Fengu þrjá á þrjátíu mínútum í Jöklu

Niall Morrison með fyrsta laxinn úr Jöklu sumarið 2022. Hann …
Niall Morrison með fyrsta laxinn úr Jöklu sumarið 2022. Hann átti sinn besta veiðimorgun til þessa. Setti í og landaði þremur löxum á hitch á innan við klukkutíma. Ljósmynd/ÞE

Það er óhætt að segja að Jökla hafi opnað með látum í morgun, þegar veiðin þar hófst. Niall Morrison, breskur veiðimaður átti Hólaflúð sem er einn þekktasti staður árinnar. Hann ákvað að byrja með hitch þó að margir séu fastir í þeirri trú að best sé að veiða þar á þungar flugur. Það er skemmst frá því að segja að hann setti strax í lax og landaði honum. Á nýjan leik hélt hann út og setti strax í annan tveggja ára lax og leikurinn endurtók sig í þriðja skipti. 

Þröstur Elliðason, leigutaki var á staðnum og fylgdist með af velþóknun. Kona Nialls, Heather tók fjórða rennslið og setti líka strax í lax og landaði honum. Þau hjón settu svo í þrjá til viðbótar en misstu þá.

Heather með lax úr Jöklu frá því í morgun. Þau …
Heather með lax úr Jöklu frá því í morgun. Þau hjónin voru í skýjunum með veiðina. Ljósmynd/ÞE

Fiskarnir hjá Niall voru á bilinu 80 til 86 sentímetrar og Heather landaði 74 sentímetra fisk. Það er óhætt að segja að þau hjónin hafi verið í skýjunum. „Ég hef veitt mjög víða um heim. Í Rússlandi, Argentínu, Mexíkó og Indlandi svo ég nefni einhver lönd en þetta er besti morgun sem ég hef átt í veiði. Við erum bara í sjöunda himni hjónin,“ sagði Niall í samtali við Sporðaköst. 

„Ég hef reynt að veiða á hitch en það hefur ekki gefið mér fisk. Og fá svo þrjá í beit á innan við klukkutíma er hreint úr sagt stórkostlegt. Við veiðum Jöklu og hliðarár í sjö daga og mér finnst það ekki mega vera minna þar sem þetta er töluvert ferðalag,“ upplýsti hann. Þetta er alls ekki fyrsta ferðin hans til Íslands. Hann hefur veitt, Norðurá, Laxá í Aðaldal, Víðidalsá og fleiri ár. Þetta er besti morguninn hans í veiði frá uppahafi.

Ásta Guðjónsdóttir með fallegan lax úr Húseyjarkvísl. Helga Petersen aðstoðaði …
Ásta Guðjónsdóttir með fallegan lax úr Húseyjarkvísl. Helga Petersen aðstoðaði mömmu sína við að landað fiskinum. Ljósmynd/GÖP

Opnun í Húseyjarkvísl

Opnunarholl í Húseyjarkvísl skilaði sex löxum á þremur dögum og missti þrjá. Gunnar Örn Petersen var í opnunarhollinu og sagði hann þetta hafa verið fína opnun. Mest var af laxi í Réttarhyl. Aðstæður voru erfiðar. Kalt og norðan garri en það spillti ekki gleðinni. Fiskarnir voru á bilinu 75 – 90 sentímetrar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert