Giftu sig við Kjarrá öllum að óvörum

Bjarni Brynjólfsson og Þorgerður Ólafsdóttir komu öllum á óvart og …
Bjarni Brynjólfsson og Þorgerður Ólafsdóttir komu öllum á óvart og kölluðu til prest í opnunarhollinu í Kjarrá og giftu sig við Efri - Johnson. Einkar glæsilegur klæðnaður brúðhjónanna vakti athygli. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Afar skemmtileg, óvænt og falleg uppákoma varð í opnunarhollinu í Kjarrá í síðustu viku. Þau Bjarni Brynjólfsson og Þorgerður Ólafsdóttir komu öllum að óvörum og kölluðu prest upp á fjall og voru þau gefin saman við veiðistaðinn Efri – Johnson.

„Þessi á og ekki síst þessi veiðistaður er okkur mjög kær. Foreldrar Þorgerðar eiga landið sem við stóðum á og okkur fannst þetta fullkominn staður. Við höfðum keypt stöng í opnuninni á uppboðinu hjá Icelandic Wildlife Fund. Við vorum svo sem búin að vera að hringla aðeins með hvenær við ætluðum að gifta okkur, hvar og hvernig athöfnin átti að vera. Svo var þetta bara skemmtilegasta niðurstaðan, fannst okkur báðum,“ sagði Bjarni Brynjólfsson eftir að hafa tekið við hamingjuóskum frá Sporðaköstum og fengið spurninguna hvernig þetta hefði komið til.

Séra Hildur Björk búin með sitt og þá rigndi grjónum …
Séra Hildur Björk búin með sitt og þá rigndi grjónum yfir parið. Veiðigyðjan skrúfaði fyrir rigninguna á meðan að athöfnin fór fram. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Foreldrar Þorgerðar og nýbakaðir tengdaforeldrar Bjarna eiga jörðina Sámsstaði í Hvítársíðu og í þeirra landi er einmitt Efri – Johnson.

Það vissi enginn af fyrirhugaðri giftingu aðrir en börnin þeirra, tengdabörn, presturinn og ljósmyndarinn, hún Gunnhildur Lind. Aðrir veiðimenn í hollinu höfðu ekki hugmynd um þennan atburð fyrr en um kvöldið þegar boðið var upp á kampavín í tilefni stóru stundarinnar.

Skála fyrir hjónunum. Bara börn og tengdabörn vissu af athöfninni. …
Skála fyrir hjónunum. Bara börn og tengdabörn vissu af athöfninni. Jú og eitt barnabarn. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Það var sóknarpresturinn í Reykholti Hildur Björk Hörpudóttir sem annaðist athöfnina og gaf þau saman.

„Það var svo skemmtilegt að við þegar lögðum af stað upp að Efri – Johnson að þá var grenjandi rigning. Alveg grenjandi. Við vorum vel vopnuð regnhlífum en um leið og við stoppuðum á bílastæðinu þá stytti upp. Athöfnin fór fram og var virkilega falleg og dýrmætar minningar sem urðu til. Við tókum ljósmyndir og stutt kampavínsstopp og fleiri myndir og tókum saman um sex leitið og um leið og við settumst upp í bíl fór aftur að hellirigna.“

Bjarni með annan af tveimur löxum sem þau hjónin fengu …
Bjarni með annan af tveimur löxum sem þau hjónin fengu í hollinu í Kjarrá. Þessi var tekin í Víghólskvörn sem er líka í landi tengdó. Ljósmynd/ÞÓ

Þau hjónin eru bæði með veiðidellu eins og lesendur ættu að vera búnir að átta sig á. Þau létu heldur ekki sitt eftir liggja og lönduðu sitt hvorum laxinum í opnun. Öðrum í Eyjólfsflúðum og hinum í Víghólskvörn. Bjarni fékk stærri fiskinn en það segir hann óvanalegt.

Þorgerður með ellefu kílóa lax úr ánni Alta í Noregi …
Þorgerður með ellefu kílóa lax úr ánni Alta í Noregi í fyrra í ágúst. Þetta er veiðistaðurinn Lower Sierra. Hún fékk tvo í þessum stærðarflokki. Ljósmynd/BB

Bjarni játar því að það sé nauðsynlegt að halda upp á brúðkaupsafmælið á þessum stað árlega. „Ég treysti því að leigutakar Kjararár muni áfram bjóða okkur stöng þarna á hverju ári. Ég horfði á þetta sem framvirkan samning þegar ég keypti stöngina.“

Bjarni segir þau veiða mikið saman og það sé þeirra sport, bara svipað og mörg hjón spila golf. Þau fóru til að mynda í Alta í Noregi í fyrra og þar fékk Þorgerður tvo ellefu kílóa laxa en Bjarni þurfti að sætta sig við mun minni í þeim túr.

Sporðaköst óska hjónunum innilega til hamingju með ráðhaginn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Laxá í Dölum Stefán Sigurðsson 24. júní 24.6.
102 cm Laxá í Aðaldal Dagur Ólafsson 24. júní 24.6.
104 cm Þverá Snorri Arnar Viðarsson 15. júní 15.6.
105 cm Laxá í Leirársveit Pétur Óðinsson 13. júní 13.6.
Veiðiárið 2021:
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.

Skoða meira