Ingjaldur Kjartansson hárskerameistari fæddist í Reykjavík 30. sept. 1919. Hann lést á elliheimilinu Grund 25. september síðastliðinn. Foreldrar Ingjalds voru Guðbjörg Kristjánsdóttir, f. 19.7. 1893 á Rangárvöllum, d. 15.11. 1958, og Kjartan Sigurðsson, f. 22.8. 1894 í Grindavík, d. 19.3. 1973. Ingjaldur kvæntist 9. ágúst 1942 Köthe Bobo Lizzie Nielsen, síðar Kjartansson, f. 20.5. 1925 í Kaupmannahöfn, d. 16.7. 1994. Foreldrar hennar voru Emily og Carl Nielsen í Kaupmannahöfn, látin. Bróðir Lizzie er Freddy Nielsen, búsettur í Kaupmannahöfn. Dætur Lizzie og Ingjalds eru: 1) Svanhvít, f. 28.5. 1946, maki, Örn Ragnarsson, f. 13.5. 1950 á Akureyri. Sonur Svanhvítar er Örn Helgason, f. 12.10. 1969. 2) Lilja, f. 15.11. 1947. Börn hennar: eru Herdís Þorsteinsdóttir, f. 26.7. 1971, og Bjarni Heimir Þorsteinsson, f. 20.6. 1970.

Útför Ingjalds fór fram í kyrrþey, að ósk hins látna, frá Fossvogskapellu 30. september.

Látinn er í Reykjavík Ingjaldur Kjartansson hárskerameistari, góðvinur minn og starfsfélagi um nokkurra ára skeið. Kynni okkar Ingjalds hófust á Rakarastofunni í Eimskipafélagshúsinu árið 1965 er ég hóf nám í hárskurði. Það duldist engum er Ingjaldi kynntist, að þar fór mannkostamaður, víðlesinn, lífsreyndur og sigldur. Ingjaldur flutti ungur til Kaupmannahafnar árið 1937 til að nema iðngrein okkar, en erfitt var að komast í rakaranám hérlendis á þeim árum. Þótti sú ákvörðun Ingjalds djörf, en það var honum eðlislægt að vera hugmyndaríkur og eiga stóra drauma um ákvarðanir sem hann var vís til að hrinda í framkvæmd. Í starfi sínu á rakarastofunni American Barber á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn kynntist Ingjaldur þeim er þjónuðu stríðsrekstri þess tíma og var hafsjór af fróðleik um það ástand.

Ingjaldur var maður fjölmiðlunar og fylgdist grannt með gangi lands- og heimsmála. Hann var stoltur af því að Íslenska sjónvarpið var stofnað á afmælisdegi hans árið 1966. Þar til naut hann útsendinga ameríska sjónvarpsins frá Keflavík sem gaf honum aukið innsæi í gang heimsmálanna. Sjálfur var ég ekki eigandi sjónvarpstækis á þessum tíma, og átti því hauk í horni hvað varðar sjónvarpsáhorf á Grettisgötu 40 þar sem Ingjaldur og Lizzie höfðu búið sér fallegt heimili. Lizzie hafði Ingjaldur kynnst á Kaupmannahafnarárunum og fluttist hún með honum til Íslands. Móttökurnar á Grettistgötunni gleymast aldrei, ávallt smurbrauð að dönskum hætti eða heimabakað meðlæti.

Snyrtimennska og fagurt fataval var einkenni Ingjalds. Ljósgráar buxur, dökkblár blaserjakki, hvít skyrta, rauðleitt bindi, síður Burberry's frakki, Tírólahattur og vel burstaðir skór, allt eftir kúnstarinnar reglum. Um var talað og eftir tekið þegar þessi karakter gekk Laugaveginn á leið í eða úr vinnu. Allt það sem var danskt var Ingjaldi ljúft, kært og minnisstætt og féll vel að hans manngerð, danskur húmor, danskur matur, dönsku fánalitirnir, sem hann gjarnan hefði viljað mála bæinn rauðan með, þegar sá gállinn var á honum og lífið tekið með trukki og dýfu.

Útgáfa á Sögu hársnyrtiiðnaðarins er rétt óútkomin. Þar nutu sagnfræðingar er að útgáfunni standa, þekkingar Ingjalds á iðngreininni hérlendis sem erlendis frá fyrri tímum, þekkingar sem eflaust markar spor í söguna. Íþróttir stundaði Ingjaldur af kappi á námsárum sínum, lék knattspyrnu með KFUM Boldklub sem varð í þriðja sæti í dönsku deildinni haustið 1938 ásamt því að hljóta bikar í sundkeppni sama ár. Eftir heimkomu var hann meðlimur í knattspyrnufélaginu Val.

Við nokkrir hárskerar, sem allir höfum starfað á rakarastofunni í Eimskipafélagshúsinu í gegnum tíðina, höldum með okkur svolítinn félagsskap og hittumst við helstu tækifæri. Síðast fannst félögunum ótækt að félagsskapurinn hefði aldrei fengið nafn. Hugmyndin að nafngiftinni lét ekki á sér standa, og hver skyldi hafa átt hana? Jú, Ingjaldur, maðurinn með "húmoren" í lagi. "Spice guys", skyldi félagsskapurinn heita. Og rökstuðningurinn var tvítryggður fyrir nafngiftinni. Í fyrsta lagi, allir í félagsskapnum höfðu einhverntíma selt eða notað Oldspice rakvatn. Í öðru lagi, í London voru hörku söngdívur sem nefndu söngkvartett sinn Spice girls og værum við því ágætt mótvægi ef við færum einhvern tíma allir til London "to make it"!

Spice girls eru hættar en Spice guys starfa áfram þó skarð hafi verið höggvið í hópinn. Næst er við hittumst verður Ingjalds saknað, manns sem markaði spor og gustaði af.

Útför Ingjalds Kjartanssonar, hárskerameistara, fór fram frá Fossvogskapellu í kyrrþey, að viðstöddum fjölskyldu, nánum samstarfsfélögum og vinum, 30. september sl. sem orðið hefði hans 86. afmælisdagur.

Aðstandendum votta ég samúð.

Þorberg Ólafsson hárskeri.