4. apríl 2005 | Íþróttir | 282 orð | 1 mynd

Höttur í úrvalsdeildina í fyrsta sinn

Leikmenn Hattar fagna glæstum sigri og sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð, en þetta er í fyrsta skipti sem lið af Austurlandi vinnur sér sæti í efstu deild í körfuknattleik.
Leikmenn Hattar fagna glæstum sigri og sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð, en þetta er í fyrsta skipti sem lið af Austurlandi vinnur sér sæti í efstu deild í körfuknattleik. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
HÖTTUR frá Egilsstöðum tryggði sér í gærkvöldi sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í fyrsta sinn í sögu félagsins þegar liðið sigraði Val, 91:56, í öðrum úrslitaleik liðanna um laust sæti í deildinni.
HÖTTUR frá Egilsstöðum tryggði sér í gærkvöldi sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í fyrsta sinn í sögu félagsins þegar liðið sigraði Val, 91:56, í öðrum úrslitaleik liðanna um laust sæti í deildinni. Höttur hafði einnig betur í fyrri leiknum sem fram fór á Hlíðarenda á föstudagskvöldið, 89:87.

Eugene Christopher, þjálfari Hattar, sagði í samtali við Morgunblaðið að liðið hefði verið í toppformi og ætlað sér stóra hluti í leiknum, sú hefði og orðið raunin. Valsmenn hefðu eftir miðbik leiksins ekki haft roð við Hattarmönnum og virst slæptir. Eugene hefur þjálfað Hött í vetur og segist þess albúinn að fylgja liðinu upp í úrvalsdeildina en hann var stigahæstur með 35 stig.

"Vörnin og liðsheildin hafði úrslitaþýðingu í þessum sigri okkar. Valsmenn skoruðu aðeins 56 stig í leiknum og það munaði öllu," sagði þjálfarinn, ánægður með sína menn.

Hannibal Guðmundsson er aldursforseti Hattarliðsins, 37 ára gamall. Hann skoraði grimmt og lagði upp margar körfur.

"Okkur líður frábærlega og það verður að segjast eins og er að við bjuggumst nú heldur við þessu. Við vorum búnir að taka þá strax í hálfleik, stemningin í húsinu var góð og menn einbeittir í þessu. Þetta var aldrei spurning.

Við unnum fyrri leikinn með tveggja stiga mun, það var hörkuleikur og Valsmenn þá tilbúnir í slaginn. Þeir voru það ekki í þessum leik, þeir hafa sjálfsagt aldrei trúað að þetta gæti gerst," sagði Hannibal kampakátur.

Um 500 Egilsstaðabúar studdu sitt heimalið og var stemningin mikil og ætlaði raunar allt um koll að keyra þegar líða tók að leikslokum. Hreinn Halldórsson, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum, segir að stemningin hafi verið með því besta sem gerst hafi í húsinu.

Höttur fylgir Þór á Akureyri upp í úrvalsdeildina í haust.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.