Uppselt og langur biðlisti Andakílsá

María Hrönn Magnúsdóttir með smálax úr Andakílsá síðsumars 2021. Nú …
María Hrönn Magnúsdóttir með smálax úr Andakílsá síðsumars 2021. Nú er breytt fyrirkomulag í söu veiðileyfa og færri komast að en vilja. Ljósmynd/HG

Veiðileyfi í Andakílsá í Borgarfirði eru í fyrsta skipti í sölu hjá heimamönnum sjálfum. Síðustu tuttugu árin hefur áin verið leigð út til Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Eftir að síðasti samningurinn rann út ákvað veiðifélagið að sjá sjálft um sölu á leyfum og réði til þess mann sem vel þekkir ána.

Skemmst er frá því að segja að þetta fyrirkomulag virðist vera að lukkast vel. „Já. Hún er uppseld og kominn drjúgur biðlisti,“ svaraði Ragnhildur Helga Jónsdóttir formaður veiðifélags Andakílsár þegar hún var spurð hvort nýja fyrirkomulagið hefði gengið vel.

Andakílsá er tveggja stanga á og þar er svokölluð sjálfsmennska þar sem veiðimenn elda sjálfir og þurfa ekki að greiða sérstaklega fyrir aðbúnað. En með hækkunum á verði veiðileyfa finnst mörgum veiðimanninum dýr fæðis– og gistikostnaður mjög íþyngjandi, enda kostar sólarhringurinn víða yfir þrjátíu þúsund krónur á manninn, þar sem skyldufæði er.

„Samningurinn við Stangaveiðifélag Reykjavíkur var runninn út og við ákváðum að prófa þetta fyrirkomulag. Við réðum Kristján Guðmundsson til að halda utan um söluna næstu ár en hann þekkir ána afskaplega vel og hefur lengi verið hér í árnefnd. Þetta hefur gengið ljómandi vel og við erum uppseld.“

Fræknir feðgar með stórlax úr Andakílsá, sumarið 2021. Frá vinstri: …
Fræknir feðgar með stórlax úr Andakílsá, sumarið 2021. Frá vinstri: Adam Óli Kjartansson, Kjartan Smári Höskuldsson og Emil Smári Kjartansson. Ljósmynd/KSH

Ragnhildur segir að áin sé á uppleið eftir umhverfisslysið sem varð í maí 2017 þegar set úr virkjunarlóninu hljóp niður í farveginn og margir óttuðust að tjónið yrði óbætanlegt eða það tæki langan tíma að endurheimta fyrri gæði lífríkisins. Hún segir að veiðifélagið hafi notið dyggrar aðstoðar sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar við uppbyggingaráform og hún sjái ekki betur en að þetta sé allt á réttri leið.

Sömu reglur munu gilda um veiðina líkt og verið hefur. Veitt er á tvær stangir og einungis má veiða á flugu. Taka má einn smálax undir 69 sentímetrum, á vakt á stöng, Ragnhildur hún hvetur veiðimenn til að hafa í huga að áin þarf á öllu sínu að halda við þá uppbyggingu sem enn stendur yfir.

Búið er að ljúka framkvæmdum á efri hluta árinnar sem snúa að því að verja bakka fyrir rofi og Ragnhildur viðurkennir að vissulega hafi það verið töluvert inngrip en veiðimenn hafi tekið því vel og þessi framkvæmd hefur skilað góðum árangri. Frekari hugmyndir af sama toga eru á döfinni fyrir neðri hluta árinnar, en engar ákvarðanir verið teknar enn sem komið er.

„Við hvetjum veiðimenn til að vera duglegir að taka hreistursýni af fiski. Það eru svo mikilvægar upplýsingar sem fást með þeim hætti. Vonandi gengur það vel í sumar,“ sagði Ragnhildur.

349 laxar veiddust í Andakílsá í fyrra og sumarið 2021 veiddust 518 laxar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert