Mörg veiðisvæði í heiminum ókönnuð

Brian Gies veiddi þennan Giant Trevally á Jólaeyju eða Christmas …
Brian Gies veiddi þennan Giant Trevally á Jólaeyju eða Christmas island í Indlandshafi. Þessi fiskur er um 55 pund. Brian segir sífellt fleiri veiðimenn leita eftir öðruvísi upplifun í stangaveiði. Ljósmynd/FWT

Fly Water Travel er bandarísk ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í veiðiupplifun um allan heim. Yfir 200 áfangastaðir eru í boði, allt frá Grænlandi til frumskóga Suður – Ameríku. Fly Water Travel er nýjasta viðbót Far Bank samstæðunnar sem á Sage, Redington og Rio. Allt þekkt vörumerki í heimi fluguveiðinnar.

Þeir Brian Gies og Ken Morris sem reka Fly Water Travels eru að hefja daginn á skrifstofunni í Ashland í Oregon í Bandaríkjunum. Borgin Ashland er staðsett miðja vegu á milli Portland og San Francisco á Vesturströndinni. Þegar við hittum þá félaga á Teams er vinnudeginum á Íslandi að ljúka. Þeir heilsa glaðir í bragði og án nokkurs aðdraganda erum við komnir á kaf í veiðispjall. Þessir tveir eru veiðimenn af lífi og sál og hafa veitt um allan heim. Um leið og við ræðum um stóra fiska, frábærar upplifanir og mest spennandi tegundirnar flettum við í gegnum heimasíðuna þeirra. Það er einfaldlega veisla fyrir augun að skoða myndir frá nánast öllum heimshornum. Veiðiþráin hellist yfir mann, enda er veiðitímabilið á Íslandi ekki byrjað þegar við tölum saman.

Brian og Ken stofnuðu Fly Water Travels rétt fyrir aldamót og hefur fyrirtækið vaxið og dafnað. Sumarið 2018 keypti Far Bank samstæðan, fyrirtækið. Á heimasíðu Fly Water má sjá myndir frá kunnuglegum stöðum en líka myndir af framandi slóðum og mögnuðum fiskum sem fæstir íslenskir veiðimenn hafa kastað á.

Frumskógarveiðin er mikið ævintýri

„Salt Water“ eða sjávarveiði skipar veglegan sess í vöruúrvalinu. En frumskógarveiðin er ekki síður spennandi. „Okkar viðskiptavinir hafa í ríkari mæli farið til Suður – Ameríku í veiði á nýjum slóðum. Þetta eru miklar ævintýraferðir og veiðin er mjög góð. Það sem okkur finnst líka spennandi við Suður – Ameríku er að veiðisvæðunum þar á bara eftir að fjölga þegar fleiri lönd verða aðgengileg,“ segir Brian framkvæmdastjóri. Ken tekur undir þetta og segir, Brasilíu, Venesúela, Bólivíu og mörg fleiri lönd bjóða upp á magnaða veiði. Golden Dorado, Peacock Bass, Arapaima, Pacu og hvað þeir heita allir þessir stóru flottu fiskar. „Þarna eru enn stór svæði sem ekki hafa verið aðgengileg fyrir veiðimenn og við búumst við því að veiðisvæðum í þessum löndum eigi bara eftir að fjölga á næstu árum. Þetta er ótrúlega spennandi svæði og veiðimenn eiga eftir að nema þar lönd. Við hlökkum til að þróa áfram ferðir á þessi svæði.“

35 punda King salmon veiddur í Chile. Ken Morrish landaði …
35 punda King salmon veiddur í Chile. Ken Morrish landaði þessum risafiski en hann er annar stofnenda Fly Water Travel. Ljósmynd/FWT

Einkunnarorð Fly Water Travel eru: „The World Awaits….“ eða einfaldlega Heimurinn bíður. Eftir að hafa rætt við þá félaga um alls konar veiði er spurt. Hvert á maður að fara? Þeir brosa báðir. „Þetta er stór spurning og við fáum hana oft. Þá þurfum við að byrja á að nálgast betur hvar áhugasvið veiðimannsins liggur. Sjávarveiði eða fersk vatn. Einstök ævintýraupplifun eða eitthvað hefðbundnara sem veiðimaðurinn þekkir og vill fara í,“ upplýsir Ken. Það má heyra á þeim að vaxandi áhugi sé fyrir framandi veiðistöðum. Sífellt fleiri veiðimenn vilja komast í eitthvað öðruvísi. Ferð ólíka því sem þeir hafa upplifað áður. Svo eru hinir sem vilja eltast við sínar tegundir og þar eru steelhead veiðimenn framarlega í flokki. Ken sem sérhæfir sig meira í tegundum í ætt við sjógengna regnbogann horfir þar einnig til Íslands. Fyrirtækið býður vissulega upp á ferðir til Íslands og má sjá myndir frá Norðurá, Eystri og Ytri – Rangá og Deplar Farm á heimasíðunni þeirra. En Ken telur Ísland mjög spennandi áfangastað fyrir þann hluta veiðimanna  sem vill eltast við sjóbirtinginn, bleikju og ekki síst lax. „Því miður sjáum við það vera að gerast víða í heiminum að göngur í ár þar sem stofnar snúa til baka úr sjó eru á niðurleið. Þetta virðist því miður vera staðan víða í heiminum. En það eru enn til staðir þar sem veiðin er stöðug og fer jafnvel batnandi. Við sjáum það til dæmis í sjóbirtingsánum í Argentínu. Það er auðlind sem er í góðu standi. Þar eru mörg fyrirtæki að bjóða upp á veiði og þar er enn verið að finna nýja staði og ferðir þangað njóta mikilla vinsælda.“

Ár sem ekki hafa verið veiddar

Brian tekur boltann og bætir við. „Þetta er í raun öll Patagónía. Það er í raun merkilegt að á hverju ári standa okkur til boða ný svæði og nýjar ár á þessu svæði sem ekki hafa veiddar áður. Við áttum slíkt samtal við nýtt fyrirtæki þar niður frá í vetur um á sem ekki hefur áður verið veidd. Þetta er alltaf svo spennandi og frábært að enn sé að bætast þar í úrvalið,“ upplýsir Brian og þeir lyftast i stólunum þegar þeir ræða stöðuna í Patagóníu. Ken segir að á okkar tímum séu engar stórar laxveiðiár eða regnbogaár sem heimurinn viti ekki af. Annað sé uppi á tengingnum í Suður – Ameríku. Silungsveiðin þar eigi bara eftir að aukast á næstu árum og fleiri ár munu komast á kortið þar.

Þegar talið berst að Íslandi hafa þeir orð á því hvað íslenskir veiðimenn og raunar margir veiðimenn frá Norðurlöndunum séu flinkir veiðimenn. Þeir hafa kynnst mörgum slíkum og það kom þeim á óvart hvað veiðimenn frá þessum löndunum eru upp til hópa góðir veiðimenn. Betri en þeir eiga að venjast frá mörgum öðrum löndum.

Þeir eru sammála um að síðustu ár hafa þeir verið að sjá mikið af nýjum viðskiptavinum. „Fólk sem vill ferðast og upplifa veiði sem hluta af ferðalaginu. Jafnvel bara taka einn dag sem eina af mörgum upplifunum. Svo erum við líka að fá fyrirspurnir frá fólki sem ekki hefur veitt áður en vill komast í topp veiði. Til dæmis risa Tarpon eða Giant Trevally. Byrja á þessum stærstu.“ Brian segir ánægjulegt að sjá þennan aukna áhuga sem hann telur að rekja megi meðal annars til samfélagsmiðla þar sem sífellt fleiri veiðimenn og ekki síst ungt fólk er að deila myndum eða myndskeiðum úr ævintýraferðum í veiði. Þetta hafi líka fjölgað fyrirspurnum frá ungu fólki. Þetta hafi komið þeim þægilega á óvart því að umræðan fyrir tíu árum hafi verið að þeim veiðimönnum sem vildu ferðast um heiminn til að veiða færi fækkandi. Þetta hefur breyst mikið á síðustu árum. Ný nálgun í markaðssetningu á veiði hefur svo sannarlega skilað miklum árangri.

„Okkar viðskiptamannahópur er svo fjölbreyttur og ólíkur. Við erum með marga viðskiptavini sem hafa farið yfir þrjátíu ferðir, jafnvel fjörutíu með okkur. Þetta er fólk sem er með sína dagskrá á hreinu og vill njóta sömu svæðanna ár eftir ár. Við þekkjum líka veiðisvæðin þar sem veiðimennirnir eru að eldast í rólegheitum, jafnvel komnir yfir áttrætt en halda áfram að fara. Þess vegna er svo ánægjulegt að sjá á hinum endanum fullt af ungu nýju fólki í veiðinni.“

Hvert færu þeir í síðustu ferðina?

Við setjum þá Brian og Ken í þá stöðu að velja eina ferð. Ímynda sér að það sé síðasta veiðiferðin þeirra og þeir mega bara velja eina. Fyrst Ken. „Þetta er erfitt. Ég get ekki valið ferð til Rússands á Kolaskaga vegna stríðsins. Einhver minnistæðasta ferð sem ég hef farið var til Tsimane í Bolivíu. Við vorum að veiða Golden Dorado og þetta var einfaldlega magnað. Upplifunin var svo einstök. Vaða í ánni til að komast að þessum stóru gylltu fiskum og sjónveiða þá. Kasta á fiska sem þú sérð og maður sér tökuna mjög vel ef þeir koma á eftir flugunni. Tsimane veiðisvæðið býður nú upp á þyrluflug inn á afskekkta staði sem hafa mjög lítið verið veiddir. Þetta er nýr og magnaður heimur. Ég myndi velja ferð til Tsimane sem mína síðustu veiðiferð.“

Brian er næstur. „Síðasta ferðin mín væri í raun þrír staðir en ég skal velja bara einn. Þá yrði það silungsveiði á Nýja Sjálandi. Ástæðan fyrir því er að ég elska að þurfa að hafa fyrir veiðinni minni. Fjallgöngur og virkilega reyna á mig líkamlega. Þess meira sem ég hef fyrir fiskinum þess skemmtilegra finnst mér að veiða. Að komast í þær aðstæður að finna fisk og kasta á hann og þetta er bara á milli mín og hans. Ég elska svoleiðis veiði. Þegar ég tala við viðskiptavini sem koma frá Nýja Sjálandi þá verð ég alveg æstur að heyra hvernig þeim hafi gengið og hvar þeir hafi fengið fisk. Blóðið rennur aðeins hraðar við að heyra lýsingarnar. Það yrði mín síðasta ferð. Auðvitað myndi ég líka vilja komast til Seychelleseyja, en maður má víst bara velja eina ferð,“ hlær Brian.

Fyrir áhugasama um að vita meira um það sem Fly Water Travels býður upp á má benda á að fara inn heimasíðuna farbank.com og velja Fly Water Travels, eða finna þá á facebook eða öllum hinum samfélagsmiðlunum. 

Þessi grein birtist áður í blaðinu Veiði XII sem Veiðihornið gefur út. Þetta er tólfta árið sem Veiðihornið gefur út blaðið og er það eitt veglegasta veiðiblað sem kemur út á Íslandi. Blaðið kom út í byrjun júní.

Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert