Fjörugt í Ytri og sá fyrsti úr Elliðaánum

Klaus Vander með fyrsta lax sumarsins 2022 úr Ytri - …
Klaus Vander með fyrsta lax sumarsins 2022 úr Ytri - Rangá. 85 sentímetra hrygna veidd á veiðistaðnum Borg. Ljósmynd/HHÞ

Það er mikið um að vera í laxveiðinni þessa dagana og margar ár að opna. Í dag eru það Ytri – Rangá, Víðidalsá, Vatnsdalsá og Laxá í Aðaldal. Um helgina voru opnaðar Langá, opnunarhollið í Laxá á Ásum og Hítará lauk. Og svo er náttúrulega borgarperlan að opna í dag.

Fyrsti laxinn úr Ytri – Rangá kom úr veiðistaðnum Borg og var þar að verki Klaus Vander. Hann landaði 85 sentímetra hrygnu og er það fyrsti laxinn úr Ytri í sumar. Harpa Hlín Þórðardóttir sem annast rekstur og sölu á ánni sagði að snemma í morgun hefðu tveir laxar verið misstir en greinilegt að laxinn væri mættur á Rangárflúðir, sem er einn af lykilveiðistöðum í Ytri og beint fyrir neðan veiðihúsið. En þar lak einmitt einn af í morgun.

Stefán Sigurðsson með 97 sentímetra hæng einnig tekinn í Borg. …
Stefán Sigurðsson með 97 sentímetra hæng einnig tekinn í Borg. Það er búið að vera fjör í Ytri í morgun. Ljósmynd/HHÞ

Veiðihjónin, Stefán Sigurðsson og Harpa lentu svo sannarlega í ævintýrum. Fyrst landaði Stefán 97 sentímetra hæng og Harpa setti í einn stóran og missti. Það kom þó ekki að sök því fljótlega setti hún í annan og landaði honum. Það er fjör í Ytri og greinilegt að eitthvað er komið af tveggja ára fiski. Nú síðast fréttum við 78 sentímetra hrygnu sem var landað í Djúpósi.

Veiði hófst í Víðidalsá í morgun og voru í það minnsta tveir laxar komnir á land fyrir hádegi, annar úr Fitjá og hinn í Harðeyrarstreng.

Harpa Hlín með hrygnu sem var ekki mæld heldur skellt …
Harpa Hlín með hrygnu sem var ekki mæld heldur skellt beint í kistu. Stærðin skiptir ekki máli sagði Harpa. Hún var nógu stór. Ljósmynd/SS

Reykvíkingar ársins voru mætt til veiða í Elliðaánum í morgun og hún Kamila Walijewska náði þar í maríulaxinn sinn með dyggri aðstoð Stefáns Karls Segatta sem var leiðsögumaður. Laxinn veiddist á Breiðunni fyrir neðan brú og var þar á ferðinni smálax. Mikið líf hefur sést í Elliðaánum síðustu daga og töluvert af fiski sést á ferðinni.

Fyrsti laxinn kominn á land í Elliðaánum. Það er Kamila, …
Fyrsti laxinn kominn á land í Elliðaánum. Það er Kamila, annar af reykvíkingum ársins, sem lyftir honum fyrir myndatöku á Breiðunni. Henni til aðstoðar var Stefán Karl Segatta. Ljósmynd/Ásgeir Heiðar

Langá á Mýrum opnaði í gær og Sporðaköst höfðu fregnir af tveimur löxum þaðan. Tónlistarmaður Jógvan Hansen var að veiða þar og sagði veðrið ekki leika við þá en gleðin væri samt alls ráðandi. Báðir fiskarnir veiddust á Breiðunni. Þá greindi visir.is frá því að sex laxar hefðu veiðst í opnun Hítarár. Opnunarhollið í Laxá á Ásum landaði einum laxi og voru það töluverð vonbrigði þar sem sést hafði til laxa í göngu síðustu daga.

Vatnsdalsá byrjar ekki fyrr en seinni partinn í dag. Frekari fréttir af opnunum koma síðar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert