Jakob Björnsson
Jakob Björnsson
Jakob Björnsson fjallar um Kárahnjúkavirkjun: "Samkvæmt "Grímsvatnalærdóminum" ætti Hálslón því fremur að draga úr goshættu á þeim slóðum frá því sem nú er en að auka hana."

KÁRAHNJÚKAVIRKJUN hefur sem kunnugt er verið, og er enn, umdeild enda þótt hún njóti ótvírætt stuðnings ríflegs meirihluta landsmanna. Einn skeleggasti andstæðungur hennar hefur lengi verið Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. Hann ritaði grein í Morgunblaðið 30. desember sl. sem nefnist "Hversu traustar eru undirstöður Kárahnjúkastíflu og Hálslóns?" Þar reifar hann ýmsar ábendingar jarðfræðinga um berggrunninn undir Kárahnjúkastíflu og Hálslóni, svo sem um sprungusveim og merki um jarðhitavirkni.

Mér vitanlega hafa allar þessar athugasemdir jarðfræðinganna hlotið gagngera skoðun verkfræðilegra jarðfræðinga, sem hafa tekið tillit til þeirra við lokahönnun og framkvæmd virkjunarinnar eftir því sem þeir hafa talið efni vera til. Hef ég heyrt flestar þessara ábendinga áður. Eitt fannst mér þó nýstárlegt hjá Hjörleifi sem ég minnist ekki að hafa heyrt áður. Það er það sem hann nefnir "lærdóm af Grímsvatnagosum". Þar rifjar hann upp það álit dr. Sigurðar Þórarinssonar, jarðfræðings, sem hann setti fram fyrir mörgum áratugum og yngri jarðfræðingar hafa tekið undir síðar, að mér skilst, að sú lækkun þrýstings á berglög undir Grímsvötnum sem verður við Grímsvatnahlaup þegar vatnsborð lækkar í vötnunum, geti átt þátt í að hleypa af stað gosi í Grímsvötnum. Yfirfærir hann þessa hugmynd á Hálslón og virðist telja að vatnsborðslækkunin í lóninu að vetrinum um tugi metra geti á svipaðan hátt stuðlað að gosi á þeim slóðum. Þetta er undarleg hugmynd. Hálslón eykur þrýstinginn á jarðlögin undir því frá því sem hann er nú en minnkar hann ekki. Jafnvel þegar vatnsstaðan í lóninu er í lágmarki er þrýstingurinn á jarðlögin mun meiri en áður en það kom til. Samkvæmt "Grímsvatnalærdóminum" ætti Hálslón því fremur að draga úr goshættu á þeim slóðum frá því sem nú er en að auka hana.

Þessar hugleiðingar Hjörleifs um hugsanlega goshættu á Kárahnjúkasvæðinu vekja óneitanlega upp spurningu um hvað þá gæti gerst við jarðgufuvirkjanir á Hellisheiði og á Reykjanesi. Bæði þau svæði hafa verið eldvirk eftir síðustu ísöld. Á báðum stendur til að dæla upp vatni og lækka grunnvatnsborð. Því að þrátt fyrir niðurdælingu á affallsvatni skilar ekki allt vatnið sem upp er tekið sér niður aftur. Þótt þar sé um umfangsminni mannvirki að ræða en Kárahnjúkavirkjun eru þau miklu nær þéttbýli en hún; einkum Hellisheiði, þaðan sem landi hallar til höfuðborgarsvæðisins. Þarna er verið að draga úr vatnsþrýstingi á undirliggjandi berglög en ekki auka hann eins og í Hálslóni. Ég minnist þess ekki að Hjörleifur hafi fjallað um þessa spurningu.

Og meðal annarra orða: Ef varasamt er að virkja við Kárahnjúka, á einu óeldvirkasta svæði landsins, var þá ekki varasamt að reisa höfuðborg landsins og mesta þéttbýli í grennd við eldstöðvar sem hafa gosið eftir ísöld, bæði á forsögulegum og sögulegum tíma? Eldstöðvar sem hafa sent hraunstrauma niður Elliðaárdalinn og út í sjó þar sem Hafnarfjörður nú stendur. Jafnvel þótt við göngum út frá að takast myndi að forða fólki frá fjörtjóni í eldsumbrotum þar verða mannvirkin á höfuðborgarsvæðinu ekki flutt. Þar eru komin saman mun meiri verðmæti en fólgin eru í Kárahnjúkastíflu og mannvirkjum sem rof hennar hefði áhrif á.

Við þurfum að gæta samræmis í áhættumati okkar. Það má vissulega færa rök að því að áhættusamt geti verið að búa á eldvirkri eyju eins og Íslandi. Margir útlendingar geta ekki hugsað sér að búa þar. En við höfum kosið að búa hér þrátt fyrir þá áhættu. Áhættan við að reisa Kárahnjúkavirkjun held ég að sé ekkert meiri en sú sem við hvort sem er tökum með því að búa á Íslandi. Og nýlegir atburðir úti í heimi gefa ekki til kynna að áhættan af að búa á Íslandi sé meiri en víða annars staðar.

Ekkert er við því að segja að menn séu andstæðir Kárahnjúkavirkjun. En það er í meira lagi hæpið að gera óttann að bandamanni sínum í þeirri andstöðu. Að reyna að hræða fólk um efni fram.

Jakob Björnsson fjallar um Kárahnjúkavirkjun