Smálaxinn er mættur á Vesturlandi

Kátir kappar í smálaxaveislu í Þverá. Þeir Magnús Þorsteinsson og …
Kátir kappar í smálaxaveislu í Þverá. Þeir Magnús Þorsteinsson og Birgir Ólafsson voru að setja í hann í Kirkjustreng. Ljósmynd/SEI

Smálaxinn er víða farinn að ganga af nokkrum krafti í ár á Vesturlandi. Þetta er hefðbundinn tími fyrir hann og veiðitölur í mörgum ám eru að taka kipp núna. Nú eiga að fara í hönd bestu vikurnar í Borgarfjarðaránum.

Þetta sást greinilega í þverá í síðasta holli sem veiddi dagana 27. – 30. júní. Hollið landaði 59 fiskum og var þar að lang stærstum hluta um smálax að ræða og voru margir lúsugir. Styrmir Elí Ingólfsson starfsmaður Stara ehf sem leigir Þverá sagði að veiðimenn í hollinu hefðu verið að missa mikinn fjölda af löxum líka. „Mikið var um lúsugan fisk og hann var á víð og dreif um ána,“ sagði Styrmir í samtali við Sporðaköst.

Smálaxinn er líka að ganga af meiri krafti í Norðurá …
Smálaxinn er líka að ganga af meiri krafti í Norðurá í kjölfar stórstreymis. Þessum var landað í gær af Daða Laxdal Gautasyni. Blá af lax frá Eyri og niður á Bryggjur, var sagt um Norðurá í gær. ljósmynd/BÞH

Ef við tökum 29. júní sem dæmi þá veiddust í Þverá 26 laxar og af þeim voru 20 smálaxar. Norðurá er líka að sjá þessa dagana hressilegar göngur af smálaxi. Í gær veiddust 24 laxar í Norðurá og af þeim voru þrír tveggja ára en rest var smálax. Brynjar Þór Hreggviðsson staðarhaldari í Norðurá sagði mikið af fiski að ganga þessa dagana. „Einn leiðsögumaðurinn sagði við mig að áin væri blá af laxi frá Eyrinni og niður í Bryggjur,“ sagði Brynjar.

Blá á af laxi er borgfirsk lýsingu á miklum laxagöngum. 

Laxá í Kjós var að sjá smálaxagöngur í gær og því til staðfestingar veiddust tólf slíkir á neðsta svæði árinnar í gærmorgun.

Þó svo að allir fagni smálaxinum og hans komu í árnar þá er stutt í stress hjá mörgum. Síðustu þrjú ár hafa verið töluvert langt undir meðaltalsveiði á Vesturlandi. Eins og einn leigutaki orðaði það í samtali við Sporðaköst í vor. „Nú verðum við að fá góða veiði. Ég get ekki bara málað veiðihúsið einu sinni enn.“

Smálaxinn er fallegur og það er hann sem getur rifið …
Smálaxinn er fallegur og það er hann sem getur rifið upp tölurnar en nokkur ár eru síðan að Borgarfjörðurinn fékk kröftugar smálaxagöngur. Ljósmynd/SEI

Smálaxinn er líka að mæta í Elliðaárnar og þar segja kunnugir að útlitið sé gott. Laxá í Leirársveit er líka á góðri siglingu.

Í gær var stærsti straumur og er það ávísun á auknar laxagöngur. Það sem allir vonast eftir er að smálaxagöngurnar verði kröftugar og skili betri veiði en síðust þrjú ár. Það mun sjást á næstu dögum hvort forsendur eru fyrir því.

Fyrstu smálaxarnir eru að mæta á Norðurlandi en krafturinn í þeim göngum ætti að gerast í næsta stóra straumi sem er um miðjan mánuðinn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Miðfjarðará Theódór Friðjónsson 2. ágúst 2.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Robert Taubman 31. júlí 31.7.
100 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 24. júlí 24.7.
105 cm Laxá á Ásum Lord Falmouth 22. júlí 22.7.
103 cm Laxá í Aðaldal Nils Folmer Jorgensen 19. júlí 19.7.
102 cm Hrútafjarðará Oddur Rúnar Kristjánsson 17. júlí 17.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jorgensen 14. júlí 14.7.

Skoða meira