[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir telja hægt að hagræða umtalsvert í íslenska bankakerfinu. Útlit er fyrir að útibúum muni fækka á næstu árum og jafnframt því muni hlutverk og þjónusta þeirra breytast.

Margir telja hægt að hagræða umtalsvert í íslenska bankakerfinu. Útlit er fyrir að útibúum muni fækka á næstu árum og jafnframt því muni hlutverk og þjónusta þeirra breytast. Arnór Gísli Ólafsson og Bjarni Ólafsson kynntu sér þessi mál og ræddu við stjórnendur í stóru bönkunum þremur.

Þ rátt fyrir að útibúum viðskiptabankanna hafi fækkað lítillega á undanförnum árum eru margir þeirrar skoðunar að þau séu of mörg og að kostnaðurinn við rekstur þeirra, sem á endanum lendir á viðskiptavinum, sé allt of mikill. Íslandsbanki hefur raunar tilkynnt að hann muni loka fjórum útibúum á þessu ári, þar af þremur á höfuðborgarsvæðinu. Talsmenn viðskiptabankanna þriggja, Íslandsbanka, Landsbanka og Kaupþingsbanka, draga alls ekki dul á að útibúum muni fækka í framtíðinni. Þeir segja jafnframt ljóst að þau verði stærri og muni sinna víðtækari fjármálaþjónustu. Um sparisjóðina, sem reka fjölmörg útibú vítt og breitt um landið, virðist gegna nokkuð öðru máli enda byggist viðskiptahugmynd þeirra m.a. á mikilli "nálægð" við viðskiptavinina en eins má ekki gleyma að eignarhald er þar með allt öðrum hætti og ávöxtunarkrafa önnur en í viðskiptabönkunum þremur.

Bankamenn viðurkenna að lokun útibúa, einkum og sér í lagi á landsbyggðinni, sé afar viðkvæmt mál fyrir ímynd bankanna. Það er kannski af þessum sökum sem þeir vilja frekar tala um "sameiningu" útibúa, "styttingu afgreiðslutíma" o.s.frv. þegar hagræða á í útibúarekstri. Raunar mun það vera svo, eftir því sem Morgunblaðið kemst næst, að útibú viðskiptabankanna á landsbyggðinni eru rekin með litlum hagnaði eða jafnvel mun oftar með tapi.

En sem fyrr segir er lokun útibúa á landsbyggðinni viðkvæmt mál fyrir bankana, störf tapast og kannski ekki önnur atvinnutækifæri fyrir hendi, og slíkt getur komið illa við ímynd bankanna. En lokun landsbyggðarútibúa er einnig viðkvæm á viðskiptalegum forsendum; talað er um að ef stóru bankarnir loki útibúi á höfuðborgarsvæðinu kunni þeir að missa 5-10% viðskiptavinanna en loki þeir útibúi á landsbyggðinni tapi þeir öllum viðskiptavinunum. Það hve lokun útibúa hefur reynst óvinsæl aðgerð og bakað bönkum illt umtal er talinn vera einn helsti dragbíturinn á að bankaútibúum hafi ekki fækkað meira en raun ber vitni.

Mikil netnotkun, mörg útibú

Þrátt fyrir að nokkur hagræðing hafi átt sér stað í útibúarekstri bankanna á umliðnum árum hefur hún gengið hægar en margur hefði kosið. Þessar raddir segja grunninn að því útibúaneti, sem nú er, vera gamlan og frá þeim tíma þegar bankarnir voru miklu fleiri. Enn sé því mikið verk óunnið í hagræðingarmálum. Þá er og bent á að það hljóti að skjóta skökku við að þjóð, sem er allra þjóða duglegust við að nýta sér Netið í bankaviðskiptum, skuli á sama tíma reka útibúakerfi þar sem útibú á hvern íbúa eru miklu fleiri en í flestum öðrum löndum. Því hljóti enn að vera heilmikið svigrúm til hagræðingar í íslenska bankakerfinu og það hljóti aðeins að vera tímaspursmál hvenær hún muni verða. Síharðnandi samkeppni bankanna um viðskiptavini og minnkandi vaxtamunur hljóti að leiða til þess að þeir reyni að ná niður kostnaði.

