Æskudraumur Bretlandsmeistara rættist

Fimmmenningarnir að leggja í hann, fullgræjaðir. Úr varð mikið og …
Fimmmenningarnir að leggja í hann, fullgræjaðir. Úr varð mikið og skemmtilegt ævintýri í Soginu og Tungufljóti. Pétur Geir og Ólafur Foss frammí og Lewis, Terry og Franta afturí. Ljósmynd/Ólafur Hilmar Foss
„Fyrr í mánuðinum fengum við til okkar vini frá Wales, Englandi og Tékklandi. Um var að ræða Terry Bromwell velskan landsliðmann og margfaldan Bretlandsmeistara í fluguveiði, Lewis Hendrie enskan landsliðsmann og einn fremsta fluguveiðimann Englands og Tékkann Fratisěk Hanák fyrrverandi heimsmeistara og eiganda fyrirtækisins Hanák Competition.
Markmið ferðarinnar var fyrst og fremst að hafa gaman, en einnig að prufa Hanák veiðigræjurnar miðað við íslenskt veðurfar, stærð fiska og fleira,“ upplýsti Ólafur Hilmar Foss í samtali við Sporðaköst eftir magnaða veiðiferð með áðurnefndum köppum. Pétur Geir Magnússon félagi hans var einnig með í för.
Kátir karlar. Terry og Franta með fallegar bleikjur úr Soginu. …
Kátir karlar. Terry og Franta með fallegar bleikjur úr Soginu. Þeir eru hlæjandi eins og tveir smástrákar í nammibúð. Hjá Terry Bromwell var draumur frá í barnæsku að rætast. Að landa bleikju. Ljósmynd/Ólafur Hilmar Foss

„Við byrjuðum ferðina á heimavellinum mínum á Torfastöðum sem geymir yfirleitt nóg af bleikju á þessum árstíma. Það þurfti aðeins að hafa fyrir því að staðsetja fiskinn, finna réttu flugurnar og þess háttar, en að því loknu fengu allir fljótlega fiska.
Daginn eftir opnuðum við Bíldsfellið og þá byrjaði ballið. Stórar bleikjur, nokkrir birtingar upp í 78 sentímetra og einn óvæntur niðurgöngulax sem mældist hvorki meira né minna en 97 sentímetrar, þokkalega vel haldinn og kraftmikill miðað við aðstæður. 
Var honum landað á Hanák Superb RS 498 stöng, sem gefin er upp fyrir línuþyngd #4 og 8 punda taum frá Hanák.
Sólinn var hátt á lofti þennan dag og skaðbrann undirritaður eina ferðina enn og eftir varð sólgerð derhúfa og háalvarlegt gleraugnafar.
Fratisěk Hanák með verklegan sjóbirting sem mældist 78 sentímetrar. Hann …
Fratisěk Hanák með verklegan sjóbirting sem mældist 78 sentímetrar. Hann er kallaður Franta og er fyrrverandi heimsmeistari í fluguveiði. Ljósmynd/Ólafur Hilmar Foss
Á þriðja degi var haldið austur í Tungufljót. Það fyrsta sem við tókum eftir við komuna þangað var að lambalærin höfðu gleymst í veiðihúsinu við Alviðru og þá voru góð ráð dýr... 
Fyrir einskæra tilviljun fékk ég nánast í sömu andrá skilaboð frá veiðimanni sem var einmitt á leiðinni í Sogið og sá hann til þess að matnum yrði ekki fargað.
Daginn eftir komu tveir herramenn svo við í veiðihúsinu við Alviðru á leið sinni í Eldvatnið og sóttu góssið og skildu svo eftir bakvið rafmagnskassa við afleggjarann að Tungufljóti... 
Þess má geta að það var svolítið spaugilegt að sjá svipinn á ferðamönnunum sem þar voru þegar stór hálf pústlaus jeppi stoppaði eldsnöggt og út hljóp vöðluklæddur maður og náði í hvítan pakka úti í miðju hrauni, hoppaði svo aftur inn og lét sig hverfa á braut. 
Einn niðurgöngulax féll fyrir flugum hópsins. Sá var orðinn hinn …
Einn niðurgöngulax féll fyrir flugum hópsins. Sá var orðinn hinn hressasti eftir vetrardvöl í Soginu. Mældist 97 sentímetrar og kemur án efa aftur þegar líður á sumar. Ljósmynd/Ólafur Hilmar Foss
Á þessum tímapunkti héldum við að veiðikarma myndi aldeilis fara að segja til sín og núna myndu ævintýrin gerast. En, nei þá fór bara allt í kakó í Tungufljótinu. En við létum okkur ekki segjast og vorum staðráðnir í því að rífa allavega upp einn eða tvo fiska, gekk það að vísu eftir en, en ekkert meira en það.
Var því ákveðið að vakna eldsnemma morguninn eftir og halda aftur í Sogið. Fallegir sjóbirtingar og bleikjur tóku á móti okkur og enduðum við í rétt rúmlega 70 fiskum eftir ferðina og var öllum að sjálfsögðu sleppt.
Þvílíkt ævintýri sem þessi ferð var.“
Terry og Franta með tvo bolta. Þeir voru í skýjunum …
Terry og Franta með tvo bolta. Þeir voru í skýjunum eftir ferðina. Ljósmynd/Ólafur Hilmar Foss
Svona hljóðaði skýrslan frá Ólafi Hilmari Foss eftir ferðina. En hvernig upplifun var þetta fyrir gestina ykkar?
„Terry sagði við mig fyrir ferðina að draumur hans frá barnæsku hefði verið að veiða bleikju. Ef hann fengi eina væri hann sáttur. Ferðin sprengdi gjörsamlega væntingarskalann og endaði hann í það minnsta í fimmtán bleikjum, og nokkrum um eða yfir 60 sentímetra. Það sem kom honum kannski mest á óvart var hversu sterkar bleikjurnar í Soginu eru.
Franta var einnig að koma hingað í fyrsta skiptið og var hann mjög spenntur fyrir bleikjunni, en hann er rólegur karakter og nennir engu stressi í kringum veiðina. Hann horfir á veiðiferðir sem afslöppun og frí frá vinnunni. Hann var virkilega sáttur, sérstaklega með laxinn og birtingana.
Sólin gefur engan afslátt. Ef ekki er notuð sólarvörn er …
Sólin gefur engan afslátt. Ef ekki er notuð sólarvörn er hætt við að menn brenni þegar staðið er við heilu dagana. Ljósmynd/Ólafur Hilmar Foss

Lewis hefur komið til Íslands tvisvar áður og var hann virkilega spenntur fyrir þessari ferð. Sama má segja um hans upplifun eins og hjá hinum, virkilega sáttur með útkomuna og hvernig kakóið í Tungufljóti og öll hin óhöppin urðu að einstakri upplifun sem mun lifa í minningunni. Lewis og Franta eru svo aftur væntanlegir til landsins í ágúst og þá munum við eltast við stórar sjóbleikjur fyrir norðan.“
Hér sannast það enn og aftur að Ísland er land ævintýranna þegar kemur að stangveiði og það er fleira til en bara lax.
Lewis Hendrie með allt í keng í Soginu. Samtals landaði …
Lewis Hendrie með allt í keng í Soginu. Samtals landaði hópurinn um sjötíu fiskum. Mest bleikjum og sjóbirtingum. Ljósmynd/Ólafur Hilmar Foss
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert