7. maí 2005 | Menningarblað/Lesbók | 1307 orð | 1 mynd

BÆKUR - Fræðirit

Sigmund Freud á íslensku

LISTIR OG LISTAMENN; TÓTEM OG TABÚ OG MÓSE OG EINGYÐISTRÚIN; SJÚKRASÖGUR.

Sigurjón Björnsson
Sigurjón Björnsson
Höfundur: Sigmund Freud. Íslenskar þýðingar: Sigurjón Björnsson. Hið íslenzka bókmenntafélag 2004.
Í FYRRA stofnuðu íslenskir þýðendur og túlkar með sér bandalag og nýverið veittu þeir í fyrsta skipti Íslensku þýðingarverðlaunin. Eitt af markmiðum bandalagsins er að vekja athygli á því mikla og mikilvæga starfi sem þessi stétt vinnur í þágu íslenskrar menningar, oft án þess að njóta mikillar eftirtektar eða viðurkenningar. Þó skilja líklega flestir mikilvægi þess fyrir fámenna þjóð að fá á sína eigin tungu, þó ekki væri nema brot af því besta sem skrifað hefur verið í veröldinni; til að njóta, til að fræðast og skilja betur heiminn og til að veita ferskum áhrifum inn í lítið samfélag. En sé það aðeins brot af því besta sem þýtt er á íslenska tungu af heimsbókmenntum, þá er það bara örlítið brotabrot sem þýtt er af erlendum fræðiritum á íslensku. Um árabil hefur það aðallega verið Hið íslenzka bókmenntafélag sem staðið hefur fyrir markvissri útgáfu á erlendum fræðiritum með svokölluðum Lærdómsritum sem er bókaflokkur sem nú telur 50 rit. Þá má nefna fræðiritaútgáfu Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands og Atviks-ritröð ReykjavíkurAkademíunnar sem markvissar tilraunir til að koma erlendum fræðum á framfæri í íslenskum þýðingum. En það sem skiptir kannski mestu máli í þessu samhengi er einstaklingsframtakið; að hæfir einstaklingar finni sig knúna til að þýða mikilvæg erlend skáldrit og fræðirit á íslensku þrátt fyrir öll þau ljón sem leynast í veginum. Það að við skulum eiga þýðendur á borð við Ingibjörgu Haraldsdóttur, Guðberg Bergsson, Helga Hálfdanarson, Þorgeir Þorgeirson og Magnús Ásgeirsson, svo fáir séu nefndir, er afar verðmætt fyrir íslenskt menningar- og menntakerfi.

Grettistak á sviði þýðinga

Sigurjón Björnsson sálfræðingur er í hópi þeirra sem hafa lyft grettistaki á sviði þýðinga á erlendum fræðiritum yfir á íslenska tungu. Á undanförnum 15 árum hefur Sigurjón þýtt og gefið út mörg af grundvallarritum Sigmunds Freuds í vönduðum íslenskum þýðingum með eigin formálum og skýringum. Þá hefur hann einnig þýtt rit Aristótelesar, Um sálina, og bók Piagets, Formgerðir vitsmunalífsins, og tilheyra þessar bækur allar bókaflokknum "Sálfræðirit" sem Hið íslenzka bókmenntafélag gefur út, en fyrsta ritið í þeim flokki var reyndar bók eftir Sigurjón sjálfan, Sálkönnun og sállækningar, sem kom út árið 1983. Fyrir síðustu jól komu út, á einu bretti, þrjár bækur eftir Freud í þessum flokki og samtals hefur Sigurjón því gefið út verk Freuds í tíu bókum, þar á meðal margar af hans þekktustu ritgerðum. Nefna má Inngangsfyrirlestra um sálkönnun sem telja þrjú bindi, ritgerðirnar Undir oki siðmenningar og Blekking trúarinnar, sem og Draumar og hugvilla sem hefur að geyma hina frægu greiningu hans á sögunni Gradivu eftir Williams Jensen, sem gjarnan er notuð sem skólabókardæmi um textagreiningu sem byggir á sálgreiningu.

Sigmund Freud er vafalaust með umdeildustu kenningasmiðum 20. aldarinnar en jafnframt líklega einn sá áhrifamesti. Þótt flestir geri sér grein fyrir því að mikið af kenningum hans á sér sögu- og menningarlegar forsendur sem að mörgu leyti eru fallnar úr gildi (eru byggðar á viðhorfum feðraveldis og samfélagsgerðar sem er ekki lengur við lýði), er erfitt að neita því að kenningar hans mynda grundvöll að skilningi okkar á manninum. Áhrifa Freuds gætir ekki aðeins innan sálarfræða, heldur ná þau inn í margar aðrar fræðigreinar og kannski ekki síst inn í bókmenntafræði. Líkt og Freud, fást bókmenntirnar við könnun á manneskjunni í samskiptum við umhverfi sitt og aðra, þannig að þeir sem fást við bókmenntarýni geta nýtt sér margt úr fræðum Freuds. Hann var einnig sjálfur mikill bókmenntaunnandi og sækir gjarnan til bókmennta til að skýra kenningar sínar, þannig að samspilið á milli Freuds og bókmennta er tvíátta, ef svo má að orði komast.

Þær þýðingar Sigurjóns Björnssonar sem komu út fyrir síðustu jól ættu allar að vekja athygli bókmenntafólks ekki síður en sálkönnuða, því hér er m.a. um að ræða margar af þeim ritgerðum hans sem fjalla beint um listir og listamenn, auk þess að frægasta og umdeildasta "sjúkrasagan" hans (um "Dóru") er hér birt í heild sinni, sem og bókin Tótem og tabú þar sem Freud fjallar, í fjórum ritgerðum, ítarlega um uppruna trúarbragða og ödípusarduldina.

Í bókinni Listir og listamenn (251 bls.) eru birtar sex af ritgerðum Freuds. Sú veigamesta er ritgerðin Bernskuminning Leonardós da Vinci sem oft er talin upphafið að svokallaðri ævisöguaðferð í listrýni, þótt flestum finnist ályktanir þær sem Freud dregur þar um listamanninn - af afar litlum upplýsingum - um margt mjög hæpnar. Sérstaklega hæpnar hygg ég að flestum þyki kenningar hans um sálrænan uppruna kynhverfu hjá karlmönnum sem hann setur hér fram. Í bókinni eru einnig ritgerðirnar Skáldið og dagdraumarnir, þar sem Freud rekur uppruna skáldgáfunnar til ímyndunarafls og dagdrauma og líkir iðju skáldsins við leik barnsins. Þá er hér birt ritgerð hans Hið óhugnanlega, sem kalla má fagurfræðilega rannsókn. Hér er Freud að reyna að skýra eðli þess sem vekur okkur ótta og veldur hryllingi. Hann byrjar á því að kafa ofan í orðsifjafræði og merkingu orðsins umheimlich (á þýsku) og minnir það á aðferðir þeirra sem löngu síðar aðhylltust afbyggingu (deconstruction) í textagreiningu. Auk þeirra ritgerða sem þegar hefur verið minnst á eru hér birtar ritgerðir um atriði úr leikriti Shakespeares, Kaupmanni í Feneyjum, um styttuna af Móse eftir Michelangeló, og að síðustu um eina bernskuminningu Göthes. Það er þýðandinn sjálfur sem velur þessar ritgerðir saman (þær hafa ekki áður birst saman á bók) og gefur val hans ágæta mynd af því sem Freud skrifaði um listir og listamenn, en ég sakna þess þó að hann hafi ekki valið með ritgerð Freuds um Dostojevskí.

Sálgreiningarsögur

Önnur bókin ber titilinn Sjúkrasögur (284 bls.) og er um að ræða tvær af lengstu sjúkrasögum Freuds, frásögninni af Dóru, eins og áður er getið, og hins vegar sagan af hinum svokallaða "Úlfamanni" sem Sigurjón segir að sé "að verulegu leyti varnarrit" fyrir þá kenningu að bernskuáföll gætu myndað grundvöll taugaveiklunar síðar á ævinni, en um það hafði staðið mikill ágreiningur meðal Freuds annars vegar og þeirra Adlers og Jungs hins vegar. Í formála sínum að ritgerðinni nefnir Sigurjón ýmsa galla á henni en telur þó engu að síður að sálgreiningin sem þar er lýst sé "þrekvirki, sem ber vott um mikla snilli". Það kann að vera rétt en ég tel hins vegar víst að fáir myndu fallast á að sálgreining Freuds á Dóru beri vott um mikla snilli. Frásögnin af Dóru er líklega einn umdeildasti texti tuttugustu aldarinnar og hafa verið skrifaðar ótal greinar og jafnvel bækur um þessa sjúkrasögu. (Benda má á fína grein Dagnýjar Kristjánsdóttur, "Dóra í meðferð Freuds", í tímariti Hugvísindastofnunar, Ritinu 2. hefti 2003.) Frásögn Freuds hefur verið notuð sem skólabókardæmi um það hvernig kvenfyrirlitning og fordómar feðraveldis gátu blindað jafnvel færustu vísindamenn þegar kom að því að meðhöndla konur. Henni hefur einnig verið beitt til að "sálgreina" Freud sjálfan, en flestir fagmenn munu sammála um það að hann hafi ekki gert sér grein fyrir sinni eigin gagnyfirfærslu (e. counter-transference) í sambandinu við sjúklinginn. Sigurjón segir Freud hafa komið "fram sem harðsvíraður og miskunnarlítill leynilögreglumaður og raunar heldur fjandsamlegur" og segir einnig ljóst að "Freud féll ekki þessi sjúklingur í geð". En þessi fræga frásögn er allrar athygli verð, t.a.m. er fróðlegt að lesa um túlkanir Freuds á tveimur draumum Dóru sem eru þungamiðjan í frásögninni.

Þriðja bókin sem hér er um rætt hefur að geyma tvær langar ritsmíðar Freuds, Tótem og tabú og Móse og eingyðistrúin (370 bls.). Þær eru skrifaðar með löngu millibili og eru um margt ólíkar, en Sigurjón færir rök að því að þær heyri saman, að sú síðari sé n.k. framhald þeirrar fyrri. Báðar fjalla þær m.a. um trúarbrögð, hvor á sinn hátt, auk þess að fjalla um grundvallarformgerðir sálarlífsins.

Sigurjón Björnsson á þakkir skildar fyrir það mikla þýðingarstarf sem hann hefur innt af hendi á verkum Sigmunds Freuds. Það er mjög gagnlegt að hafa aðgang að þessum grundvallartextum sálgreiningarinnar á íslensku því, eins og ítrekað var hér framar, þá er hér um að ræða kenningar sem mynda undirstöðu fyrir margt sem hugsað var og skrifað síðar.

Soffía Auður Birgisdóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.