Fimm á land – opnun Norðurár

Jóhann Birgisson fékk þennan á Brotinu í morgun. Mikið líf …
Jóhann Birgisson fékk þennan á Brotinu í morgun. Mikið líf var víða í Norðurá í morgun. Ljósmynd/Rafn Valur Alfreðsson

Fimm laxar komu á land í Norðurá á fyrstu vakt sumarsins. Þrír þeirra veiddust á Eyrinni neðan við Laxfoss. Einn náðist á Brotinu og var það Jóhann Birgisson sem fékk hann. 73 sentímetra fiskur sem var feykisterkur og vel haldinn. Sá fimmti veiddist svo á Hvararhylsbroti. Laxarnir voru á bilinu 73 til 79 sentímetrar.

Rafn Valur Alfreðsson, rekstrarðili Norðurár var sáttur eftir morguninn. „Ég hafði eiginlega ekki svo miklar væntingar í morgun. Við höfðum bara séð einn fisk á Munaðarsvæðinu fram að opnun. Það hefur verið frekar mikið í og erfitt að skyggna hana. En þessi morgun kom okkur þægilega á óvart. Auðvitað vissum við að eitthvað væri komið af fiski en við höfðum ekki séð hann,“ sagði Rabbi í samtali við Sporðaköst.

Átta fiskar misstust, ýmist í löndun eða eftir dágóða stund. Þá eru ekki taldir þeir fiskar sem menn rétt tylltu í. Rabbi fór yfir hvar fiskar höfðu verið misstir. „Þeir misstu fisk á Stokkhylsbroti, í Laugarkvörn, fjóra á Eyrinni, einn í Munaðarnesi og einn á Brotinu. Við hföðum á tilfinningu að það væri að koma inn fiskur síðari hluta morgunvaktarinnar og þeir þrír sem veiddust þegar leið á morguninn voru allir grálúsugir."

Þetta er mun meira líf en menn hafa séð í opnun í Norðurá síðustu ár. Hvað sem það veit svo á í framhaldinu en það er ljóst að stækkandi straumur er að skila fiski. Stórstreymi er svo á morgun.

Forvitnilegt verður að fylgjast með framhaldinu en opnunarhollið í fyrra landaði samtals tíu löxum.

Fréttin sem við birtum í morgun er óbreytt hér að neðan. 

Þeir voru sáttir við dráttinn í opnun Norðurár þeir Jón Þorsteinn og Nuno A. B. Servo, veitingamaður þegar þeir fengu Eyrina fyrsta morgun veiðitímans, en veiði hófst í Borgarfjarðarperlunni klukkan átta í morgun. „Þetta var svaka stuð. Við settum í sex laxa en lönduðum bara tveimur. Geggjað,“ sagði Nuno í samtali við Sporðaköst rétt áðan. 

„Ég setti í lax í fyrsta kasti í morgun. Þegar hann var kominn að tánum á okkur sleit hann. Jón Þorsteinn skammaði mig og fór svo sjálfur út. Hann setti mjög fljótlega í fisk og þegar við vorum að fara að landa honum þá hrökk hann af. Ég skammaði hann ekki neitt og fór svo sjálfur aftur. Ég setti í fisk og missti hann aftur. Þá var Jón bara alls ekki sáttur,“ hló Nuno hressilega. Svo kom loksins að því.

Jón Þorsteinn með fyrsta laxinn úr Norðurá sumarið 2023, eftir …
Jón Þorsteinn með fyrsta laxinn úr Norðurá sumarið 2023, eftir því sem næst verður komist. Hann þurfti að hlaupa á eftir honum góða vegalend. Ljósmynd/Nuno

„Jón setti í hann og sá fiskur tók bara strauið niður ána og við lönduðum honum í Kaupmannapolli. Sem er töluvert neðar. En þetta var fyrsti laxinn sem kom á land í Norðurá í sumar og það var Jón sem fékk hann. Ég náði svo öðrum á land aðeins seinna. Við vorum líka að reisa fiska og setja í þá. Þetta var svaka líf."

Þeir félagar sáu fiska húsmegin, á Brotinu en þar var hann ekki eins tökuglaður. En það er sem sagt staðfest að fyrsti fiskurinn úr Norðurá kom á land kortér fyrir níu og Nuno landaði sínum hálftíma síðar. 

Fiskur sást í Stekknum og einn misstist á Stokkhylsbrotinu. Þá voru laxar að koma í hitch á Brotinu, að sögn Rafns Vals Alfreðssonar umsjónarmanns Norðurár. Það var að gerast rétt áður en við birtum þessa frétt.

Við munum uppfæra fréttina í dag eftir því sem tilefni er til.

Nuno með sinn fyrsta í sumar. Hann var búinn að …
Nuno með sinn fyrsta í sumar. Hann var búinn að missa tvo og setja í fleiri áður en þessi var mældur. Hann var 79 sentímetrar en fiskur ljósmyndarans var 75 sentímetrar. Ljósmynd/Jón Þorsteinn
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.

Skoða meira