Veiði hófst í Þverá í Borgarfirði í morgun og veiddist fyrsti laxinn í Kirkjustreng sem er með þekktari veiðistöðum í Þverá. Það var Davíð Másson einn af leigutökum árinnar sem landaði þeim fyrsta. Þegar leið á morguninn var sett í lax í streng ofan við Þórunnarhyl og honum landað. Klettshylur gaf svo þann þriðja skömmu fyrir hádegi. Af þessum staðsetningum má ljóst vera að lax er nokkuð dreifður og væntanlega veit þetta á gott.
Við neyddumst til að breyta fyrirsögn á fréttinni því rétt fyrir klukkan eitt var sett í 91 sentímetra stórlax í Kirkjustreng og var honum landað eftir mikla viðureign. Það var sá fjórði og stærsti í morgun. Þetta er orðin frábær vakt í Þverá því fyrirfram renndu menn ofurlítið blint í sjóinn þar sem enginn fiskur hafði sést, en erfitt er að skyggna Þverá við þau skilyrði sem verið hafa. Það var Sigurður Hannesson sem landaði stórlaxinum í Kirkjustreng.
Mikið vatn er í Þverá og góð skilyrði fyrir laxinn til að strika hratt í gegn og upp á efra svæðið eða í Kjarrá, en veiðihefst þar á fimmtudag.
Styrmir Elí Ingólfsson sem er við veiðar í Þverá sagði í samtali við Sporðaköst að hann hefði séð lax stökkva í Klapparfljóti og aðstoðaði við löndun á laxinum í Klettsfljóti.
Fiskurinn sem Davíð Másson veiddi var um áttatíu sentímetrar og eins og gefur að skilja silfurbjartur. Dæmigerður tveggja ára lax úr Þverá. Hinir tveir voru áþekkir, fyrir svo utan þann fjórða sem er sá stærsti sem við höfum heyrt af í sumar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Eystri-Rangá | Grzegorz Loszewski | 27. september 27.9. |
105 cm | Hvítá við Iðu | Katrín Tanja Davíðsdóttir | 24. september 24.9. |
101 cm | Víðidalsá | Jón Eðvald Halldórsson | 22. september 22.9. |
107 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Agnar Sigurjónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Hvítá við Iðu | Gunnar Pétursson | 20. september 20.9. |
101 cm | Víðidalsá | Nils Folmer Jorgensen | 17. september 17.9. |