1. apríl 2005 | Myndlist | 593 orð | 1 mynd

Glerlist | Leifur Breiðfjörð opnar sýningu á glerverkum í Forrými Salarins, Tónlistarhúss Kópavogs

Steindir gluggar og svífandi drekar

Leifur Breiðfjörð með glerdreka og steind gluggaverk í baksýn. "Andi mannsins er táknaður með höfuðforminu og gengur í gegnum allar myndirnar á sýningunni. Þetta eru steindir gluggar og svífandi glerdrekar sem ég hef hengt upp í loftið hér í forsalnum en einnig sýni ég eitt verk sem unnið er með blandaðri tækni."
Leifur Breiðfjörð með glerdreka og steind gluggaverk í baksýn. "Andi mannsins er táknaður með höfuðforminu og gengur í gegnum allar myndirnar á sýningunni. Þetta eru steindir gluggar og svífandi glerdrekar sem ég hef hengt upp í loftið hér í forsalnum en einnig sýni ég eitt verk sem unnið er með blandaðri tækni." — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
ANDI manns er yfirskrift sýningar á 20 glerverkum sem Leifur Breiðfjörð opnar í Forrými Salarins, Tónlistarhúsi Kópavogs á morgun kl. 15.
ANDI manns er yfirskrift sýningar á 20 glerverkum sem Leifur Breiðfjörð opnar í Forrými Salarins, Tónlistarhúsi Kópavogs á morgun kl. 15. Þetta er óvenjulegt sýningarrými fyrir myndlist, þar sem Forrýmið er eins konar glerskáli en Leifur segir þetta einmitt henta glerverkum sínum mjög vel þar sem birtan kemur að utan, lýsir í gegnum verkin eins og svo nauðsynlegt er með glerverk. "Það er líka gaman að því hvað birtan er breytileg eftir tíma dagsins og á kvöldin er ljós hér inni svo áhorfendur geta upplifað verkin á fjölbreyttan hátt," segir Leifur.

Hafði rýmið í huga

Það er reyndar ekki tilviljun að Leifur kýs að sýna í þessu rými, hann hefur unnið að verkunum á sýninguna undanfarin þrjú ár þó flest þeirra séu unnin á síðasta ári og nokkur á því sem af er þessu ári. "Mér var boðið að vera með þessa sýningu þegar ákveðið var að halda hér alþjóðlega ráðstefnu um nútímaglerlist," segir Leifur og verkin eru því öll unnin með þetta rými sérstaklega í huga. "Andi mannsins er táknaður með höfuðforminu og gengur í gegnum allar myndirnar á sýningunni. Þetta eru steindir gluggar og svífandi glerdrekar sem ég hef hengt upp í loftið hér í forsalnum en einnig sýni ég eitt verk sem unnið er með blandaðri tækni. Í verkunum má sjá óræðan texta, fljúgandi fugla og dulúðugar forynjur, spurul höfuð, sum með grímur og huliðshjálma í litríkri veröld furðufyrirbæra," segir Leifur þegar hann er beðinn að lýsa myndefninu nánar.

Í sýningarskrá ritar Pétur Pétursson prófessor í guðfræði eftirfarandi um verk Leifs á þessari sýningu: "Hausinn" hans Leifs er gegnumgangandi þema á þessari sýningu. Stundum er eins og það sé hula eða hjálmur yfir þessum hausum sem hlífa persónuleikanum. Við getum sett þessa huliðshjálma á okkur þá erum við komin inn í annan heim. Þótt þeir séu óræðir eru þeir samt alltaf í tengslum við efnislegan veruleika - hvort sem er á himni, á jörðu eða neðan jarðar. Myndir Leifs minna okkur flestar á eitthvað sem við þekkjum en um leið benda þær okkur út fyrir það í áttir sem við höfum ekki gert okkur grein fyrir að séu til, áttir sem virðast heillavænlegar og óræðar í senn."

Guðbjörg Kristjánsdóttir, forstöðumaður Gerðarsafns, segir í sýningarskránni að Leifur Breiðfjörð hafi "þá sérstöðu meðal íslenskra listamanna að hafa helgað sig glerlistinni og óhætt að segja að í meðförum hans hafi þessi aldni miðill aldrei verið angi af annarri listgrein heldur ætíð gegnt lykilhlutverki. Fyrir réttum áratug hélt Leifur Breiðfjörð yfirlitssýningu í Gerðarsafni í tilefni 50 ára afmælis síns. Sú sýning markaði tímamót í sögu þessa nýstofnaða safns . Hún fékk fádæma góða viðtökur hjá almenningi og var betur sótt en flestar aðrar sýningar í safninu fram til þess dags.

Það er sérstakt fagnaðarefni að fá aftur tækifæri til að sýna verk Leifs þegar hann sjálfur stendur á sextugu og liðin eru 10 ár frá yfirlitssýningu hans í Gerðarsafni. Og ekki skyggir það á gleðina að sýning Leifs er í tengslum við alþjóðlegt glerlistaþing, Ísland 2005, sem Leifur hefur ásamt eiginkonu sinni Sigríði Jóhannsdóttur lagt mikla vinnu í að skipuleggja."

Samtímaglerlist í brennidepli

Þau Leifur og Sigríður segja að með sýningunni og þinginu, sem hefst á þriðjudag, sé mikill áfangi að baki í starfi þeirra beggja undanfarin ár. "Þær Sigríður og Caroline Swash glerlistamaður og kennari við Central Saint Martin listaskólann í London eiga hugmyndina að þinginu," segir Leifur. Í tengslum við þingið koma hingað um 100 manns erlendis, allt þekktir listamenn og sérfræðingar á sviði glerlistar. "Samtímaglerlist verður í brennidepli hér í Kópavogi í næstu viku," segja þau Leifur og Sigríður að lokum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.