SVFR hnyklar vöðvana á markaðnum

Jón Þór Ólason formaður SVFR segir félagið sækjast eftir fleiri …
Jón Þór Ólason formaður SVFR segir félagið sækjast eftir fleiri veiðisvæðum og er að horfa á stóru nöfnin á Vestanverðu landinu. Hér er formaðurinn með tveggja ára lax úr Bjarnadalshyl úr Sandá í Þistilfirði, sem SVFR bætti við sig í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Stangaveiðifélag Reykjavíkur, SVFR hefur nýlega framlengt samninga um nokkur af lykilvatnasvæðum félagsins. Þannig er búið að framlengja leigu á urriðasvæðunum í Laxá fyrir norðan. Bæði Mývatnssveitina og Laxárdalinn. Fyrirkomulag varðandi Mývatnssveitina er óbreytt en öðru gildir um Laxárdalinn. Þar er stöngum fjölgað um tvær. Fara úr tíu í tólf en veiðitímabilið er á móti stytt til 15. ágúst.

Aðbúnaður fyrir veiðimenn í Laxárdal hefur síðustu ár verið uppfærður og eru þar nú tólf svefnherbergi með baði. Á heimasíðu sinni greinir SVFR frá því að hugmyndavinna sé nú farin af stað á vegum veiðifélagsins um stórfelldar breytingar á veiðihúsinu Hofi í Mývatnssveit. Ekki er kveðið fastar að orði og því allt óvíst um hvenær slíkar framkvæmdir gætu hafist.

SVFR hefur endurnýjað samninga um Laxá í Mývatnssveit og Laxárdalinn. …
SVFR hefur endurnýjað samninga um Laxá í Mývatnssveit og Laxárdalinn. Langársamningar eru í höfn og nú á að bæta við fleiri veiðisvæðum. Einar Falur Ingólfsson


Langtímasamningur hefur verið undirritaður um Langá á Mýrum, sem er eitt af lykil vatnasvæðum félagsins. Þar verður sú breyting á að efsta svæði Langár kemur nú inn í veiðina og verður þar leyfð ein stöng. Einvörðungu verður heimilt að veiða á flugu á því svæði en áður var þar heimilt að veiða á maðk. Um er enda að ræða mikilvægt hrygningarsvæði fyrir Langá.

Jón Þór Ólason formaður SVFR segir ánægjuefni að búið sé að ganga frá þessum samningum. Í fyrra bætti SVFR við sig Sandá í Þistilfirði sem og Miðá í Dölum og einnig var félagið orðað við Hítará í sumar, þó að ekki hafi orðið af samningum þar.

Ragnheiður varaformaður SVFR og Guðbrandur Þorkelsson formaður Fiskræktar- og veiðifélags …
Ragnheiður varaformaður SVFR og Guðbrandur Þorkelsson formaður Fiskræktar- og veiðifélags Miðdæla takast í hendur eftir undirritun um leigu á Miðá, í fyrra. Hvar verður næsta undirskrift? Ljósmynd/SVFR

Afkoma félagsins í fyrra var sú besta í langri sögu þess og viðurkennir Jón Þór í samtali við Sporðaköst að útlit sé fyrir að afkoman fyrir þetta ár verði einnig með ágætum þrátt fyrir að félagið hafi verið á bremsunni með hækkanir á veiðisvæðum sem og húsgjald. Staða félagsins er með endemum góð. Félögum hefur fjölgað umtalsvert síðustu tvö ár og metur Jón Þór stöðuna þannig að SVFR vanti fleiri svæði. „Við þurfum meira vatn og við erum á höttunum eftir góðum svæðum fyrir okkar félagsmenn. Við erum að horfa á nokkur af stóru nöfnunum. Bæði á Norð – Vesturlandi og einnig á Borgarfjarðarsvæðinu. Við erum heldur betur í stakk búin til að bæta við okkur og þurfum þess í raun og veru. Það verður gert. Áfram gakk,“ upplýsti formaðurinn.

Þessi yfirlýsing mun án efa valda nokkrum titringi á markaðnum. Jón Þór vildi ekki nefna hvaða ár væru á óskalistanum en svaraði því til að það myndi koma í ljós. Það er ljóst að Stangó er í alvarlegum hugleiðingum og mun ef að líkum lætur hrista verulega upp í markaðnum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert