[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SAMRUNI Burðaráss við Landsbanka Íslands annars vegar og Straum Fjárfestingarbanka hins vegar hefur verið samþykktur hjá Samkeppniseftirlitinu.

SAMRUNI Burðaráss við Landsbanka Íslands annars vegar og Straum Fjárfestingarbanka hins vegar hefur verið samþykktur hjá Samkeppniseftirlitinu. Greint var frá því í fyrradag að Fjármálaeftirlitið hefði samþykkt samrunann fyrir sitt leyti og hefur öllum formsatriðum fyrir samrunanum því verið fullnægt.

Sameining Burðaráss við Landsbankann og Straum var samþykkt á hluthafafundum félaganna þriggja um miðjan þennan mánuð í samræmi við skiptingar- og samrunaáætlun sem stjórnir félaganna samþykktu 1. ágúst síðastliðinn.

Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins til Kauphallar Íslands í gær segir að Straumi - Burðarási Fjárfestingabanka hf., sem er hið nýja heiti Straums, og Landsbanka Íslands hf. hafi í fyrradag verið send tilkynning um að ekki sé tilefni til þess að aðhafast neitt vegna samruna Burðaráss hf. við félögin. "Öllum skilyrðum fyrir skiptingu Burðaráss og samruna við annars vegar Straum - Burðarás Fjárfestingabanka hf. og hins vegar Landsbanka Íslands hf. hefur nú verið fullnægt," segir í tilkynningunni.

Þá segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins að skráning samruna félaganna hjá hlutafélagaskrá og viðeigandi hlutafjárhækkanir hjá Straumi - Burðarási Fjárfestingabanka hf. og Landsbanka Íslands hf. muni fara fram á morgun, föstudaginn 30. september, og muni Burðarás hf. verða afskráð þann dag úr hlutafélagaskrá. Af þessu tilefni verður lokað fyrir viðskipti með hluti í Burðarási þann dag í Kauphöll Íslands vegna skiptingar á hlutum í Burðarási hf. fyrir hluti í annars vegar Straumi - Burðarási Fjárfestingabanka hf. og hins vegar Landsbanka Íslands hf. í samræmi við þau skiptingarhlutföll sem fram koma í samþykktri skiptingar- og samrunaáætlun sem dagsett var 1. ágúst síðastliðinn.