Líbani kallar á hjálp fyrir mann sem særðist þegar Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, var ráðinn af dögum í Beirút í gær. Að minnsta kosti níu menn aðrir týndu lífi í árásinni og um 100 særðust.
Líbani kallar á hjálp fyrir mann sem særðist þegar Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, var ráðinn af dögum í Beirút í gær. Að minnsta kosti níu menn aðrir týndu lífi í árásinni og um 100 særðust. — Reuters
STJÓRNVÖLD í Ísrael létu að því liggja í gærkvöldi að Sýrlendingar eða hópar þeim tengdir hefðu staðið fyrir sprengjutilræði í Beirút í Líbanon fyrr um daginn þar sem fyrrverandi forsætisráðherra landsins var ráðinn af dögum.

STJÓRNVÖLD í Ísrael létu að því liggja í gærkvöldi að Sýrlendingar eða hópar þeim tengdir hefðu staðið fyrir sprengjutilræði í Beirút í Líbanon fyrr um daginn þar sem fyrrverandi forsætisráðherra landsins var ráðinn af dögum. Morðið hefur vakið ótta um að borgarastríð brjótist út í landinu á ný.

Rafik Hariri lét lífið ásamt níu öðrum þegar bílsprengja sprakk er bílalest hans ók hjá í miðborg Beirút. Hann var forsætisráðherra Líbanons frá 1992 til 1998 og aftur frá árinu 2000 þar til í október í fyrra. Þá gekk hann til liðs við stjórnarandstöðuna vegna deilna um afskipti Sýrlendinga af málefnum Líbanons.

Áður óþekktur íslamskur hópur sem kallast "Sigur og heilagt stríð í Stór-Sýrlandi" lýsti sig ábyrgan fyrir tilræðinu. Hefði Hariri verið myrtur vegna náinna tengsla hans við stjórnvöld í Sádi-Arabíu.

Silvan Shalom, utanríkisráðherra Ísraels, gaf greinilega í skyn í gærkvöldi að hann teldi að harðlínuhópar tengdir Sýrlendingum hefðu verið að verki. "Ég get ekki fullyrt að Sýrlendingar hafi staðið fyrir árásinni en margir hópar kunna að hafa verið að verki," sagði ráðherrann í útvarpsviðtali. Talsmenn stjórnarandstöðunnar í Líbanon sögðu valdhafa í landinu og Sýrlendinga bera ábyrgð á morðinu. Stjórnvöld í Sýrlandi voru á meðal hinna fyrstu til að fordæma verknaðinn og sögðu hann tilræði við "frið og stöðugleika í Líbanon". Klerkastjórnin í Íran gaf hins vegar í skyn að Ísraelar hefðu verið að verki í þeim tilgangi að grafa undan einingu líbanska ríkisins. Bandaríkjastjórn fordæmdi morðið og ítrekaði kröfu um að Sýrlendingar kölluðu heim "hernámslið" sitt frá Líbanon. Sýrlendingum bæri að virða sjálfstæði og fullveldi líbönsku þjóðarinnar. Bandaríkjamenn myndu leita liðsinnis bandamanna sinna til að binda enda á veru sýrlenska herliðsins í landinu sem telur um 14.000 manns.

Mikil spenna ríkti í Líbanon eftir morðið. Óvenjumikið fjölmenni var á götum Beirút og víða voru mótmæli höfð í frammi. Þykir sýnt að morðið auki mjög á óvissu og spennu í Líbanon þar sem Sýrlendingar ráða í raun ríkjum. Kosningar eiga að fara fram í Líbanon í maímánuði og létu margir í ljós þann ótta í gær að vargöld á borð við þá sem ríkti á árunum 1975 til 1990 vofði á ný yfir í landinu.

Beirút, Damaskus, Dubai. AFP.

Beirút, Damaskus, Dubai. AFP.