Veiðifélag Víðidalsár í Húnaþingi hefur ákveðið að bjóða út veiðirétt í Víðidalsá, Fitjaá og Hópinu frá og með árinu 2024. Samningur við núverandi leigutaka rennur út eftir næsta sumar og miðast útboðið því við sumarið 2024.
Björn Magnússon, formaður veiðifélagsins, staðfesti þetta í samtali við Sporðaköst og sagði að auglýsing þar sem óskað væri eftir tilboðum, birtist á allra næstu dögum.
Tilboðsfrestur rennur út laugardaginn 14. janúar klukkan 13 og verða tilboð opnuð í veiðihúsinu við Víðidalsá eftir að fresti lýkur.
Veitt er á átta stangir í Víðidalsá og Fitjaá og hefur áin átt misjöfnu gengi að fagna undanfarin ár, eins og flestar laxveiðiár á svæðinu. Töluverður bati varð þó í sumar sem leið þegar áin gaf 810 laxa.
Núverandi leigutakar hafa verið með ána frá sumrinu 2014. Starir ehf. hafa annast sölu og rekstur Víðidalsár í gegnum dótturfélag. Starir reka og selja veiðileyfi í Þverá og Kjarrá í Borgarfirði og Blöndu, svo einhverjar séu nefndar.