Sá stærsti úr Jöklu í sumar

Nils með hænginn verklega. Hann mældist 102 sentímetrar og var …
Nils með hænginn verklega. Hann mældist 102 sentímetrar og var lúsugur. Þetta er stærsti lax sumarsins úr Jöklu til þessa. Ljósmynd/NFJ

Stærsti lax sumarsins til þessa í Jöklu, veiddist í gær. Var þar að verki stórlaxahvíslarinn Nils Folmer Jorgensesen sem landað hefur ófáum hundraðköllum. Nils lýsti deginum í samtali við Sporðaköst. „Ég átti ekki von á miklu þennan dag. Áin frekar lituð og mjög vatnsmikil. Óveður sem hafði verið fyrir austan hafði haft mikil áhrif á margar ár og voru þær komnar í kakó. Ég varð því sérlega ánægður og jafnvel hissa þegar í öðru kasti áttatíu sentímetra fiskur kom upp í yfirborðið og tók HKA Sunray sem ég var með. Skömmu síðar fékk ég annan og var hann 86 sentímetrar,“ sagði Nils.

Hann segir að þegar leið á dag hafi farið að hellirigna og þeir félagar ekki átt von á miklu öðru en að verða gegnblautir. Þeir komu á Hólaflúð sem er einn nafntogaðasti veiðistaður Jöklu. Þrátt fyrir vatnsveðrið lönduðu þeir félagar tveimur smálöxum og voru bara orðnir býsna kátir.

„Ég fékk svo svakalega töku og það var fiskur sem ég barðist við í fjörutíu mínútur í þessu mikla vatni. Þegar upp var staðið reyndist þetta vera lúsugur hængur og silfurbjartur. Ég var búinn að giska á 90 sentímetra en hann reyndist vera 102 þegar við mældum hann. Ég er alsæll,“ upplýsti Nils.

Jökla er komin með ríflega hundrað laxa og er það svipuð veiði og í fyrra.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Mýrarkvísl Tim Racie 23. júlí 23.7.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert