Veiðileyfamarkaðurinn kólnar mikið

Laxveiðimaður í Jöklu. Íslensku árnar bjóða enn upp á góða …
Laxveiðimaður í Jöklu. Íslensku árnar bjóða enn upp á góða veiði miðað við það sem gerist í öðrum löndum. Verðið hefur hins vegar hækkað mjög mikið síðustu ár og á sama tíma hefur veiðin verið undir meðallagi. Ljósmynd/Morgunblaðið

Kalt loft leikur nú um laxveiðileyfamarkaðinn á Íslandi. Þetta á sérstaklega við um hinn svokallaða útlendingatíma en þar hefur salan verið erfiðari en í mörg ár. „Það er ekki bara að kólna. Markaðurinn er botnfrosinn, þegar kemur að útlendingum. Það er nánast útilokað finna nýja viðskiptavini í staðinn fyrir þá sem hætta.“ sagði veiðileyfasali og umsjónarmaður með einni af þekktari laxveiðiám landsins í samtali við Sporðaköst.

Veiðileyfasalar hafa í gegnum árin haldið spilunum þétt að sér þegar kemur að bæði verðlagningu og hvað er laust af veiðileyfum. Stóru árnar birta ekki verðskrá og í undantekningartilvikum er hægt að sjá laus veiðileyfi. Algenga svarið, þegar spurt er um hvort eitthvað sé laust, er að viðkomandi á sé nánast uppseld en til örfáar stangir. Fyrir komandi sumar eru þessar örfáu stangir mun fleiri en undanfarin ár.

Nokkrir samverkandi þættir valda þessari kólnun á markaðnum. Í fyrsta lagi hefur verð á laxveiðileyfum á Íslandi hækkað mikið undanfarin ár. Svo mikið að komið er að þolmörkum hjá mörgum veiðimanninum. Hér erum við fyrst og fremst að beina sjónum okkar að útlendingamarkaðnum. Íslenskir veiðimenn hafa svo lengi sem elstu menn muna kvartað yfir háu verðlagi. Útlendingatíminn hefur samt alltaf selst og hefur í raun haldið uppi þessu háa verðlagi. Algengt svar hjá veiðileyfasölum þegar rætt er um miklar hækkanir er að markaðurinn stjórni þessu. Leyfin seljast á þeim verðum sem sett eru upp. Nú er hins vegar þyngra undir fæti og ríku útlendingarnir eru farnir að segja takk en nei takk.

Staðan er mjög misjöfn eftir ám, þegar kemur að þekktustu …
Staðan er mjög misjöfn eftir ám, þegar kemur að þekktustu laxveiðiánum. Sumar eru bara í lagi á meðan að töluvert er óselt í öðrum. Einar Falur Ingólfsson

Auðvitað er þetta mjög misjafnt eftir einstökum ám. Ástandið er allt frá því að vera í lagi yfir það að vera alvarlegt. Og af hverju er það alvarlegt? Jú vegna þess að leigusamningar sem verið hafa verið gerðir við landeigendur fela í sér skuldbindingar á greiðslum. Takist ekki að selja leyfin er hætt við að erfiðara verði að standa við þær greiðslur.

En sífellt hækkandi verðlag er ekki eina ástæðan. Laxveiðin á Íslandi hefur ekki staðið undir nafni síðustu fimm ár. Árið í fyrra var það næst lélegasta frá 1974. Þegar niðursveiflan dýpkar eflir það áhrifin. Samlíkingin gæti verið bjórkassi. Verðið hækkar ár frá ári og að sama skapi fækkar bjórflöskunum í hverjum kassa.

Þegar verðlagið hækkar og löxunum fækkar kemur að því að menn staldra við og það virðist vera að gerast núna. 

Mun markaðurinn leiðrétta sig eða verður þetta magalending með tilheyrandi tjóni? Það er stóra spurningin. Ekkert útlit er fyrir leiðréttingu. Nýlega var endurnýjaður samningur milli leigutaka og landeiganda um Þverá/Kjarrá. Sá samningur hækkaði verulega og ofan á bætist svo verðtrygging milli ára að minnsta kosti að hluta. Þá hækkun greiða kaupendur veiðileyfa, eins og gefur að skilja.

Í þessari jöfnu hafa erlendir veiðimenn og raunar íslensk stórfyrirtæki keypt dýrustu dagana þannig að dæmið hefur gengið upp. Nú hikstar þetta fyrirkomulag. Hver erlendi veiðimaður sem mætir er í raun þyngdar sinnar virði í gulli. Alþjóðlegi markaðurinn, það er fólk sem tilbúið er til þess að ferðast milli landa og veiða á flugu er ekki stór. Þeir sem vel þekkja til hafa giskað á fimm þúsund manns. Þessi hópur talar sig auðveldlega saman og orðið sem fer af Íslandi núna er að það sé ekki lengur fyrir þá ríku. Bara þá ofurríku.

Vandséð er að markaðurinn leiðrétti sig. Það hefur sýnt sig, í það minnsta fram til þessa, að nýir lukkuriddarar eru alltaf tilbúnir til að yfirbjóða þegar ár fara í útboð, ef þeir sem fyrir voru eru ekki tilbúnir til að hækka sig.

Orðsporið sem fer af Íslandi núna er að það er …
Orðsporið sem fer af Íslandi núna er að það er ekki lengur fyrir þá ríku, þegar kemur að laxveiði. Bara fyrir þá ofurríku. Einar Falur Ingólfsson

Tekjur landeigenda af laxveiðiám eru á mörgum stöðum mikilvægur tekjupóstur og eðlilega vilja landeigendur hámarka afrakstur eigna sinna. Vandamálið er að gæðin, þegar horft er til veiðitalna eru rýrnandi. Samt hækkar verðið og hefur gert það árlega í flestum laxveiðiám.

Dýrustu laxveiðiárnar eru leigðar á um þrettán milljónir króna per stöng á ári. Kostnaðarverð til leigutaka er þá um 145 þúsund krónur per dag fyrir stöngina. Þá er eftir að taka tillit til annars kostnaðar. Rekstur á skrifstofu, markaðskostnaður og sitthvað fleira. Sjálfsagt er raunkostnaður við þessa dagstöng nær 160 þúsund krónum þegar kemur að verðlagningu. Ofan á þetta bætist að menn vilja hagnast á verkefninu.

Vopnafjörðurinn er sér á báti. Þar hafa orðið miklar verðhækkanir en hættan þar á tjóni fyrir landeigendur er ekki mikil. Ríkidæmi Ratcliffes er það mikið að hann þolir tap á rekstri komi til þess. Margir íslenskir veiðimenn hafa neyðst til að kveðja Hofsá og Selá fyrst og fremst vegna hækkandi verðlags.

Sporðaköst hafa heyrt í fjölmörgum íslenskum veiðimönnum í skammdegismánuðum. Allir kvarta undan háu verðlagi, eins og þeir hafa gert í svo mörg ár. En nú hins vegar fjölgar þeim sem neyðast til að fækka veiðitúrunum. Það er mikill munur á því að kvarta undan háu verðlagi eða afþakka veiðileyfi. Markaðurinn stjórnar jú verðlagningunni. Þegar viðskiptavinurinn breytir hegðan sinni eru það sterk skilaboð.

Barátta fyrir verndun villta laxins er drifin áfram af veiðimönnum. Aðrir hafa minni áhuga á þeirri baráttu. Komi til þess að veiðimönnum fækki þá er viðbúið að kórinn verði fámennari og þá heyrist minna í honum.

Það eru fleiri stangir lausar í bestu laxveiðiánum á besta tíma fyrir næsta sumar en hefur verið í langan tíma. Hvernig einstaka leigutakar takast á við þá stöðu er erfitt að spá fyrir um. Það er hins vegar ljóst að erlendi markaðurinn sem hefur gert það að verkum að hægt hefur verið að greiða svo háa leigu fyrir laxveiðiárnar er að kólna mjög hratt. Sleppur þetta ár? Verði veiðin áfram undir meðallagi eða bara hreinlega léleg í samanburði við það sem Ísland bauð áður upp á, verður þá næsta ár enn erfiðara? Hvenær kemur skellurinn og hversu alvarlegur verður hann?

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert