Hjónin Jennifer Lopez og Marc Anthony héldust hönd í hönd er þau sungu saman hjartfólginn dúett, lagið "Escapemonos".
Hjónin Jennifer Lopez og Marc Anthony héldust hönd í hönd er þau sungu saman hjartfólginn dúett, lagið "Escapemonos". — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
RAY Charles heitinn var kvaddur með virktum á Grammy-verðlaunahátíðinni sem fram fór á sunnudag í Los Angeles. Fékk hann átta verðlaun fyrir síðustu plötu sína Genius Loves Company , sem m.a.

RAY Charles heitinn var kvaddur með virktum á Grammy-verðlaunahátíðinni sem fram fór á sunnudag í Los Angeles. Fékk hann átta verðlaun fyrir síðustu plötu sína Genius Loves Company , sem m.a. var valin breiðskífa ársins og plata ársins, en á plötunni syngur Charles dúetta með söngvurum á borð við Elton John og Van Morrison.

Plata Charles, sem er hans tvö hundruð og fimmtugasta þegar allt er tekið með skv. talningu Variety , kom út tveimur mánuðum eftir að hann féll frá í júní á síðasta ári. Þetta er aðeins í annað skiptið sem plata ársins fellur látnum listamanni í skaut, en Double Fantasy var valin plata ársins fyrir 1980 tveimur mánuðum eftir að John Lennon hafði verið ráðinn af dögum.

Sjálfur fékk Charles fimm verðlaun; einnig fyrir besta poppsamsöng í laginu "Here We Go Again" sem hann söng með Noruh Jones, fyrir besta gospel-flutninginn í laginu "Heaven Help Us All", með Gladys Knight en platan var einnig útnefnd besta poppplatan. Auk þess fékk Charles sérstök heiðurs-Grammy-verðlaun. Þá fékk platan þrenn verðlaun fyrir útsetningar og upptöku. Einu verðlaunin sem Charles varð af var fyrir besta R&B flutning en þau féllu Prince í skaut.

Ray Charles hafði áður fengið 12 Grammy-verðlaun - öll í flokki R&B-tónlistar - þau fyrstu árið 1960.

Aðrir stórir verðlaunahafar á hátíðinni voru John Mayer fyrir lag árins, "Daughters" og hljómsveitin Maroon 5 var útnefnd besti nýliði ársins.

Þá fékk Alicia Keys næstflest verðlaun á eftir Charles, fern talsins og Norah Jones, Usher, Kanye West og U2 fengu þrenn.

Keys fékk verðlaun fyrir bestu R&B-plötu ársins ( The Diary of Alicia Keys ), West fyrir rapp-plötu ársins ( The College Dropout ) og Green Day fyrir bestu rokkplötu ársins ( American Idiot ).

Nokkrir gamalreyndir í faginu fengu sín fyrstu Grammy-verðlaun á sunnudag; Motorhead fyrir þungarokksflutning ársins, Rod Stewart fyrir sígilda poppplötu ársins og Brian Wilson fyrir flutning á ósungnu rokklagi "Mrs. O'Leary's Cow" af Smile . Loretta Lynn fékk sín fyrstu Grammy-verðlaun í heil 33 ár þegar plata hennar Van Lear Rose var valin kántríplata ársins. Svipaða sögu er að segja af Nancy Wilson sem fékk sín fyrstu verðlaun (besta sungna djassplatan) síðan hún fékk verðlaun í R&B-flokki árið 1964.

The Blind Boys of Alabama, sem hafa verið að í heil 60 ár, unnu til gospel-verðlauna fjórða árið í röð.

Alls voru veitt verðlaun í 107 flokkum sem spanna allar hugsanlegar og óhugsanlegar tegundir tónlistar; allt frá rokki til polka, en einungis var sjónvarpað beint í Bandaríkjunum frá veitingu verðlauna í 10 helstu flokkunum. Dæmi um þessa fjölskrúðugu verðlaunaflóru er að nú í fyrsta sinn voru veitt verðlaun fyrir bestu plötuna með tónlist frá Hawaii.

Björk var tilnefnd til tvennra verðlauna. "Oceania" var tilnefnt í flokknum "flutningur söngkonu á popplagi" en þau verðlaun fóru til Noruh Jones fyri lagið "Sunries" en í flokknum framsækna plata ársins var plata hljómsveitarinnar Wilco A Ghost is Born tekin fram yfir Medúllu . Emilíana Torrini hafði verið tilnefnd fyrir danslag ársins en þau féllu í skaut "keppinautar" hennar Britney Spears og Avant & Bloodshy fyrir lagið "Toxic".

skarpi@mbl.is