Nýlegar samanburðartölur við nágrannalöndin um fjölda íbúa á hvert bankaútibú liggja ekki beinlínis á lausu en samaburðurinn er óhagstæður. Ætla má að bankaútibú séu um 200 talsins hér á Íslandi sem táknar að meðaltali innan við 1.500 íbúa á hvert bankaútibú en í Danmörku mun t.d. vera algengt að tíu til fimmtán þúsund íbúar séu á hvert útibú. Allur samanburður við Norðurlöndin mun vera okkur afar hagstæður, jafnvel samanburður við dreifbýlli lönd eins og til mynda Noreg og Finnland.

Munurinn á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins er minni en ætla mætti, á höfuðborgarsvæðinu eru um 70 bankaútibú sem gerir liðlega 2.500 manns á hvert útibú sem er allt of lítið að mati margra.

Hægt að spara milljarða

En hversu mikið er hægt að spara með fækkun útibúa? Í því efni eru engar fastar tölur í hendi en skotið hefur verið á að spara mætti um þrjá milljarða með því að fækka útibúum hér um helming. En á móti kæmi væntanlega að bankarnir myndu bjóða aukið vöruúrval og meiri þjónustu á öðrum sviðum.

Þá hefur og verið bent á að ná mætti fram umtalsverðri hagræðingu með markvissum aðgerðum í þá veru að fá viðskiptavini bankanna til þess að nota sjálfvirkar leiðir eins og Netið. Í þessu sambandi hefur verið bent á sérstök færslugjöld í útibúunum til þess að stýra notkun fólks á bankaþjónustu og beina henni á Netið eða í síma. Þetta hefur verið gert í mjög mörgum löndum en hér hefur þessi leið ekki verið farin. Samkeppni milli bankanna um viðskiptavini hefur líklega aldrei verið harðari en nú, "það er barist á götum úti" eins og einn úr bankaheiminum orðar það og

enginn þeirra hefur þorað að ríða á vaðið með að taka upp færslugjöld til að beina notkuninni meira á Netið þótt hagræðið af því þegar upp er staðið ætti að koma bæði bönkum og viðskiptavinum þeirra til góða.

Hvernig sem á málin er litið virðist mega ætla að enn sé rúm fyrir umtalsverða hagræðingu í bankakerfinu og að bankarnir muni leitast við að ná henni fram, aðeins sé spurning um hversu hratt þeir muni ganga fram í þeim efnum.

Stefnan að útibúin verði fjármálamiðstöðvar

HJÁ ÍSLANDSBANKA hafa menn farið mjög rækilega yfir allt útibúanet bankans og niðurstaðan var að þau yrði færri og stærri í framtíðinni. Ákvörðun um að sameina fjórar afgreiðslur útibúum sínum, þar af þremur á höfuðborgarsvæðinu, kom í kjölfar þessarar vinnu. Íslandsbankamenn hafa kosið að nota hugtakið fjármálamiðstöðvar í stað útibúa þar sem það fellur betur að framtíðarsýn þeirra um öflugri og færri einingar sem veita viðskiptavinum bankans alhliða fjármálaþjónustu og meiri ráðgjöf en nú er.

Veltum við hverjum steini

"Við veltum við hverjum steini í þessari vinnu og þetta var niðurstaðan," segir Haukur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka. Hann segir að með fækkun og stækkun útibúa sé hægt að veita fyllri og betri þjónustu. "Þjónustan er að breytast mjög mikið. Við finnum fyrir því að viðskiptavinir okkar eru að kalla eftir meiri ráðgjöf og meiri alhliða fjármálaþjónustu en verið hefur hingað til. Við horfum auðvitað upp á það að starfsmenn okkar séu að hluta til fastir í einfaldri afgreiðslu, millifærslum, afgreiðslu gíróseðla o.s.fr.v. í stað þes að sinna þessu hlutverki. Verkefni framtíðarinnar er að færa þjónustuna í þessa átt, þ.e. að koma afgreiðslumálunum sem mest á Netið og í gegnum síma en að sinna í auknum mæli ráðgjöf og flóknari fjármálaþjónustu í útibúunum, sem við höfum kosið að kalla fjármálamiðstöðvar. Þannig sjáum við viðskiptavininn geta fengið ráðgjöf um fjárfestingar, lífeyrissparnað, húsnæðislán eða hvaðeina sem að fjármálum lýtur hvort heldur sem um einstakling eða fyrirtæki er að ræða."

Haukur dregur ekki dul á það að það sé hans mat að útibú banka og sparisjóða á Íslandi séu allt of mörg og það eigi ekki síst við um höfuðborgarsvæðið. "Í samanburði við önnur lönd eru útibú á Íslandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, of mörg. Fæstir gera sér grein fyrir því að það eru 70 útibú banka og sparisjóða á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Á svipuðu svæði á Norðulöndunum væru um 15- 20 útibú. Ég held að allir sem starfa í þessum geira geri sér grein fyrir að það verði að breyta þessu. Við erum að því og ég efast ekki um að hinir bankarnir eru að velta þessum málum fyrir sér líka. Ég er sannfærður um að þetta eigi eftir að breytast enda er það engum til hagsbóta að hafa útibúanet bankanna eins og það er nú. Þau eru einfaldlega of mörg og kostnaðurinn of mikill."

Haukur bendir á að þegar rætt sé um fækkun útibúa verði menn einnig að hafa í huga þær tækniframfarir sem hafi átt sér stað, ekki síst með tilkomu heimabanka á Netinu. Hann segir þó margt ógert í þeim efnum.

Engum blöðum sé þó um það að fletta að á þessu sviði séu Íslendingar fremstir þjóða og íslensku bankarnir með þeim tæknivæddustu. Aðgerðir sem áður kölluðu á ferð í útibú hafi í auknum mæli færst á Netið eða í síma. Þannig fylgist mjög margir viðskiptavinir með reikningum sínum og fái upplýsingar á Netinu, t.d. um það sem þeir hafi verið að gera eða hvað gert hafi verið fyrir þá.

"En þegar við erum að tala um bókanir eða það sem við köllum fjárhagslegar færslur, þ.e. þar sem er verið að gera einhverjar aðgerðir, þá hefur það ekki með sama hætti færst eins mikið til. Þannig að við erum komin svona hálfa leið í tæknivæðingunni. Það er mikið búið en það er líka mikið eftir," segir Haukur.

Meðvituð tímasetning

Haukur viðurkennir að lokun útibúa sé aldrei vinsæl aðgerð og reyndar afar viðkvæm úti á landi en menn hafi sýnt málinu skilning. Útibú bankanna á höfuðborgarsvæðinu séu allt of mörg og þar hafi Íslandsbanki ákveðið að sameina þrjár afgreiðslur en aðeins eina á landsbyggðinni. "En það var mjög meðvitað hjá okkur að gera þetta núna þegar afkoman er tiltölulega góð og almennur uppgangur í efnahagslífinu og ástand á vinnumarkaði gott.

Það er allt annað að takast á við starfsmannamál við þau skilyrði sem nú eru. Tímasetning svona aðgerðar er mjög mikilvæg og hún var mjög meðvituð hjá okkur. Við fórum í gegnum sameiningar og fækkun útibúa í miðri niðursveiflu á árunum 1993- 1994 og það var erfiður tími. Í dag eru starfsmannamálin með þeim hætti að svigrúmið sem við höfum til þess að gera vel við starfsmenn er allt, allt annað."

Skipulagsbreytingar frekar en mikil fækkun

FRIÐRIK S. Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs KB banka, segist frekar búast við því að starfsemi og skipulag útibúa breytist á næstu áratugum en að þeim fækki mjög mikið.

"Þegar horft er langt fram í tímann er erfitt annað en að ímynda sér að útibúum muni eitthvað fækka, enda eru nú þegar í dag lítil útibú sem bjóða upp á fulla þjónustu en viðskiptum í þeim fer fækkandi, en frekar býst ég við skipulagsbreytingum útibúa en stórfelldri fækkun þeirra," segir Friðrik.

Hann segir erfitt að spá fyrir um hvort Íslendingar muni fylgja erlendri fyrirmynd þegar kemur að fyrirkomulagi á útibúamálum banka. Það sé rétt að fyrir um tíu árum fóru erlendir bankar að fækka útibúum, en þeir séu nú farnir að opna ný útibú.

"Eftir nokkurra ára tímabil þar sem útibúum erlendis fækkaði mjög virðist sem þeim fari aftur fjölgandi þrátt fyrir að bankastofnanirnar sjálfar séu mun færri en áður. Það virðist vera að menn hafi enn gaman að því að koma í bankann og að það séu takmörk fyrir því hve mikil viðskipti geta orðið yfir Netið."

Friðrik segir hins vegar að á móti komi það hversu tæknisinnaðir Íslendingar eru. "Netbankanotkun er til dæmis mun meiri hér á landi en annars staðar, þar sem dregið hefur úr vexti í notkun netbanka og virðist svolítið stöðnuð."

Tvenns konar útibú

Hann segir einnig breyttar áherslur í bankaþjónustu hafa áhrif á skipulag bankaþjónustu

"Þá er strúktúr útibúa að breytast - áður fyrr var þjónustan einfaldari, en nú ertu bankar farnir að veita víðtækari þjónustu, íbúðalán, fjármálaráðgjöf og jafnvel tryggingar. Þegar þú ert farinn að selja slíkar vörur þarftu að hafa afgreiðslustaði til að selja þær, því ekki er hægt að gera allt yfir Netið," segir Friðrik.

"Ég er því ekki viss um að við munum sjá mikla fækkun útibúa í framtíðinni, en útibú og starfsemi þeirra mun taka stakkaskiptum með aukinni og flóknari þjónustu sem bankar veita. Þannig býst ég við því að útibú verði af tvennum toga, annars vegar verði um mjög stór og fullkomin útibú að ræða þar sem öll hugsanleg þjónusta er veitt, og hins vegar fámenn útibú í byggðakjörnum."

Þegar að lokun útibúa kemur segir Friðrik það oft erfiðara að loka starfsstöðum á landsbyggðinni en í Reykjavík. "Þegar útibúi er lokað í höfuðborginni eiga viðskiptavinir ekki langt að sækja í næsta útibú bankans. Á smærri stöðum úti á landi eiga viðskiptavinir jafnvel ekki í önnur hús að venda og starfsfólkið sömuleiðis. Þess vegna eru lokanir þar mun erfiðari en ella."

Vegna þess hversu óvinsælar slíkar lokanir eru segir Friðrik það meir að segja geta borgað sig fyrir banka að halda úti óarðbæru útibúi vegna þess að það sé sársaukaminna fyrir fyrirtækið að þola tapið en slæma umfjöllun í kjölfar lokunar. Það séu þó takmörk fyrir því hvað slíkur taprekstur má vera mikill.

Hann bendir einnig á að undanfarin ár hefur orðið töluverð hagræðing í bankakerfinu með sameiningu útibúa og þegar Búnaðarbankinn tók yfir rekstur ákveðinna útibúa Íslandsbanka og öfugt. "Það má því ekki líta svo á að íslenska bankakerfið hafi ekkert breyst á undanförnum árum, en hagræðingin hefur kannski verið sársaukaminni og vakið minni athygli en ef um hreinar og beinar lokanir útibúa hefði verið að ræða.

Bankakerfið hér verður alltaf betur og betur rekið með tímanum og stenst samanburð við það sem gerist í öðrum löndum. Því er þó ekki neitað að Ísland er fámennt og dreifbýlt land, og það hefur áhrif á bankakerfið eins og annað," segir Friðrik.

Sérhæfðari og fjölbreyttari þjónusta

ÚTIBÚ verða færri og stærri í framtíðinni, en einnig sérhæfðari, að mati Sigurjóns Þ. Árnasonar, bankastjóra Landsbankans.

"Öll einfaldari afgreiðsla er jafnt og þétt að færast inn á Netið. Þannig fara nú um 65% af allri þjónustu og færslum hjá Landsbankanum um Netið og Bankalínu, en fyrir tveimur árum var hlutfallið um 44% og innan við 10% fyrir fjórum árum," segir Sigurjón. "Bæði fjölgar notendum netbankanna með hverjum degi, og þeir sem nota Netið nota það alltaf meira og meira og þess vegna eykst sífellt hlutfall af fjárhagslegum færslum sem fer fram í gegnum Netið," segir Sigurjón.

Samhliða þessari þróun segir Sigurjón hins vegar vöruúrval bankanna hafa aukist til muna og þess vegna sé almennt ekki minna að gera í útibúum þótt hefðbundin afgreiðsla hafi dregist saman. "Allt umtal um að útibúið sem stofnun sé úrelt er úr lausu lofti gripið, en verkefnin sem þau munu sinna verða önnur en áður."

Rafrænar undirskriftir

"Lánasýsla af öllu tagi hefur aukist mjög, sem og tryggingasala, verbréfaverslun og fjármálaráðgjöf og hefur því komið í staðinn fyrir þá afgreiðslu sem flust hefur á Netið. Þetta eru allt hlutir sem fólk á óhægt með að afgreiða yfir Netið, enn sem komið er að minnsta kosti," segir Sigurjón, en nefnir þó að þegar rafrænar undirskriftir verða að veruleika verður hægt að gera flóknari gerninga yfir Netið en nú er hægt.

"Annars tel ég að þróunin á næstu árum og áratugum verði í áttina að færri og stærri útibúum þangað sem viðskiptavinir munu geta sótt meiri og víðtækari þjónustu." Nefnir Sigurjón sem dæmi um þessa þróun að það sé að verða algengara að útibú séu með efnahag upp á um 5 milljarða króna, og þau stærstu jafnvel 30 milljarða, en meðalstærð útibúa sé enn í kringum 2,5 til 3 milljarðar króna.

Sigurjón segir þessa þróun ekki aðeins ráðast af hagræðingu, heldur einnig af áðurnefndri þróun í vöruúrvali bankanna. "Þjónustan er alltaf að verða flóknari og sérhæfðari og því er það eðlileg þróun að stærri útibú verði til, til að veita hana."

Sigurjón segir aukna sérhæfingu milli útibúa einnig þróun sem farin sé að láta á sér kræla. "Maður er farinn að verða var við ákveðna verkaskiptingu milli útibúa, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Sum útibú eru einfaldlega þannig staðsett að eðlilegt er fyrir þau að leggja meiri áherslu á einstaklingsviðskipti, meðan önnur sinna hlutfallslega fleiri meðalstórum fyrirtækjum." Hann segir þó öll útibú munu sinna öllum viðskiptavinum, en sérhæfing að einhverju marki sé eðlileg.

Pósthús og banki

Þá segir hann staðsetningu útibúa vera að breytast. Áður hafi menn staðsett útibú jafnvel inni í íbúðahverfum, en nú sé meira um að útibú séu sett á stofn á mörkum íbúða- og atvinnuhverfa. Algengast sé að fólk geri sín bankaviðskipti annaðhvort í hádegishléum, eða á leið heim úr vinnu, og því sé slík staðsetning hentugri.

Hvað varðar lokanir og sameiningar útibúa segir Sigurjón talsverða hagræðingu hafa orðið nú þegar. Útibú Landsbankans séu nú fjörutíu og átta talsins, en hafi verið 54 árið 2000 og árið 1996 voru þau 62. Hins vegar séu sum smá útibú þannig staðsett að erfitt sé að sameina þau öðrum, einfaldlega vegna þess að ekkert annað bankaútibú sé í viðkomandi bæjarfélagi. "Þá reynum við að draga úr kostnaði án þess að grípa til lokana, og höfum stundum gert það með því að stytta opnunartíma, eða með því að taka yfir annan rekstur, til dæmis póstþjónustu, til að renna styrkari stoðum undir rekstur viðkomandi útibúa," segir Sigurjón. Nefnir hann sem dæmi að í Sandgerði og á Skagaströnd sé málum þannig háttað.

arnorg@mbl.is og bjarni@mbl.is