Yfir tvö hundruð laxar gengu í gegnum teljarann við Skuggafoss í Langá síðasta sólarhringinn. Þórður Arnarson, veiðivörður og staðarhaldari við Langá staðfesti þetta í samtali við Sporðaköst. Sagði hann að einnig væri töluvert um að lax gengi sjálfan fossinn og kæmi þar af leiðandi ekki fram á teljaranum.
„Þetta er að skila sér strax inn í veiðina og það komu 24 á land í morgun. Það er besta vaktin okkar til þessa. Auðvitað er gaman að sjá þetta og manni finnst að við eigum svolítið inni frá síðustu árum,“ sagði Þórður í samtali við Sporðaköst.
Hann var að bægja erlendum ferðamönnum frá ánni skammt neðan við fossinn og sagði hann merkingar um bannað aðgang engu skipta. En eins og fyrr segir voru fleiri á ferðinni en bara ferðamenn og sagði Þórður smálaxinn á fleygiferð. Aðspurður hvernig smálaxinn liti út sagði hann laxinn vera smáan. „Þó er ein mikil og breyting frá því í fyrra. Nú er tökugleði í laxinum en því var ekki að heilsa í fyrra. Það er eins og þessi árgangur sé með einhver önnur gen og vonandi veit þetta á gott.“
Lax er nú að dreifast um alla á og ljóst að veiðin á bara eftir að aukast í Langá á næstu dögum. 45 laxar eru gengnir í gegnum teljarann í Sveðjufossi mjög ofarlega í ánni.
Langá var komin með 104 laxa á miðvikudagskvöld en til samanburðar var sú tala 75 laxar á sama tíma í fyrra. Þórður er að vonast eftir því að fá meðal ár í sumar, veiðilega séð í Langá. Gangi það eftir yrði veiðin langleiðina í tvö þúsund laxa. Nú er best að krossleggja fingur.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |