni

Mikið af sjóbirtingi gengur upp í Ölfusá og hefur aukist …
Mikið af sjóbirtingi gengur upp í Ölfusá og hefur aukist ár frá ári. Verðið á veiðileyfum á svæðinu er með því ódýrasta sem býðst. Ljósmynd/Veiðitorg

Dagurinn í sjóbirtingsveiði á Austurbakka Ölfusár, á ósasvæðinu er sennilega sá ódýrasti sem völ er á. Stöngin kostar tvö þúsund krónur á dag og hægt er að kaupa sumarkort sem kostar átján þúsund krónur. Öll veiðileyfasala rennur til björgunarsveitarinnar. Tíu stangir eru leyfðar á svæðinu og hægt er að kaupa veiðileyfi eða sumarkort inni á veiðisöluvefnum Veiðitorg.is.

Erlendur Steinar Friðriksson eða Elli Steinar, á og rekur vefinn. Hann segir að því miður sé illa haldið utan um skráningar á veiði á svæðinu, en veiðimönnum er skylt að skrá afla eftir að veiði lýkur á rafræna veiðibók sem er inni á Veiðitorg.is.

„Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka fær hverja krónu af þeim veiðileyfum sem seld eru á svæðinu. Veiðisvæðið er í þeirra umsjón og við tökum ekki krónu upp í okkar kostnað. Þetta rennur óskipt til þeirra og hefur alltaf gert. Þannig að fólk er ekki bara að komast í ódýra veiði heldur er það líka að styrkja gott málefni,“ sagði Elli Steinar í samtali við Sporðaköst.

Yfirlitsmynd af svæðinu. Neðst á myndinni má sjá Óseyrarbrú, en …
Yfirlitsmynd af svæðinu. Neðst á myndinni má sjá Óseyrarbrú, en svæðið spannar um þrjá og hálfan kílómetra. Ljósmynd/Veiðitorg

Spurður frekar út aflabrögð á svæðinu segist hann því miður vita lítið um þau. Hann merkir þó að sama fólkið kemur þarna árlega og jafnvel oft á ári og það bendi til þess að eitthvað sé að hafa. „Það má veiða á allt þarna og það er enginn kvóti. Við vitum að þetta er gríðarleg umferðarstöð fyrir fisk sem er að ganga upp þetta mikla vatnasvæði."

Svæðið er frá Óseyrarbrú, Eyrarbakkamegin og er um þrír og hálfur kílómetri. Aðgengi er þægilegt og þarna hafa margir sótt í að veiða sjóbirting.

Ægir Guðjónsson er formaður björgunarsveitarinnar sem annast svæðið. „Þetta fyrirkomulag hefur verið frá því að ég man eftir mér. Ég var bara smá polli þegar ég var að fara með pabba í veiðieftirlit á svæðinu. Fyrir björgunarsveitina skiptir þessi fjáröflunarleið svo sannarlega máli. Hún er mun auðveldari fyrir okkur en að vera með mannskap að selja neyðarkallinn eða standa í flugeldasölu,“ sagði Ægir í samtali við Sporðaköst.

Elli Steinar, eigandi Veiðitorgs. Allt andvirði veiðileyfa á svæðinu rennur …
Elli Steinar, eigandi Veiðitorgs. Allt andvirði veiðileyfa á svæðinu rennur óskipt til björgunarsveitarinnar á Eyrarbakka. Ljósmynd/Veiðitorg

Nokkur umræða varð um veiðisvæðið á facebooksíðunni Veiðidellan er frábær, í gær. Þá setti Ragnar Viðarsson inn færslu um veiðiferð einmitt á umrætt svæði. Hann og félagi hans lönduðu þremur birtingum á innan við klukkustund. Þá var einnig forvitnilegt að sjá að þeir fiskar voru færðir til bókar í rafrænu veiðibókinni sem er að finna á Veiðitorg.is. Það eru fyrstu fiskarnir sem eru færðir til bókar í vor. 

Það er líka athyglisvert að sjá til að mynda að dagsstöngin í Fjarðará í Hvalvatnsfirði kostar sex þúsund krónur en þar er hægt að lenda í skemmtilegri bleikjuveiði. En svæðið er dyntótt og veiði ýmist í ökkla eða eyra. Sama er að segja um Dalsá og Tungudalsá í Fáskrúðsfirði, eða Hofsá í Vesturdal í Skagafirði, og raunar fleiri veiðisvæði sem ekki eru oft í fréttum. Fyrir veiðiþyrsta ferðalanga er vel þess virði að kíkja inn á síðuna og kanna möguleika því verði er mjög stillt í hóf.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert