Holl sem nú er að veiða í Geirlandsá er í sannkallaðri mokveiði. Í gærkvöldi var hópurinn að nálgast sextíu fiska eftir þrjár vaktir eða einn og hálfan dag. Það er um tólf prósent af haustveiðinni í Geirlandsá, en heildarveiðin er að detta í fimm hundruð fiska.
Einn þeirra sem nú er staddur í Geirlandsá er Hrafn H. Hauksson sem er leiðsögumaður í Laxá í Kjós. Með honum eru nokkrir harðduglegir veiðimenn sem flestir eiga það sameiginlegt að vera leiðsögumenn og fáir standa þeim á sporði þegar kemur að veiðiskap.
Haukur sagði í samtali við Sporðaköst að þetta væri búið að vera frábært, „svona pent að orði komist.“ Þeir félagar lönduðu fjörutíu fiskum í gær. „Já. Það var mikið af þessu stórt, Við vorum með tíu til fimmtán yfir áttatíu. Við höfum séð þá stærri núna og allavega tvo sem við erum sammála um að nái meternum,“ sagði Hrafn þegar við náðum honum eftir vaktina í gærkvöldi og menn voru enn að telja saman veiðina.
Fiskurinn er að hans sögn dreifður um alla á. Oft hefur loðað við Geirlandsá, sérstaklega í vorveiðinni að stærstur hluti af fisknum er í Ármótum. Hrafn segir að vissulega sé mikið af fiski þar en það sama megi segja um marga veiðistaði. „Það er alveg kökkur af fiski í flestum af þessum lykilstöðum og alveg upp í gljúfur.
Við vorum hérna á sama tíma í fyrra og veiddum þá svipað og ég held að það hafi bara verið einn sem fengum í Ármótum. Núna er haugur af fiski þar og sama má segja um Kleifarnef, Mörtungunef og það er fullt af fiski í Marðarhelli og bara á víð og dreif um ána.“
Þeir félagar voru fyrir skemmstu í Tungufljótinu og segir Hrafn að þar hafi verið mikið stuð og ótrúlega mikið af stórfiski, en eins og við höfum sagt frá hér þá hafa veiðst þar tveir sjóbirtingar í haust sem hafa náð þeirri ótrúlegu stærð að mælast 100 og 101 sentímetri.
Þegar Hrafn er spurður um skýringuna á vaxandi magni af stórfiski á þessu svæði. Hann segir ljóst að veiða og sleppa fyrirkomulagið í Tungufljóti sé helsta ástæðan þegar það er haft í huga að sjóbirtingurinn verður gamall. Hann segir að það verði spennandi að fylgjast með hvernig Geirlandsáin muni þróast þegar árunum fjölgar sem veiða og sleppa verður stundað þar.
Tungulækur gaf einnig góða veiði í gær en þar voru bókaðir 22 fiskar og þar af voru sex fiskar áttatíu sentímetrar eða stærri og stærsti 86 sentímetrar. Það er ljóst að síðustu dagarnir í sjóbirtingnum eru að gefa einstaklega vel og hlutfallið af stórfiskum er ótrúlega gott.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Eystri-Rangá | Grzegorz Loszewski | 27. september 27.9. |
105 cm | Hvítá við Iðu | Katrín Tanja Davíðsdóttir | 24. september 24.9. |
101 cm | Víðidalsá | Jón Eðvald Halldórsson | 22. september 22.9. |
107 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Agnar Sigurjónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Hvítá við Iðu | Gunnar Pétursson | 20. september 20.9. |
101 cm | Víðidalsá | Nils Folmer Jorgensen | 17. september 17.9. |