Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir fjallar um vandamál geðfatlaðra: "Það verður tæpast hjá því komist að setja ný lög og reglugerðir sem efla áhrif geðsjúkra og aðstandenda þeirra og flétta aðferðir sjálfseflingar í þjónustuna."

NÝJAR áherslur varðandi geðheilbrigðismál voru kynntar á ráðherraráðstefnu sem haldin var í Helsinki í janúar 2005. Þar kom m.a. fram að hverfa þurfi frá stofnanaþjónustu yfir í samfélagsþjónustu, efla þurfi notendur og aðstandendur til áhrifa á stefnumótun og þjónustu. Þetta þýðir kúvendingu í starfi með geðsjúkum og breytingar á valdahlutföllum og áhrifum í málaflokknum.

Hugmyndafræði sjálfseflingar er leið til að auka áhrif notenda og aðstandenda. Ef sú leið verður valin munu valdahlutföll breytast og það gerist ekki án átaka.

"Empowerment" - sjálfsefling - er jafnrétti í víðasta skilningi. Einstaklingurinn upplifir að hann hafi áhrif og sé þátttakandi í samfélaginu. Með þátttöku í raunverulegum verkefnum lærir hann að horfa gagnrýnum augum á þjónustu. Það hefur áhrif á tilfinningar, hugsanir og atferli. Fyrsta skref sjálfseflingar er að bjóða fólki að taka þátt og alltaf er val um leiðir og hugmyndafræði. Markmiðið með þátttökunni er að læra að nýta styrkleika til að komast yfir eigin hindranir eða þær sem í vegi standa í umhverfinu. Þátttakan miðar að því að auka sjálfstraust og sjálfvirðingu. Einstaklingurinn hefur rétt á að ákveða í hverju hann tekur þátt, hve lengi og með hverjum, án þess að eiga á hættu að verða útilokaður frá aðstoð. Þetta fyrsta skref sjálfseflingar getur jöfnum höndum farið fram með hefðbundnum og óhefðbundnum aðferðum, innan sem utan stofnana, eða í starfi með sjálfshjálparhópum. Finna verður leið til þess að jafnan verði í boði raunverulegt val svo leita megi annað ef þjónusta stendur ekki undir væntingum. Núverandi aðstæður hvetja þá sem veita þjónustuna aðeins til að gera þeim til hæfis sem deila úr ríkiskassanum en ekki þeim sem nota hana.

Næsta skref sjálfseflingar fyrir þá sem hafa áhuga er að taka þátt í starfi sem hefur áhrif á málaflokkinn, t.d. aðstoða fólk sem styttra er komið í bataferlinu, uppfræða almenning um geðsjúkdóma, þrýsta á hið opinbera með úrbætur í ákveðnum málum eða gera tillögur um lagabreytingar. Þegar notendur eða aðstandendur eru orðnir öruggir í hópastarfi og vita á hverju ákvarðanatökur byggjast geta þeir tekið næsta skerf sem er þátttaka í stefnumótun eða þróun þjónustu í samvinnu við stjórnmálamenn, fulltrúa faghópa, notendasamtök, fulltrúa úr atvinnulífinu, skólunum og við hinn almenna borgara.

Markmið hefðbundinnar geðheilbrigðisþjónustu er ekki að auka áhrif, deila ábyrgð né völdum með geðsjúkum eða aðstandendum þeirra. Sérfræðingar í geðsjúkdómaflokkunarkerfinu hafa völdin, ákveða hvar þörfin sé, styrkleikann og hvaða úrlausnir skuli velja. Geðsjúkdómaflokkunarkerfið á fyllilega rétt á sér í bráðaveikindum og við áföll og slys. Ástæða þess að hverfa þarf frá stofnanaþjónustu er að hún hefur ómeðvitað gert fólk háð kerfinu þar sem það er hindrað í að taka þátt í raunverulegum verkum sem skipta það máli. Flest atriði sem lúta að stofnanamenningunni virðast í sjálfu sér rétt og saklaus, en á heildina hindra þau fólk í að eflast. Útgangspunkturinn er góður, starfsfólk vill gera gott og hjálpa.

Árangursmælingar hefðbundinna aðferða og sjálfeflingar eru gjörólíkar. Hin hefðbundna mælir t.d. hve margir fá ákveðna greiningu, sjúkdómseinkenni og fjölda meðferða. Árangursmælingar sjálfseflingar eru viðhorf og upplifun skjólstæðinga. Skoðaðir eru þættir eins og sjálfsákvörðunarréttur, val, hvað virki, áhrif, jafnrétti og þátttaka í samfélaginu. Það er engin tölfræði til sem mælir t.d. færni fagfólks til að efla fólk í samákvörðunartöku eða á hvern hátt hópur hefur haft áhrif á kerfið.

Heilbrigðisráðherrar Evrópu skrifuðu undir vegvísa þar sem fram kemur að lykilþættir geðræktar þurfi að speglast í stefnumótun heilbrigðisáætlana og í mennta- og atvinnumálum. Grunnur geðræktar er sjálfsefling (empowerment) þar sem sjálfstraust og sjálfsvirðing eru undanfari breytinga. Ef hugmyndafræðin að baki ákvarðanatöku í geðheilbrigðismálum er ekki skoðuð þá er hætta á að sú hugmyndafræði sem ríkt hefur inni á stofnunum verði flutt hrá út í samfélagsþjónustuna. Fjölgað yrði sambýlum sem kæmu í stað vistunar á sjúkrastofnunum; minni einingar en með sömu menningu og er inni á stofnununum. Í stað þess að fá þjónustu inni á sjúkrahúsi fær viðkomandi hana heima eða í gegnum heilsugæsluna og þá með óbreyttum aðferðum.

Kæru ráðamenn, það væri óskandi að lausnin fælist eingöngu í meiri fjárútlátum, aukinni fjölbreytni og samfélagsnálgun. Svo er ekki og því verður, ef betri árangur á að nást í þessum málaflokki, að skoða hugmyndafræðina að baki þjónustunni. Það verður tæpast hjá því komist að setja ný lög og reglugerðir sem efla áhrif geðsjúkra og aðstandenda þeirra og flétta aðferðir sjálfseflingar í þjónustuna.

Elín Ebba Ásmundsdóttir fjallar um vandamál geðfatlaðra