Opnunarholl í Norðurá gaf 10 laxa

Helgi Guðbrandsson eitt sælubros með sinn fyrsta í sumar. Þessi …
Helgi Guðbrandsson eitt sælubros með sinn fyrsta í sumar. Þessi tók á Eyrinni og Laxfoss er alltaf fallegur bakgrunnur. Ljósmynd/Jonni

Opnunarhollið í Norðurá lauk veiðum á hádegi í dag. Tíu löxum var landað og annað eins misst og þar af nokkrir í löndum. Eyrin gaf flesta fiska eða fimm og þar veiddist í morgun grálúsugur smálax.

Rafn Valur Alfreðsson rekstraraðili Norðurár var nokkuð sáttur með niðurstöðuna. „Já. Ég held að það megi segja að þetta stóð undir væntingum. Með heppni hefðu komið á land fimmtán fiskar og eftir því hefði verið tekið. En við vorum að verða varir við fiska um allt og víða tylltu menn í laxa og jafnvel misstu eftir dágóðan tíma,“ sagði Rafn í samtali við Sporðaköst eftir að opnunarhollinu lauk. Hollið veiddi í tvo og hálfan dag, eða fimm vaktir.

Tryggvi Ársælsson með annan af tveimur fiskum sem hann landaði …
Tryggvi Ársælsson með annan af tveimur fiskum sem hann landaði í hollinu. Ljósmynd/RVA

Það hljóta að teljast góð tíðindi að fyrsti smálaxinn sé mættur en líkur eru á að sumarið geti verið gott með tilliti til smálaxagengdar. Vitað er að tveggja ára laxinn er ekki sterkur í ár og átta menn sig á því út frá smálaxagengd í fyrra.

Brotið gaf lax og þar misstist annar. Sama er að segja um Bryggjurnar og Hvararhylsbrot. Stokkhylsbrotið gaf lax og fiskur slapp í Laugakvörn og í Stekknum.

Rafn Valur Afreðsson með fyrsta laxinn sinn í sumar. Þessi …
Rafn Valur Afreðsson með fyrsta laxinn sinn í sumar. Þessi tók á Hvararhylsbrotinu og skömmu síðar missti ljósmyndarinn fisk þar í löndun. Ljósmynd/Jonni

„Það sem menn tóku líka jákvætt út úr þessu að fiskur var að sjást á hreyfingu. Var að stökkva og menn urðu varir við hann á ferðinni. Svo reistu menn margsinnis fisk í dag á Berghylsbrotinu og einn lax er genginn upp fyrir Glanna. Þannig að já heilt yfir má segja að þetta hafi verið bara nokkuð gott.“

Eins og við sögðum frá fyrr í vikunni veiddi Dagur Elí Svendsen fyrsta laxinn og kom hann af Stokkhylsbrotinu. Ingvar Svendsen pabbi hans fékk einmitt fyrsta laxinn í fyrra á sama stað og báðir þessir laxar tóku rauða Frances, kón. Fjölskylduflugan að virka vel í Norðurá.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira