Fimm á land – opnun Norðurár

Jóhann Birgisson fékk þennan á Brotinu í morgun. Mikið líf …
Jóhann Birgisson fékk þennan á Brotinu í morgun. Mikið líf var víða í Norðurá í morgun. Ljósmynd/Rafn Valur Alfreðsson

Fimm laxar komu á land í Norðurá á fyrstu vakt sumarsins. Þrír þeirra veiddust á Eyrinni neðan við Laxfoss. Einn náðist á Brotinu og var það Jóhann Birgisson sem fékk hann. 73 sentímetra fiskur sem var feykisterkur og vel haldinn. Sá fimmti veiddist svo á Hvararhylsbroti. Laxarnir voru á bilinu 73 til 79 sentímetrar.

Rafn Valur Alfreðsson, rekstrarðili Norðurár var sáttur eftir morguninn. „Ég hafði eiginlega ekki svo miklar væntingar í morgun. Við höfðum bara séð einn fisk á Munaðarsvæðinu fram að opnun. Það hefur verið frekar mikið í og erfitt að skyggna hana. En þessi morgun kom okkur þægilega á óvart. Auðvitað vissum við að eitthvað væri komið af fiski en við höfðum ekki séð hann,“ sagði Rabbi í samtali við Sporðaköst.

Átta fiskar misstust, ýmist í löndun eða eftir dágóða stund. Þá eru ekki taldir þeir fiskar sem menn rétt tylltu í. Rabbi fór yfir hvar fiskar höfðu verið misstir. „Þeir misstu fisk á Stokkhylsbroti, í Laugarkvörn, fjóra á Eyrinni, einn í Munaðarnesi og einn á Brotinu. Við hföðum á tilfinningu að það væri að koma inn fiskur síðari hluta morgunvaktarinnar og þeir þrír sem veiddust þegar leið á morguninn voru allir grálúsugir."

Þetta er mun meira líf en menn hafa séð í opnun í Norðurá síðustu ár. Hvað sem það veit svo á í framhaldinu en það er ljóst að stækkandi straumur er að skila fiski. Stórstreymi er svo á morgun.

Forvitnilegt verður að fylgjast með framhaldinu en opnunarhollið í fyrra landaði samtals tíu löxum.

Fréttin sem við birtum í morgun er óbreytt hér að neðan. 

Þeir voru sáttir við dráttinn í opnun Norðurár þeir Jón Þorsteinn og Nuno A. B. Servo, veitingamaður þegar þeir fengu Eyrina fyrsta morgun veiðitímans, en veiði hófst í Borgarfjarðarperlunni klukkan átta í morgun. „Þetta var svaka stuð. Við settum í sex laxa en lönduðum bara tveimur. Geggjað,“ sagði Nuno í samtali við Sporðaköst rétt áðan. 

„Ég setti í lax í fyrsta kasti í morgun. Þegar hann var kominn að tánum á okkur sleit hann. Jón Þorsteinn skammaði mig og fór svo sjálfur út. Hann setti mjög fljótlega í fisk og þegar við vorum að fara að landa honum þá hrökk hann af. Ég skammaði hann ekki neitt og fór svo sjálfur aftur. Ég setti í fisk og missti hann aftur. Þá var Jón bara alls ekki sáttur,“ hló Nuno hressilega. Svo kom loksins að því.

Jón Þorsteinn með fyrsta laxinn úr Norðurá sumarið 2023, eftir …
Jón Þorsteinn með fyrsta laxinn úr Norðurá sumarið 2023, eftir því sem næst verður komist. Hann þurfti að hlaupa á eftir honum góða vegalend. Ljósmynd/Nuno

„Jón setti í hann og sá fiskur tók bara strauið niður ána og við lönduðum honum í Kaupmannapolli. Sem er töluvert neðar. En þetta var fyrsti laxinn sem kom á land í Norðurá í sumar og það var Jón sem fékk hann. Ég náði svo öðrum á land aðeins seinna. Við vorum líka að reisa fiska og setja í þá. Þetta var svaka líf."

Þeir félagar sáu fiska húsmegin, á Brotinu en þar var hann ekki eins tökuglaður. En það er sem sagt staðfest að fyrsti fiskurinn úr Norðurá kom á land kortér fyrir níu og Nuno landaði sínum hálftíma síðar. 

Fiskur sást í Stekknum og einn misstist á Stokkhylsbrotinu. Þá voru laxar að koma í hitch á Brotinu, að sögn Rafns Vals Alfreðssonar umsjónarmanns Norðurár. Það var að gerast rétt áður en við birtum þessa frétt.

Við munum uppfæra fréttina í dag eftir því sem tilefni er til.

Nuno með sinn fyrsta í sumar. Hann var búinn að …
Nuno með sinn fyrsta í sumar. Hann var búinn að missa tvo og setja í fleiri áður en þessi var mældur. Hann var 79 sentímetrar en fiskur ljósmyndarans var 75 sentímetrar. Ljósmynd/Jón Þorsteinn
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert