Japansfrysting Loðnufrysting fyrir Japansmarkað er hafin víða um land. Japanskir eftirlitsmenn eru á öllum vinnslustöðvum og taka út hráefni, líkt og þessi sem skoðar loðnuna sem berst til Ísfélagsins í Vestmannaeyjum.
Japansfrysting Loðnufrysting fyrir Japansmarkað er hafin víða um land. Japanskir eftirlitsmenn eru á öllum vinnslustöðvum og taka út hráefni, líkt og þessi sem skoðar loðnuna sem berst til Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. — Morgunblaðið/Sigurgeir
LOÐNUKVÓTI vertíðarinnar næst ekki ef svo heldur fram sem horfir. Veiðarnar hafa fram til þessa gengið fremur illa, loðnan er dreifð og tíðarfarið óhagstætt.

LOÐNUKVÓTI vertíðarinnar næst ekki ef svo heldur fram sem horfir. Veiðarnar hafa fram til þessa gengið fremur illa, loðnan er dreifð og tíðarfarið óhagstætt.

Loðnukvóti vertíðarinnar er nærri 781 þúsund tonn en aflinn er nú orðinn um 300 þúsund tonn, samkvæmt upplýsingum af vef Fiskistofu. Þó má gera ráð fyrir að aflinn sé nokkuð meiri, þar sem afli sem farið hefur til frystingar úti á sjó er ekki inni í þeim tölum. Ætla má að hann hlaupi á einhverjum tugum þúsunda tonna.

"Eins og staðan er núna þykir mér hæpið að loðnukvótinn náist," sagði Maron Björnsson, skipstjóri á Guðmundi Ólafi ÓF, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær en skipið var þá á leið á miðin í Meðallandsbugt, skammt vestur af Ingólfshöfða en þar hefur loðnuflotinn stundað veiðarnar undanfarna daga. Hann sagði tíðarfarið hafa verið afar óhagstætt það sem af er vertíðinni, auk þess sem loðnan virtist ekki hafa skilað sér nægilega vel upp landgrunnið.

"Það er ekki mikið af loðnu á svæðinu, að minnsta kosti er hún mjög dreifð og þá þurfum við að hafa mikið fyrir að ná henni. Við fáum yfirleitt um 100 tonn í kasti sem er miklu minna en við erum vanir á þessum árstíma, þegar oft þarf ekki nema þrjú til fjögur köst til að fylla dallinn," sagði Maron.

Hann sagði að loðnan sem nú veiðist vestast í þessari göngu væri komin mjög langt í hrygningu og því yrði ekki hægt að veiða hana mikið lengur en út þennan mánuð. "Það hlýtur að skila sér meira af loðnu upp að ströndinni, enda má segja að vertíðin eigi enn eftir að ná hámarki. Við erum því eðlilega að vonast eftir annarri göngu og erum enn sem komið er nokkuð vongóðir. Það á að vera til nóg af loðnu en það er ekki þar með sagt að hún haldi sig þar sem skipin eru. Við höldum okkur vitanlega á hefðbundnum veiðislóðum og getum ekki lagst í miklar hafrannsóknir. Enda eigum við glæsilegt hafrannsóknaskip til slíkra hluta en það virðist hinsvegar fara best á því inni í Reykjavíkurhöfn," sagði Maron.

Guðmundur Ólafur ÓF er búinn frystibúnaði en Maron segir að frystingu hafi verið hætt um borð snemma á vertíðinni. "Við frystum loðnu á Rússland í upphafi vertíðarinnar en síðan hætti það að borga sig. Norðmennirnir sem fengu að veiða innan í lögsögunni sigldu með aflann yfir hafið, frystu hann og helltu honum á markaðinn. Í kjölfarið lækkaði verðið og þá var ekki staðið í þessu lengur, að minnsta kosti ekki fyrir okkur því frystigetan er ekki það mikil," segir Maron.

Fyrstu loðnunni á vertíðinni var landað á Raufarhöfn á föstudagskvöld og Helguvík fékk fyrstu loðnuna á laugardag, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Það hefur verið nánast stöðug loðnufrysting hjá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar frá því vertíðin hófst og fryst bæði á Austur-Evrópu og Japan. Frysting fyrir Japansmarkað er nú í fullum gangi.