30. maí 2005 | Bréf til blaðsins | 387 orð | 1 mynd

Skák og minningar

Edda Júlía Þráinsdóttir
Edda Júlía Þráinsdóttir
Frá Eddu Þráinsdóttur: "NÝLEGA gaf Skáksamband Íslands út afmælisrit um Friðrik Ólafsson, fyrsta stórmeistara Íslendinga í skák, í tilefni af 70 ára afmæli hans. Ég óska Friðriki til hamingju með áfangann enda fá ekki allir að lifa svo lengi."
NÝLEGA gaf Skáksamband Íslands út afmælisrit um Friðrik Ólafsson, fyrsta stórmeistara Íslendinga í skák, í tilefni af 70 ára afmæli hans. Ég óska Friðriki til hamingju með áfangann enda fá ekki allir að lifa svo lengi.

Það sem vakti mest athygli mina í þessu riti er það sem ekki stendur þar. Hvergi er minnst á Freystein Þorbergsson sem fékk Hermann Pilnik hingað til lands 1955 til að tefla við Friðrik Ólafsson. Einnig kom hann stúdentamótinu 1957 hingað sem þá var stærsti skákviðburður sem hafði verið haldinn á Íslandi. Hann stóð einnig fyrir því að fá Fischer hingað til lands 1960 til að tefla á minningarmóti Eggerts Gilfers, en Fischer kom of seint svo annað mót var haldið í tilefni af komu hans. Freysteinn var eini Íslendingurinn á þingum FIDE þegar heimsmeistaraeinvígi Fischers og Spasskys var á dagskrá 1971 og 1972 og vann að því að það yrði haldið hér á landi að eigin frumkvæði og á eigin kostnað. Hann samdi tilboð Íslendinga og fór með það til Amsterdam fyrir hönd SÍ. Er heimsmeistaraeinvígið 1972 langstærsti skákviðburður sem haldinn hefur verið á Íslandi fyrr og síðar.

Freysteinn fylgdi Friðriki Ólafssyni á stórmót í Júgóslavíu 1958 og 1959 þegar Friðrik var að vinna stórsigra á framabrautinni og skrifaði þá greinar um frægðarferil hans sem urðu afar vinsælar hér á landi. Einnig var Freysteinn í sjálfboðastarfi við að aðstoða Friðrik í biðskákum og vera honum innan handar í þessum erfiðu keppnum.

Að ekki skuli minnst á Freystein í þessu afmælisriti segir auðvitað ekkert um Freystein en því meir um þá sem að því standa.

Freysteinn hefur nú legið í gröf sinni í tæplega 31 ár. Hann var eini Íslendingurinn sem var fulltrúi Íslands á alþjóðaþingum FIDE 1955-1972, utan eitt þing er Friðrik Ólafsson sótti (að mig minnir 1965). Freysteinn vann að því ötullega á þingum FIDE að Íslendingar fengju boð á stórmót en erfitt var að komast í slíkt á þeim tíma og er kannski enn þegar ungir og efnilegir skákmenn eru að vinna sig upp. Friðrik naut því krafta Freysteins á ýmsan hátt á þessum árum og átti hann því ekki að gleymast í þessu afmælisriti.

Ég óska Friðriki alls góðs í framtíðinni og vona að efri árin fari mjúkum höndum um þennan mikla skáksnilling okkar.

EDDA ÞRÁINSDÓTTIR

var eiginkona Freysteins Þorbergssonar sem lést 23.10. 1974.

Frá Eddu Þráinsdóttur:

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.