Laxveiðin á NA–landi fer vel af stað

James Ratcliffe með einn af fyrstu löxum Selár sumarið 2022. …
James Ratcliffe með einn af fyrstu löxum Selár sumarið 2022. Hann landaði fjórum löxum fyrsta daginn. Hér er brosað breitt þrátt fyrir kuldatíð. Ljósmynd/SRP

Laxveiðin hófst fyrir alvöru á NA–landi í gær. Þá opnuðu þær systur í Vopnafirði, Selá og Hofsá. Einnig var fyrsti veiðidagur í Hafralónsá. Sunnan heiða hófst veiði í Stóru – Laxá á efra svæðinu eða svæði fjögur eins og það var kallað. Þá var fyrstu löxunum landað í Tungufljóti í Biskupstungum, neðan Faxa.

Þrátt fyrir leiðinda veður og haustlegan kulda voru opnanir með ágætum. Sex laxar komu á land í Selá og fjórir í Hofsá. Nokkrir sluppu eins og gengur og gerist. James Ratcliffe landeigandi og forsprakki Six Rivers Project sem leigir laxveiðiár á NA–landi opnaði Selá. Hann setti í og landaði fiski meðal annars í Fosshyl og Efri Sundlaugarhyl. Alls landaði hann fjórum af þessum sex löxum. Eins og við fyrri opnanir notaði Jim, Sunray Shadow með góðum árangri. Allir sex fiskarnir sem veiddust í Selá á opnunardegi voru fallegir tveggja ára laxar.

Stefán Hrafnsson leiðsögumaður er á háfnum en Gísli Ásgeirsson og …
Stefán Hrafnsson leiðsögumaður er á háfnum en Gísli Ásgeirsson og James Ratcliffe hafa nýlokið viðureign við silfraðan tveggja ára lax. Ljósmynd/SRP

Hofsá gaf fjóra laxa og veiddust þeir vítt og breitt um ána. Sérstaka athygli vakti að smálax var einn af þessum fjórum og fékkst hann í Hvammshyl. Aðrir staðir sem gáfu fiska voru Þvottalækjarstrengir og Wilsons run.

Ívar Kirstjánsson með Hofsárhæng úr Þvottalækjarstreng. Áttatíu sentímetra fiskur og …
Ívar Kirstjánsson með Hofsárhæng úr Þvottalækjarstreng. Áttatíu sentímetra fiskur og hvítsilfraður nýkominn úr sjó. Hofsá gaf fjóra laxa fyrsta daginn. Ljósmynd/ÍK

Aðeins vestar og norðar voru veiðimenn að kasta fyrstu köstin á Hafralónsá. Þegar upp var staðið var sex löxum landað á fyrsta degi og telst það mjög góð byrjun á þeim bænum. Oftast eru veiðistaðirnir Gústi og Stapi sterkastir  í opnun.

Eva Sigurðardóttir með fyrsta laxinn úr Stóru - Laxá sumarið …
Eva Sigurðardóttir með fyrsta laxinn úr Stóru - Laxá sumarið 2022. 87 sentímetra hængur sem tók Collie dog. Ljósmynd/ÞS

Stóra – Laxá opnaði efra svæðið fyrir veiðimönnum í gær og var töluverð spenna í mönnum þar sem nokkuð er um liðið frá því að fyrstu laxarnir sáust þar. Fyrsta laxinn fékk Eva Sigurðardóttir og var það 87 sentímetra gullfallegur hængur. 

Sex laxar á fyrsta degi í Hafralónsá er mjög góð …
Sex laxar á fyrsta degi í Hafralónsá er mjög góð byrjun. Hér hampar Árni Heiðberg einum af fyrstu löxunum. Ljósmynd/Hreggnasi

Fyrstu löxunum var landað úr Tungufljóti í Biskupstungum en fyrir veiðimenn er helsta kennileiti þar fossinn Faxi og það var einmitt fyrir neðan hann sem fyrsti laxinn veiddist og var það falleg tveggja ára hrygna. Þegar uppvar staðið komu fjórir laxar á land í Tungufljótinu á opnunardegi.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Miðfjarðará Theódór Friðjónsson 2. ágúst 2.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Robert Taubman 31. júlí 31.7.
100 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 24. júlí 24.7.
105 cm Laxá á Ásum Lord Falmouth 22. júlí 22.7.
103 cm Laxá í Aðaldal Nils Folmer Jorgensen 19. júlí 19.7.
102 cm Hrútafjarðará Oddur Rúnar Kristjánsson 17. júlí 17.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jorgensen 14. júlí 14.7.

Skoða meira