Eyjafjarðará er ein besta silungsveiðiá landsins. Hvar á landinu og jafnvel í heiminum geta menn landað 72 sentímetra bleikju og 73 sentímetra sjóbirtingi í sömu vikunni? Þetta afrekaði Aron Sigurþórsson í Eyjafjarðará.
Hann veiddi efsta svæðið í Eyjafjarðará, svæði fimm, í gær og landaði sex bleikjum. Svona lítur serían út. 72, 65, 53, 50, 47 og 45 sentímetra bleikjur. Sú stærsta sem mældist 72 sentímetrar veiddist á Jökulbreiðu og tók þá sívinsælu flugu Squirmy wormy. 65 sentímetra bleikjan tók líka Squirmy. Þessar minni komu svo á Vinyl púpur og Pheasant tail. Hann fékk fiska í Bakkahyljum og Úlfarskrókum og missti tvo í Ármótum, þar sem Torfufellsáin kemur út í Eyjafjarðarána, en það er magnaður veiðistaður.
Eyjafjarðaráin er vatnsmikil en var ekki lituð. Aðeins var grámi í Torfufellsánni en það gerði þetta bara veiðilegra.
Síðastliðinn föstudag var Aron einnig á ferðinni í Eyjafjarðaránni og veiddi þá neðsta svæðið eða svæði núll. Við gömlu brúna við flugvöllinn setti hann svarta straumflugu undir og fljótlega setti hann í vænan fisk. Þetta reyndist 73 sentímetra langur sjóbirtingur sem var „spiiiiikaður“ eins og hann skrifaði í skilaboðun til Sporðakasta. Þetta var fyrsta heimsókn Arons á bæði þessi svæði en áður hafði hann aðeins veitt svæði þrjú. Hann sagðist jafnframt hafa þegið góð frá Benjamín Þorra Bergssyni sem þrátt fyrir ungan aldur er þaulkunnugur ánni.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Richard Jewell | 9. ágúst 9.8. |