STJÓRN Símans samþykkti ársreikning fyrirtækisins á fundi í gær. Á fundinum var samþykkt að leggja til við aðalfund að greiddur verði 90% arður á árinu 2005 af nafnvirði hlutafjár, eða 6.333 milljónir kr. Tæp 99% hlutafjár eru í eigu ríkissjóðs.

STJÓRN Símans samþykkti ársreikning fyrirtækisins á fundi í gær. Á fundinum var samþykkt að leggja til við aðalfund að greiddur verði 90% arður á árinu 2005 af nafnvirði hlutafjár, eða 6.333 milljónir kr. Tæp 99% hlutafjár eru í eigu ríkissjóðs.

Rúmlega þriggja milljarða króna hagnaður varð af rekstri samstæðu Símans á seinasta ári. Eiginfjárhlutfall félagsins var 59% í árslok en verður eftir arðgreiðsluna 46%. "Eigendurnir telja að fyrirtækið geti greitt út þennan arð án þess að það komi niður á verðgildi fyrirtækisins eða að það skerði fjárhagslega getu þess," segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans.

Lækkun ekki talin draga úr áhuga

Á seinustu tveimur árum hefur Síminn greitt um 2,1 milljarð í arð á ári eða sem samsvarar um 30% af nafnvirði hlutafjár. Brynjólfur sagði að efnahagsreikningur félagsins væri mjög sterkur núna fyrir sölu fyrirtækisins og ekki væri talið að lækkun eiginfjárhlutfallsins myndi draga úr áhuga hugsanlegra fjárfesta á fyrirtækinu. Rekstrartekjur Símans hækkuðu um 1.045 milljónir milli ára og voru 19.806 milljónir kr. í fyrra. Veltufé frá rekstri nam rúmum 6,9 milljörðum kr., eða um 35% af rekstrartekjum, og arðsemi eiginfjár var 21,1% en var 14,8% á árinu 2003.