TALIÐ er að atvinnuleysi í janúar hafi verið á bilinu 2,8-3,2% en atvinnuástandið versnar yfirleitt á þessum árstíma. Að mati Alþýðusambandsins benda nýjustu atvinnuleysistölur þó til að atvinnuleysi sé í raun að minnka um þessar mundir.

TALIÐ er að atvinnuleysi í janúar hafi verið á bilinu 2,8-3,2% en atvinnuástandið versnar yfirleitt á þessum árstíma. Að mati Alþýðusambandsins benda nýjustu atvinnuleysistölur þó til að atvinnuleysi sé í raun að minnka um þessar mundir. Hefur árstíðarleiðrétt atvinnuleysi ekki verið minna síðan í júlí 2002.

Ingunn S. Þorsteinsdóttir, hagfræðingur ASÍ, segir að þegar búið er að leiðrétta atvinnuleysistölurnar fyrir árstíðabundnum sveiflum komi í ljós að dregið hafi úr atvinnuleysi á seinustu mánuðum. "Þetta bendir til þess að við séum að rétta úr kútnum en samt sem áður erum við uggandi vegna frétta af uppsögnum starfsfólks í fiskvinnslunni," segir hún.

Að mati ASÍ er styrking krónunnar áhyggjuefni vegna áhrifanna hjá fyrirtækjum í samkeppnis- og útflutningsgreinum og gæti orðið til þess að hægja á batanum á vinnumarkaði.

Atvinnuþátttaka ungmenna hefur minnkað

Skv. nýju yfirliti Vinnumálastofnunar hefur atvinnulausum ungmennum (15-24 ára) fækkað verulega milli ára en atvinnulausum í elsta aldursflokknum (60 ára og eldri) fjölgað nokkuð.

Að sögn Ingunnar er líklegasta skýringin á fækkun ungmenna í hópi atvinnulausra sú að margir úr þeim hópi hafi snúið sér aftur að skólanámi. "Við höfum líka séð af tölum frá Hagstofunni að atvinnuþátttaka þessa hóps hefur verið að minnka töluvert," segir hún.

Skv. yfirliti Vinnumálastofnunar yfir síðast liðið ár var atvinnuleysi karla 2,6% og kvenna 3,8%. Hefur atvinnuleysi karla minnkað töluvert frá 2003 þegar það var 3%, en hefur minnkað minna hjá konum, en það var 3,9% árið 2003.