Fyrsti laxinn í Mýrarkvísl veiddist í morgun. Það var bandaríski veiðimaðurinn Brian Moore sem setti í fiskinn og landaði honum með dyggri aðstoð leiðsögumannsins Daniel Montecinos. Þessi íturvaxni hængur veiddist í Grófarpolli sem er veiðistaður númer níu í Kvíslinni.
Óhætt er að segja að Brian og Daniel hafi ekki beinlínis átt von á laxi enda var flugan sem kastað var andstreymis í Grófarpoll, Pheasant Tail númer sextán.
Þetta var alvöru slagur enda tók hængurinn púpu númer 16.
Ljósmynd/Daniel Montecinos
Matthías Þór Hákonarson, leigutak sagði þetta mjög snemmt fyrir fyrsta laxinn. „Yfirleitt sjáum við ekki fyrsta laxinn í kvíslinni fyrr en um miðjan júní og þá er það yfirleitt hrygna en við höfum samt nokkrum sinnum áður séð laxa svona snemma,“ sagði Matthías Þór í samtali við Sporðaköst.
Hann sagði laxinn hafa verið þykkan og í góðum holdum. Sérstaka athygli vakti að um tveggja ára hæng var að ræða. Verður spennandi að fylgjast með framhaldinu á vatnasvæðinu öllu, en Mýrarkvísl sameinast Laxá í Aðaldal og ferðast þær saman síðasta spölinn til sjávar.