"ÞETTA var bara eins og í eldgamla daga. Við gengum um með kertaljós, fórum snemma að sofa og stigum ekki fram úr fyrr en birta tók," segir Sigþór Þorgrímsson, bóndi á Búastöðum í Vopnafirði, sem var án rafmagns í 27 tíma um helgina.

"ÞETTA var bara eins og í eldgamla daga. Við gengum um með kertaljós, fórum snemma að sofa og stigum ekki fram úr fyrr en birta tók," segir Sigþór Þorgrímsson, bóndi á Búastöðum í Vopnafirði, sem var án rafmagns í 27 tíma um helgina.

Bilun í háspennulínu olli því að rafmagn fór af nokkrum bæjum í Vesturárdal í Vopnafirði um klukkan 18 sl. laugardagskvöld. Komst það ekki í lag fyrr en um klukkan 21.15 á sunnudagskvöldið. Voru átta bæir án rafmagns í 27 tíma. Sigþór segir heppilegt að ekki var kalt í veðri þennan sólarhring og veður stillt. Á sunnudagsmorgun var hitinn inni í bænum kominn niður í 10 gráður en úti var við frostmark. Þetta hafi verið heldur langdregið en starfsmenn RARIK fundu ekki bilunina strax.

Á sunnudeginum sinnti Sigþór fénu eftir að birta tók. Hann segir engin kúabú á þessu svæði og því hafi ástandið verið þolanlegt á bæjunum hvað búskapinn varðaði. Helst hafi verið vandamál á þeim bæjum sem séu með borholu og gátu ekki dælt upp vatni.