Pálmi tekst á við „draumaverkefnið“

Listamaðurinn og fluguveiðimaðurinn stefnir að endurreisn sjóbleikjunnar í Hofsá í …
Listamaðurinn og fluguveiðimaðurinn stefnir að endurreisn sjóbleikjunnar í Hofsá í Vopnafirði. Ljósmynd/Pálmi Gunnarsson

Listamaðurinn og kannski umfram allt fluguveiðimaðurinn Pálmi Gunnarsson hefur ásamt einvalaliði tekið á leigu silungasvæði Hofsár í Vopnafirði. Markmiðið er að hefja endurreisn bleikjustofnsins í ánni.

Pálmi er tengdur Vopnafirði sterkum og margslungnum böndum. Uppalinn þar og mótaður í æsku bæði sem veiðimaður og tónlistamaður. „Þetta er svona draumaverkefni sem við erum að ráðast í. Draumur minn hefur verið sá að sjá Hofsá ná að einhverjum hluta aftur fyrri ljóma þegar kemur að bleikjustofninum. Hún var á sínum tíma að mínu mati ein besta sjóbleikjuá á landinu. Bleikjugangan í hana var líkast til einhver sú mesta sem maður vissi um. En það hefur gerst síðustu ár að stór hluti búsvæða bleikjunnar hafa tapast. Þar spilar stærsta hlutverkið að náttúran getur verið grimm og afkastamikil. Hofsá er þekkt fyrir hrikaleg vorflóð og við þær aðstæður lokaðist fyrir rennsli inn á mikilvæg búsvæði og hrygningarstöðvar bleikjunnar. Þarna voru hægrennandi lænur sem mynduðu kjörskilyrði fyrir hrygningu og uppeldi seiða,“ segir Pálmi í samtali við Sporðaköst.

Sigbjörn Kjartansson mælir sjóbleikju í Hofsá áður en henni er …
Sigbjörn Kjartansson mælir sjóbleikju í Hofsá áður en henni er sleppt. Ljósmynd/Pálmi Gunnarsson

Pálmi og hans veiðifélagar upplifðu snemma á öldinni að þetta hafði áhrif. Það dró úr styrk stofnsins og veiði minnkaði í kjölfarið. Vissulega voru enn til staðir sem hentuðu bleikjunni vel og nefnir Pálmi sérstaklega til sögunnar hinn þekkta Fellshyl þar sem mikil hrygning átti sér stað á hverju ári. Svo gerðist það eitt árið að gríðarlegt magn af möl barst í Fellshylinn í hamfaraflóði og þessi magnaði hrygningarstaður aflagaðist allur og var ekki lengur þessi mikla hrygningarstöð. Eftir þetta fundum við að allt fór til verri vegar. Sem betur fer hefur hann tekið aðeins við sér aftur.

Allt snýst þetta um að efla sjóbleikjuna en stofninn hefur …
Allt snýst þetta um að efla sjóbleikjuna en stofninn hefur verulega látið á sjá. Ljósmynd/Pálmi Gunnarsson


En trúir þú því að það sé hægt að endurreisa bleikjustofninn í Hofsá?

„Já. Ég er algerlega sannfærður um það. Ég og æskufélagi minn Hafþór Róbertsson höfum verið duglegir að benda á að það þyrfti að ráðast í þetta verkefni og um leið boðið fram krafta okkar til að koma að þeirri endurreisn. Ég veit hinsvegar að veiðifélagið hefur haft mörgum hnöppum að hneppa síðari ár og verið að reka stórt og flott laxveiðisvæði.“

Atli Dagur Ólafsson er einn af þeim sem skipa hópinn. …
Atli Dagur Ólafsson er einn af þeim sem skipa hópinn. Hann hefur brennandi áhuga á fluguveiði. Ljósmynd/Pálmi Gunnarsson

Nú hefur verið undirritaður samningur milli Pálma og félaga og Six Rivers Iceland um að taka svæðið á leigu til allt að fimm ára. Að verkefninu koma auk Pálma, Sigbjörn Kjartansson arkitekt sem á ættir að rekja til Vopnafjarðar, Atli Dagur Ólafsson og loks sonur Pálma, Sigurður Helgi. „Ég er mjög þakklátur Gísla Ásgeirssyni framkvæmdastjóra SRI að treysta okkur fyrir þessu verkefni sem meðal annars snýst um að veita vatni inn á Ásbrandsstaðalænurnar sem ég fullyrði að hafi verið uppistaðan í öllum hrygningarstöðvum og búsvæðum bleikjunnar í Hofsá.“

Silungasvæðið er um þrettán kílómetra langt og nær frá ármótum Hofsár og Sunnudalsár niður að ósasvæðinu. „Við ætlum að reyna að fóstra þetta vel, ganga varlega um og minnka allt álag á stofninn meðan hlúð er að svæðinu. Ég er sannfærður um að niðursveiflur í sjóbleikjuám landsins megi rekja til nokkurra meginfaktora. Þar spila stórt hlutverk grimm náttúra og svo hefur víða um land verið farið full geyst í malarnámi í sjóbleikjuám og það hefur haft mikil áhrif á búsvæði. Við þekkjum þessi dæmi vítt og breytt um landið. Hlýnun sjávar er svo eitt sem nefnt hefur verið þegar kemur að hnignun sjóbleikjunnar.“

Þeir feðgar, Sigurður Helgi og Pálmi á góðri stund í …
Þeir feðgar, Sigurður Helgi og Pálmi á góðri stund í vöðlum. Ljósmynd/Pálmi Gunnarsson

Pálmi og félagar ætla í fyrstu atrennu að freista þess að koma á nýjan leik vatni í lænurnar fyrir neðan bæinn Ásbrandsstaði og munu leggja rör og fleira í þeim tilgangi að koma búsvæðunum aftur í gang. Pálmi segist afskaplega ánægður með hópinn sem tekst á við þetta spennandi verkefni. „Þetta eru hreinræktaðir náttúruverndarsinnar og fluguveiðimenn fram í fingurgóma sem þykir ofurvænt um silungasvæði Hofsár. Ekki er verra að njóta velvilja og aðstoðar veiðifélags Hofsár. Ég hef alla trú á að við getum haft áhrif til góðs þarna. Draumurinn væri að bleikjan fyndi lænurnar við Ásbrandsstaði strax í haust og myndi hrygna þar á nýjan leik,“ sagði Pálmi um þetta draumaverkefni sem nú er farið af stað.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira